Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 15:01:00 (842)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en sagt hér fáein orð vegna orða hæstv. sjútvrh. Þessi ákvörðun um að selja veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs er mikil ákvörðun að mínu viti og er ákvörðun um að ríkið ætli í fyrsta skipti að selja veiðiheimildir á fullu verði. Það er ákvörðun sem er stefnumarkandi og ég tel að full ástæða sé til að kalla hana skattlagningu einfaldlega vegna þess að hún vísar veginn fram á við. Dettur mönnum í hug að eftir að ríkið er einu sinni farið að selja á fullu verði aðgang að fiskimiðunum verði ekki haldið áfram að gera það? Verða menn ekki komnir með hærri tölu til að selja á næsta ári til þess að ná sér í tekjur til sjávarútvegsins? Ég tel að þetta sé stefnumarkandi ákvörðun um að taka upp veiðileyfagjald og ég mun mótmæla því á öllum stigum.