Verðlagsráð sjávarútvegsins

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 14:20:00 (862)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
     Frú forseti. Ég ætla aðeins að gera tvær athugasemdir vegna ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. Sú fyrri lýtur að því að það er ekki hægt að halda því fram að hafrannsóknir eigi ekkert skylt við sjávarútveg. Þegar verið er að verja fjármunum til hafrannsókna, þá er verið að verja fjármunum í þágu sjávarútvegsins á Íslandi. Í sjávarútveginum eru fólgnir miklir almannahagsmunir og það eru miklir almannahagsmunir fólgnir í rannsóknunum líka. En rannsóknirnar eru vitanlega hluti af sjávarútvegsstarfseminni í landinu og þar verður ekki greint á milli.
    Hv. þm. orðaði það einhvern veginn á þá leið einnig að ekki væri tilefni til þess að tengja saman fjáröflun til hafrannsókna og þau auknu rannsóknaumsvif sem nú hafa verið ákveðin. Því miður er nú veruleiki lífsins sá að ef við ætlum að stunda rannsóknir þá kosta þær peninga og ef við ætlum að auka þær, þá kostar það meiri fjármuni og eina færa leiðin í þeirri stöðu sem við erum í nú til þess að auka rannsóknarumsvifin var að fara inn á þessa braut með kostum þessara verkefna. Önnur leið var ekki fær og ég er alveg sannfærður um og hef fundið það að það er mikill skilningur hér á þinginu fyrir nauðsyn þessara auknu rannsókna. Þá verða menn líka að horfast í augu við það að til þess þurfa menn að fara þær leiðir sem færar eru og önnur leið var ekki fær í þessu efni.