Lyfjaverð til öryrkja

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 18:29:00 (826)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegur forseti. Það er auðvitað oft erfitt að draga mörkin og með ávanabindandi lyf held ég að neyslan ráði því hvort menn nefna þau ávanabindandi lyf eða fíkniefni. Alkóhól er uppistaða í mörgum lyfjum. Hins vegar vita það allir að það er ávanabindandi efni og þegar fíkn manna í alkóhól gengur úr hófi fram held ég að flestir verði sammála um að kalla það fíkniefni. Sérstaklega er varað við að gefa sjúklingum ákveðin róandi lyf til langframa vegna þess að þau eru ávanabindandi. Þegar neysla einstaklings á slíkum lyfjum er farin að skipta þúsundum taflna á ári má spyrja sig að því hvort það sé eðlilegt og æskilegt að slíkt sé greitt niður af ríkisvaldinu. Ég er hér með bréf í höndunum frá landlækni út af nákvæmlega slíku tilviki þar sem hann leggur til að lyfjakort sé ekki gefið út. Og án þess að mér eða okkur í heilbrrn. hafi gefist tími til að skoða einstök dæmi sem hér eru tilfærð þá er það einfaldlega staðreynd að þarna er um að ræða verulega mikla neyslu á róandi lyfjum og svefnlyfjum. Við verðum hins vegar að fá upp gefið hjá Sjálfsbjörg hvaða einstaklingar þetta eru til að geta skoðað málið betur og það verður gert.
    Það er líka staðreynd að þær upplýsingar sem hafa verið gefnar hér, m.a. upplýsingar um verð í þessum dæmum, eru ekki réttar. Það er ekki eftir mér að hafa í þeim efnum, það er eftir starfsmönnum heilbrrn., sem hafa farið yfir þetta og vita glöggt um þetta. Menn verða bara að taka því ef niðurstaðan er sú að rangar verðupplýsingar séu færðar inn í þessi dæmi þá er það svo og menn geta ekkert barið höfðinu við steininn með að neita því.
    Þá er það líka rangt að það hafi hér verið skjalfest að mikil hækkun hafi orðið á lyfjakostnaði öryrkja, í þessu bréfi Sjálfsbjargar. Ég gæti tilfært miklu fleiri dæmi en þau tíu sem þarna er um að ræða þar sem lyfjakostnaður öryrkja hefur stórlega lækkað og niðurstaða úr athuguninni sem Öryrkjabandalagið lét framkvæma var nákvæmlega þessi. Ég var að ræða við þá núna rétt áðan. Þeir segjast efast um að ef breytt yrði til baka til fyrra horfs mundi útkoman úr því vera til góðs fyrir öryrkja. En auðvitað eru dæmi um að öryrkjar borgi meira, sérstaklega ef um er að ræða neyslu á róandi lyfjum, deyfilyfjum, svefnlyfjum og hægðalyfjum. En það eru líka mörg dæmi þess að öryrkjar greiði minna fyrir lyfin sín en þeir gerðu.
    Niðurstaða þeirra tveggja lækna, sem skoðuðu málið fyrir Öryrkjabandalagið, var sú að þeir eru ekki sammála þeirri niðurstöðu Sjálfsbjargar að þessi breyting hafi hækkað lyfjakostnað öryrkja eins og kemur fram í ályktun frá landsþingi Sjálfsbjargar. Þeir eru ekki sammála. Auðvitað hefur Öryrkjabandalagið ekki gert neina ályktun í því efni, það er alveg rétt. En þeir sem framkvæmdu þessa athugun fyrir Öryrkjabandalagið komust að þessari niðurstöðu og ég reikna fastlega með því að Öryrkjabandalagið fari ekki að álykta þvert gegn niðurstöðu þeirra sérfræðinga sem könnuðu málin fyrir það.
    Auðvitað er sparnaður að nást, það er alveg rétt. Við erum búin að fá bráðabirgðatölur fyrir októbermánuð. Hann skilar meiru til kostnaðarlækkunar fyrir Tryggingastofnun ríkisins heldur en septembermánuður gerði. Þannig að við erum nú á fjórum mánuðum búin að ná álíka miklum árangri til sparnaðar í lyfjakostnaði og menn gerðu áætlun um að ná á heilu ári, á tólf mánaða tímabili.
    Ég ítreka það að auðvitað geta menn fundið einstök dæmi um að lyfjakostnaður hafi hækkað frá því sem áður var en menn geta líka tínt til dæmi um hið gagnstæða. Og ég ítreka það sem ég hef áður sagt úr þessum ræðustól að það er ekkert sem bendir til þess þegar á heildina er litið að lyfjakostnaður aldraðra, lyfjakostnaður öryrkja, lyfjakostnaður barnafólks og lyfjakostnaður þeirra, sem eiga við langvarandi sjúkdóma að stríða, hafi

hækkað.