Verðlagsráð sjávarútvegsins

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 14:06:00 (860)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svör hans og orð og virði hann fyrir það að hafa uppi nokkra tilburði til að ræða málið í því almenna samhengi sem ég óskaði eftir. Og ég tek það skýrt fram að af minni hálfu tel ég ekki að með því sé á nokkurn hátt gengið með óeðlilegum hætti fram hjá því dagskrármáli sem liggur fyrir hverju sinni. Það er venja sem allir hv. þm. ættu að þekkja að þegar til umræðu eru frv. sem varða mikilvæg málefni einstakra greina þá ræða menn að sjálfsögðu vítt og breitt um málefni þeirra eftir því sem efni og ástæða er til. Ég man ekki eftir því nokkru sinni að menn hafi tekið því öðruvísi en vel þótt slík skoðanaskipti bærust nokkuð um víðan völl.
    Það mun rétt vera sem hæstv. sjútvrh. segir að nokkur af þeim atriðum sem ég nefndi og hann ræddi um koma til umfjöllunar eftir atvikum síðar á þinginu í formi einstakra þingmála. Það var kannski einmitt þess vegna sem ég var að lýsa eftir því að reynt væri að setja málin í svolítið samhengi og ræða um þau heildstætt. Vegna þess að eðli málsins samkvæmt verður það dálítið brotakennd umræða um sjávarútvegsmál sem fer fram ofan í skúffum, eitt í dag og annað á morgun og menn gefa sér aldrei tóm til að líta yfir sviðið í heild sinni og reyna að sjá samhengi hlutanna.
    Ég tel einmitt að sú kerfisbreyting sem hér er lögð til varðandi verðlagninguna komi mjög víða við í sjávarútveginum. Þetta varðar öll samskipti óskyldra aðila í greininni því viðskipti milli veiða og vinnslu og jafnvel samkeppnisskilyrði einstakra greina vinnslunnar geta ráðist talsvert af því hvernig þessum viðskiptum er háttað.
    Ég var líka með það í huga að hæstv. ríkisstjórn hefur gefið fögur fyrirheit, svo ekki sé meira sagt, um að hún ætli sér hvorki meira né minna en að móta heildstæða sjávarútvegsstefnu. Bara amen. Minnir mann bara á austur-evrópskan hátíðleika þegar snillingarnir setja þetta á blað, hvort sem það hefur gerst út í Viðey eða annars staðar. Í bláu örkinni frá því í vor segir að ríkisstjórnin hyggist ná markmiðum sínum með eftirfarandi aðgerðum, með leyfi forseta:
    ,,Með mótun sjávarútvegsstefnu sem nær jafnt til veiða og vinnslu, hamlar gegn ofveiði, eflir fiskmarkaði, treystir byggð og stuðlar að hagræðingu`` o.s.frv.
    Þarna er þetta allt tvinnað rækilega saman og m.a. talað um veiðar og vinnslu og hagræðingu. Ég tel þess vegna að ekki sé óeðlilegt að spurt sé aðeins um það hvernig ríkisstjórnin ætli að ná öllum þessum markmiðum. Hvar er hin heildstæða sjávarútvegsstefna á vegi stödd? Hvað af henni er tekið að myndast í höfði hæstv. sjútvrh. eða annars staðar í móverkinu og hvenær fáum við eitthvað að heyra um það?
    Í hvítu handbók ráðherranna, sem við höfum neyðst til að kalla svo eftir að upplýst var að hún kemur óbreyttum stjórnarþingmönnum unnvörpum ekki við og er fyrst og fremst handbók ráðherranna, stendur á bls. 31, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Sjávarútvegur. Mörkun heildstæðrar sjávarútvegsstefnu. Ríkisstjórnin hyggst móta sjávarútvegstefnu er nær jafnt til veiða, vinnslu og markaðsmála,`` o.s.frv. ,,Til að vinna að mótun heilstæðrar stefnu í þessum efnum hefur verið skipuð sérstök átta manna nefnd``, tvíhöfða nefnd átta manna, janusarnefnd. Að vísu stendur nú ekki í bæklingnum að hún sé tvíhöfða, það er rétt að taka það fram að ég leyfði mér að skjóta því inn í.
    Ég var, hæstv. forseti, að óska eftir því að sjútvrh. gerði okkur grein fyrir samhengi hlutanna eftir því sem hann treysti sér til og hvernig hann sæi þessa kerfisbreytingu sem óneitanlega er veruleg a.m.k. að forminu til. Auðvitað eru tímamót í þróun þessara mála innan sjávarútvegsins að við hverfum frá fastri verðlagningu yfir í markaðsverðlagningu á afurðum eða hráefnum í innbyrðis viðskiptum greinarinnar þó að í reynd sé hún kannski minni vegna þess hvernig þróunin hefur orðið. Ég tók það fram í upphafi ræðu minnar í gær að þeirri þróun neitaði ekki nokkur maður og fljótt á litið sýndust mér a.m.k. þau skref sem þarna væru boðuð gagnvart Verðlagsráði sjávarútvegsins ekki óeðlileg í ljósi þess sem gerst hefur. Og ég þarf ekki að endurtaka það, enda hafði hæstv. sjútvrh. greinilega náð þeim skilaboðum sem lutu að stuðningi við frv. hans.
    Auðvitað er það ljóst og það er skiljanlegt að hæstv. sjútvrh. er í mikilli vörn þessa dagana vegna almennra aðstæðna í sjávarútveginum. Í kastþröng sinni leitar hann sér uppi óvini og skýtur á þá föstum skotum, ýmist Morgunblaðið, bankastjóra Landsbankans eða einhverja aðra drauga sem hann sér og hleypir af stóru byssunum dögum oftar. Síðast núna áðan var hann að segja að aðalvandi Suðureyrar við Súgandafjörð væri sá að Landsbankinn væri farinn að þvinga menn til þess að landa fiski hér en ekki annars staðar með því að neita að taka þá í viðskipti ef þeir voguðu sér að landa tittunum á stöðum sem væru Landsbankannum ekki þóknanlegir og greinilega er þá Suðureyri við Súgandafjörð ekki í þeim flokki sem nýtur náðar þeirra háu herra sem eru teknir til við að stýra löndun á sjávarafla ef marka má þetta. En ég held að það sé hins vegar misskilningur hjá hæstv. sjútvrh. að Hagræðingarsjóður hefði ekki getað komið til sögunnar í vandamálum af því tagi sem kunna að verða fram undan á Suðureyri. Nú veit ég ekki hvernig þeir hlutir þróast. Ég þekki ekki út í hörgul skilmála þess kaupmála sem hefur verið gerður, en mér er ekki kunnugt um annað en að hann feli í sér að útgerð skipsins hverfi frá staðnum sem þar hefur aðalveiðiheimildirnar á hendi og e.t.v. verði síðan einhverjum afla landað þar eða miðlað þangað yfir en það kunni að verða mun minna en áður var. Þetta þekki ég ekki, en ef svo færi að einhver verulegur hluti veiðiheimilda byggðarlagsins hyrfi annað og ekki kæmi afli til vinnslu á móti, væri þar með orðið mögulegt samkvæmt ákvæðum um Hagræðingarsjóð að beita honum í slíkum tilvikum. Það er nákvæmlega við slíkar aðstæður sem hann getur komið til sögunnar. Ég veit vel og hv. alþingismenn, og þarf ekki fræðslu hæstv. sjútvrh. til, að Hagræðingarsjóði var ekki ætlað að annast bankastarfsemi, taka fyrirtæki í bankaviðskipti sem ekki njóta náðar Landsbankans, það þarf ekki að fjölyrða um það. En um hitt er að ræða að þær veiðiheimildir sem þar er samkvæmt lögunum heimilt að ráðstafa til byggðarlaganna og jafnvel endurgjaldslaust gætu komið til í því tilviki.
    Varðandi það að meginverkefni Byggðastofnunar, sem stjórnarformaður hefur nú lagt til að verði flutt á Hveravelli og látin annast veðurathuganir ef hún verður leikin eins og hæstv. forsrh. hyggst fyrir, sé að leysa þessi mál og þess vegna sé í raun í lagi að taka Hagræðingarsjóð til hliðar, þá er það nú varla þess virði að hlæja að því jafngrátbroslega og þeir hlutir eru að þróast í höndunum á hæstv. ríkisstjórn. Sumir hverjir þar á bænum virðast hafa það alveg að sérstöku keppikefli að rægja og níða niður þá stofnun og gelda hana gersamlega. Það væri að vísu rétt að væri Byggðastofnun efld og hún hefði úr myndarlegum fjárveitingum að spila þá væri það auðvitað á hennar verksviði að líta til vandamála af þessu tagi. En það verður tæplega eins og nú horfir um hennar málefni að hún geri

stóra hluti á því sviði.
    Ég held að það sé kannski rétt að verða við þeirri bón hæstv. sjútvrh., sem ég skil vel, af því að í hans huga er frestur á illu bestur greinilega, þ.e. að við frestum nú aðalátökunum og aðalumræðunum Hagræðingarsjóðinn þangað til það mál kemur inn á dagskrá þingsins. Ég skal þess vegna ekki hafa mjög mörg orð um það í viðbót. En það er alveg vonlaust mál fyrir hæstv. sjútvrh. að reyna að komast hjá því að það er verið að fénýta veiðiheimildirnar með þeim hætti að verðmætið er tekið frá sjávarútveginum miðað við fyrri skipan mála og ef hæstv. sjútvrh. hefur ekki áttað sig á þessu, er einfaldast að fara í frv. sem sjálfur reginfjandi Kristjáns Ragnarssonar, hæstv. fjmrh., hefur leyft sér að flytja án þess að að spyrja Kristján leyfis og liggur fyrir á Alþingi með alveg skýrum skilaboðum um það hvað gerist þegar veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs verða fénýttar með þessum hætti. Það segir í greinargerð með frv. sem lýtur að málefnum sjávarútvegsins:
    ,,Tvennt einkennir rekstur Hafrannsóknastofnunar á næsta ári frá því sem er í ár. Annars vegar er gert ráð fyrir auknum umsvifum vegna nýrra rannsóknarverkefna. Hins vegar er hagsmunaaðilum í sjávarútvegi ætluð aukin þátttaka í kostnaði við rekstur stofnunarinnar.`` Og svo kemur það fram hér síðar í greininni að gert sé ráð fyrir að innheimta 525 millj. kr. undir nýju viðfangsefni, Sérstakar tekjur. Og hvað leiðir af þessu? Það leiðir af þessu að hæstv. fjmrh. getur lækkað fjárframlög ríkissjóðs til Hafrannsóknastofnunar um 525 millj. kr. frá því sem áður var. Hvers vegna getur hæstv. fjmrh. þetta? Af því að hann tekur þessi verðmæti út úr sjávarútveginum og ráðstafar þeim í að greiða kostnað sem áður féll á ríkið, hæstv. sjútvrh. Þess vegna verður það að niðurstöðutölur rekstrar Hafrannsóknastofnunar upp á 636,9 millj. kr. deilast þannig að 545,5 millj. kr. koma til í formi sértekna og ekki nema 91 millj. kr. af þessum á sjöunda hundrað koma frá ríkinu. Með öðrum orðum er rekstur Hafrannsóknastofnunar nánast eins og hann leggur sig færður yfir á sjávarútveginn. Það er það sem gerist, hæstv. sjútvrh. Og það er alveg sama hversu marga hringi menn fara og hversu mörg þúsund ræður menn halda um afgreiðslu laga um fiskveiðistjórnun og Hagræðingarsjóð. Þessari breytingu verður ekkert mótmælt og ég held að það sé langhreinlegast að ræða hana eins og hún liggur fyrir. Ég vil leyfa mér að gera það og mun að sjálfsögðu gera það rækilega þegar málið kemur hér formlega á dagskrá.
    Reyndar væri það nú ef maður vildi stríða hæstv. sjútvrh., þá mundi ég kannski leyfa mér að koma með eina svona ,,ganske pena`` ábendingu til hans, eins og danskurinn mundi segja, eða hefði verið sagt á prentsmiðjudönsku hérna í gamla daga, og það er ósköp einfaldlega að hæstv. sjútvrh. bíði með að leggja þetta frv. um Hagræðingarsjóðinn fram þangað til hann hefur kannað með ótvíræðum hætti hvort það sé þingmeirihluti fyrir því á Alþingi. Í fullri vinsemd sagt, þá held ég að það væri ekki óskynsamlegt því að ég er ekki viss um að allir hv. stjórnarþingmenn hafi áttað sig á því hvað hér eigi að fara fram. En að lokum bið ég svo hæstv. sjútvrh. síðastra orða að fara ekki að gera mönnum þann óskunda að draga málefni hafrannsóknanna sjálfra hvað faglegu hliðina snertir inn í umræðuna. Við skulum halda því algerlega þar fyrir utan. Ég held að allir hv. alþm. fagni því að samkvæmt rekstraráætlun Hafrannsóknastofnunar á næsta ári á að auka hafrannsóknir og þar styðjum við hæstv. sjútvrh. Það er engin deila um það. Ég hef sjálfur óskað eftir því að það komi inn í nál. sjútvn. til fjárln. varðandi þennan kafla frv. að sjútvn. Alþingis styðji þá áherslu á auknar rannsóknir sem gert er ráð fyrir í frv. En við skulum ræða fjármögnun þess kostnaðar sem alveg sjálfstætt mál. Við þurfum ekki að blanda þessari fénýtingu á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs inn í það. Ég held að allt Alþingi hljóti að koma til með að styðja löngu tímabæra ákvörðun um að taka upp fjölstofna rannsóknir og annað það sem til heilla horfir faglega séð í fjárlagafrv. hvað þetta snertir.