Verðlagsráð sjávarútvegsins

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 14:22:00 (863)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Mér þykir nú mjög slá út í fyrir hæstv. sjútvrh. og tekur steininn úr. Hann gengur sig ekki bara upp að hnjám í leit að óvinum hingað og þangað út um borgina, heldur gerir hann í því að misskilja menn og rangtúlka mál þeirra. Ég heyrði engan mann og hef engan mann á Íslandi heyrt halda því fram að hafrannsóknir komi sjávarútvegi ekki við. Hverjum dettur annað eins í hug? Auðvitað eru hafrannsóknir í þágu sjávarútvegsins. En það var ekki hér til umræðu og hæstv. sjútvrh. þarf ekki að ómaka sig í ræðustól til að reyna að snúna svona út úr orðum manna.
    Í öðru lagi er það auðvitað þannig að til þess að unnt sé að ráðast í aukin verkefni á sviði rannsókna í sjávarútvegi, iðnaði eða landbúnaði eða hvar sem er þarf að afla fjár. Það datt engum manni annað í hug. Og það þarf ekki heldur að reyna að snúa út úr orðum manna á svo einfaldan og barnalegan máta. Hins vegar var til umræðu hvernig við öflum fjárins og hver sé hin eðlilega skipan, hvað lýtur að greiðslu kostnaðar á þessu sviði. Það hefur verið þannig að þessi undirstöðuþjónusta við sjávarútveginn og þessar rannsóknir í þágu sjávarútvegsins hafa verið greiddar úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna og þannig er það reyndar með rannsóknir í þágu atvinnulífs á Íslandi að langmestu leyti. Hér er ríkisstjórnin auðvitað að boða algera kerfisbreytingu sem hlýtur að hafa í för með sér í framhaldinu miklu víðtækari uppstokkun þessara mála. Og við skulum ræða það. Erum við sammála því eða ekkiveit? Auðvitað veit öll þjóðin hvernig þessi kastraun hæstv. sjútvrh. varð til. Það var útbýtt einhverjum niðurskurðarlistum sem hver og einn ráðherra átti

að vinna. Því miður virðist hæstv. sjútvrh. annað tveggja ekki hafa fundið skárri leið en þetta, sem ég held að sé óheppileg, bæði til lengri tíma litið en einnig vegna þess biðástands sem er í málefnum sjávarútvegsins á meðan endurskoðun á fiskveiðilögsögunni stendur yfir eða hæstv. sjútvrh. reyndist ekki maður til að standa gegn þessari árás á málefni sjávarútvegsins sem við höfum auðvitað frekar kosið að hann hefði gert.