Aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 13:50:00 (832)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á ýmsum lögum vegna aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Frv. er samið að tilhlutan dómsmrn. og er ásamt frv. til laga um nauðungarsölu og frv. til laga um einkamál í héraði, sem einnig hafa verið lögð fram á þessu þingi, lokaþátturinn í heildarendurskoðun á íslenskri réttarfarslöggjöf sem gerð hefur verið á undanförnum tveimur árum. Frv. tengist því þeirri nýskipan réttarfars og framkvæmdarvalds ríkisins í héraði sem grunnurinn var lagður að með lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 90/1989. Þau lög öðlast gildi 1. júlí 1992, en sama dag taka einnig gildi eftirfarandi lög á sviði réttarfars, lög um breytingar á þinglýsingarlögum, lög um aðför, lög um kyrrsetningu og lögbann, lög um meðferð opinberra mála, lög um skipti á dánarbúum og lög um gjaldþrotaskipti.
    Ákvæði þessara laga og frumvarpa taka til grundvallaratriða um skipan ríkisvaldsins í héraði, jafnt til stjórnsýslu ríkisins og dómstóla og leiða til umtalsverðrar breytingar á þeirri skipan sem nú er við lýði. Löggjöfin leysir af hólmi fjölda laga og lagaákvæða á sviði réttarfars sem sum hver eru meira en aldargömul.
    Víða í lögum er enn að finna tilvísanir í hugtök sem leggjast af og tiltekin ákvæði réttarfarslaga sem falla úr gildi þann 1. júlí 1992. Óhjákvæmilegt er að samræma slík fyrirmæli laga við hina nýju skipan. Sú samræming er reyndar vel á veg komin því að með áðurnefndum lögum sem samþykkt hafa verið í kjölfar aðskilnaðarlaga hafa verið felld úr gildi og gerðar breytingar á ákvæðum tæplega 170 annarra laga. Því til viðbótar verða væntanlega lagðar til breytingar á ákvæðum tæplega 80 laga í áðurnefndum frumvörpum um nauðungarsölu og til laga um meðferð einkamála. Tekist hefur með þessum hætti að gera fjölmargar nauðsynlegar breytingar á ákvæðum annarra laga. Engu að síður stendur eftir talsverður fjöldi lagaákvæða sem þarfnast einnig breytinga en ekki hefur verið tilefni

til að taka til endurskoðunar fram að þessu. Markmið þessa frv. er að reyna að ljúka því verki þótt ósennilegt sé að tekist hafi að ná fullkominni yfirsýn yfir öll þau lagaákvæði sem hefði þurft að fella úr gildi eða breyta í þessu skyni. Það stafar m.a. af því að veruleg lagahreinsun hefur átt sér stað síðustu ár án þess að nýtt lagasafn hafi verið gefið út og var þannig bundið vandkvæðum að afla fanga um ákvæði allra gildandi laga við gerð frv.
    Lagðar eru til breytingar á ákvæðum 107 laga í þessu frv. Í mörgum tilvikum er um fleiri en eina breytingu að ræða á viðkomandi lögum. Frv. er byggt upp með þeim hætti að lögum sem því er ætlað að breyta er raðað í aldursröð og er mælt fyrir um eina eða fleiri breytingar á hverjum lögum í einni grein. Skýringar eru við hverja grein þar sem lýst er í stuttu máli tilefni og inntaki breytinganna hverju sinni. Oft eru þó sömu ástæður fyrir breytingum í fleiri en einni grein. Til glöggvunar mun ég geta helstu atriða sem liggja til grundvallar breytingum margra lagaákvæða, en þau eru þessi:
    Hugtökin bæjarþing, sakadómur, fógetaréttur, skiptaréttur og uppboðsréttur eru nefnd víða í lögum, enda eru þetta heiti héraðsdómstóla samkvæmt núgildandi lögum um skipan dómsvalds í héraði nr. 74/1972. Með I. kafla aðskilnaðarlaganna nr. 92/1989 eru þessi sérheiti héraðsdómstóla sem ráðast að viðfangsefnum þeirra afnumin, en þess í stað munu dómstólarnir heita héraðsdómar og verða kenndir við umdæmi sín. Dómstólarnir munu því alltaf bera sama heiti hvort sem þeir fást við einkamál eða refsimál svo að dæmi sé tekið. Mörg ákvæði frv. miða að því að fella niður þessi eldri heiti, en setja í stað þeirra hið nýja almenna heiti héraðsdómstóla.
    Frv. miðar að því að embættisheitin bæjarfógeti og borgarfógeti falli alveg niður. Þetta er í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í II. kafla aðskilnaðarlaga, nr. 92/1989, um að allir þeir embættismenn sem fara með framkvæmdarvald ríkisins í héraði utan Reykjavíkur beri embættisheiti sýslumanna en teljast þó um leið lögreglustjórar og tollstjórar í sínum umdæmum. Hins vegar munu þessi störf í Reykjavík skiptast á milli sýslumanns, lögreglustjóra og tollstjóra en embættisheitin borgardómari og sakadómari falla einnig niður en í stað þeirra verður notað almennt samheiti um héraðsdómara. Í allmörgum ákvæðum frv. er verið að leggja til breytingu á lögum þar sem þessi brottföllnu embættisheiti koma fram.
    Víða í lögum er að finna ákvæði með hugtökum öðrum en þeim sem áður voru nefnd sem verða ekki lengur notuð eftir gildistöku nýrra réttarfarslaga. Sem dæmi má nefna fógetagerðir sem verða ekki nefndar því heiti eftir gildistöku aðfaralaga nr. 90/1989, heldur aðfarargerðir. Nokkur ákvæði í frv. lúta að því að breyta slíkum úreltum hugtökum í öðrum lögum og taka upp hugtök sem samrýmast nýrri réttarfarslöggjöf.
     Til samræmis við stefnumörkun í athugasemdum sem fylgdu frv. til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, sem varð að lögum 1989, er í nokkrum ákvæðum þessa frv. gerðar tillögur um tilfærslu verkefna frá dómsmrh. til sýslumanna. Sem dæmi um slíkt má nefna að sýslumenn munu annast ýmis viðfangsefni á sviði sifjamála og lögráðendamála sem heyra samkvæmt núgildandi lögum undir dómsmrn.
    Í frv. eru allmörg ákvæði sem stefna að því að fella á brott tilvísanir til eldri réttarfarslega sem falla niður 1. júlí 1992 eða eru jafnvel löngu fallin niður. Slík tilvísan er í mörgum tilvikum algerlega óþörf og hefur enga lagalega þýðingu. Í nokkrum greinum frv. eru lagðar til breytingar á lagaákvæðum þar sem dómara eru lögð í hendur tiltekin verkefni sem geta ekki fallið að viðfangsefnum dómstóla samkvæmt nýrri dómstólaskipan og réttarfarslöggjöf.
    Frú forseti. Ég hef í þessum fáu orðum farið yfir helstu efnisatriði þeirra fjölmörgu lagabreytinga sem lagt er til að gerðar verði vegna aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.