Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 15:15:00 (848)

     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
     Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur að nokkru snúist um Hagræðingarsjóðinn. Það er rétt að hér eru vissulega stigin merkileg skref af núv. ríkisstjórn, að nota aflaheimildir Hagræðingarsjóðs á þann hátt sem hún hefur nú ákveðið að gera. Ég er nokkurn veginn sannfærður um að sú hugsun að fara með Hagræðingarsjóðinn á þennan hátt kemur ekki frá hæstv. núv. sjútvrh. Þessi hugsun hefur örugglega orðið til í heiðursmannasamkomulaginu úti í Viðey vegna þess að hér eru draumar Alþfl. að rætast og frjálshyggjulið Sjálfstfl. hefur gert það mögulegt að brjóta hér í blað og taka upp veiðileyfasölu í fyrsta skipti á Íslandi. Það er það sem hér er að gerast. Við skulum bara tala á því máli sem fólk skilur. Það hefur verið tekin ákvörðun um að fara að selja veiðiheimildir Hagræðingarsjóðsins. Þann sjóð átti fyrst og fremst að nota til þess að bregðast við vanda byggðarlaga sem yrðu illa úti m.a. vegna aflabrests. Þennan sjóð átti einnig að nota til þess að ná fram aukinni hagræðingu í greininni sjálfri. Það stígur aldrei nokkur maður svo upp í þetta ræðupúlt og talar um sjávarútvegsmál öðruvísi en að leggja áherslu á að það verði að ná fram hagræðingu. Ég sagði áðan að aflaskerðingin ein sem nú kemur fram jafngildi lokun átta frystihúsa á Íslandi. Halda menn virkilega að það þurfi ekki fjármagn til að geta

hagrætt í þessum efnum ef ekki á að hljótast af verulegt og alvarlegt slys? Nei, auðvitað er þetta hreinn og klár auðlindaskattur sem hér er tekinn upp.
    Ég segi ekkert annað en það að ég hélt satt að segja að það væru nógu margir þannig þenkjandi menn í þingflokki Sjálfstfl. að þeir létu þetta aldrei yfir sig ganga. Satt að segja hélt ég það og það kom mér þess vegna á óvart hvað hér hafði gerst. Við sem hlustuðum á umræður manna á nýafstöðnu þingi Landssambands útvegsmanna urðum varir við það hver hugur þeirra manna er til ríkisstjórnarinnar og þeirra gerða sem hér eru kynntar.
    Annars vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem hann sagði um málið sem er til umræðu. Ég skil hæstv. sjútvrh. svo að 20% aflaskerðingin sem nú hefur verið tekin ákvörðun um gefi heimildir til þess að falla frá inngreiðslum til Verðjöfnunarsjóðsins. Þess vegna hvet ég hæstv. sjútvrh. enn og aftur til að beita áhrifum sínum í þá átt að fulltrúar ríkisvaldsins taki undir með fulltrúum hagsmunaaðila í stjórn Hagræðingarsjóðsins og hverfi frá innborgunarskyldu í Hagræðingarsjóð nú vegna þess hversu illa stendur á í þessari atvinnugrein.