Verðlagsráð sjávarútvegsins

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 14:25:00 (864)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Eins og við mátti búast hafa nú umræður farið nokkuð víða um málefni sjávarútvegsins og ekki mikið um það að segja annað en að það kemur ekki á óvart miðað við þær aðstæður sem eru í málefnum þeirrar atvinnugreinar og þau áhrif sem þær kunna að hafa á afkomu þúsunda um landið. Ég verð að segja að mér finnst hæstv. sjútvrh. tala í þessum málum af nokkru gáleysi svo að ég noti nú viðurkennt orðalag og einnig af töluverðu alvöruleysi sem í mínum augum kemur fram sem skortur á skilningi á stöðu landsbyggðarinnar.
    Varðandi hafrannsóknir sem síðast var fjallað um þá eru þær auðvitað fyrst og fremst í þágu þjóðarinnar. Þær hafa hingað til verið greiddar af sameiginlegum tekjum ríkissjóðs og sú breyting sem menn eru að gera nú er að láta sjávarútveginn borga nýjan skatt, auknar álögur frá því sem verið hefur. Auðvitað er þetta ekkert annað en skattheimta. Hún er ný af því að hún hefur ekki farið fram áður þó ráðherra hafi hins vegar nokkuð til síns máls þegar hann bendir á að lögin hafi verið til. En það hefur ekki reynt á þau þannig að hann er sá fyrsti sem fer inn á þá braut að hagnýta sér þetta lagaákvæði í þessu skyni. Hann boðar í leiðinni breytingu á hlutverki sjóðsins þar sem hann tekur út samkvæmt því sem fram hefur komið það hlutverk sjóðsins að koma byggðarlögum til aðstoðar.
    Mér finnst það satt að segja og í fullri alvöru að hæstv. sjútvrh. sendi fólki úti á landi býsna kaldar kveðjur um þessar mundir. Þegar menn eru í hverju byggðarlaginu á fætur öðru ekki bara að glíma við vandamál fyrirtækis heldur vandamál alls byggðarlagsins, hvers einasta manns, þá fá menn þær fregnir og yfirlýsingar frá hæstv. sjútvrh. að það eigi að taka af það hlutverk Hagræðingarsjóðs að koma byggðarlögum til aðstoðar. Það bætist við fyrri yfirlýsingar ráðherrans um það að hann sé andvígur því að breyta núv. sjávarútvegsstefnu. Ég sé ekki annað en að ráðherrann sé búinn að loka sig í þvílíkum yfirlýsingum að það sé búið að setja snöru um hálsinn á þessum byggðarlögum og menn sjái ekki nokkra leið til bjargar. Þegar lögin um fiskveiðistjórnun setja þann kross á byggðarlögin að verða að kaupa fiskveiðiheimildir ef þeir vilja hafa nokkrar og afnema svo þau fátæklegu lagaákvæði sem geta orðið mönnum til bjargar í því viðfangsefni. Ég spyr: Hvað er hæstv. sjútvrh. að meina? Hvernig ætlar hann að ráðleggja mönnum að komast fram úr þessu verkefni? Ég hef ekki svör því að hann hefur verið fáorður um það. En ég get ekki dregið aðra ályktun en þá að hæstv. sjútvrh. sé sammála hæstv. forsrh. um að það sé mikið íhugunarefni hvort menn eigi bara ekki að koma sér í burt og fá jafnvel styrk til þess.
    Ég ætla að spara mér frekari umræður um málefni landsbyggðarinnar í tengslum við sjávarútveg þar til kemur að framhaldi umræðu um byggðamál því að þá er hægt að taka á því frá víðara sjónarhorni og rekja fleiri atriði sem koma þar við sögu heldur en hægt er í umræðu um sjávarútveg. En ég hygg að öllum eigi að vera ljóst að þessi vandi er fyrst og fremst til kominn vegna vanda sjávarútvegsins. Byggðastofnun er ekki það batterí að hún geti verið leiðréttingaraðili á vitlausar ákvarðanir stjórnvalda á hverjum tíma. Þetta eru það stór mál að það er ekki nokkur stofnun sem ræður við að bæta þar úr. Í raun og veru er það bara útúrsnúningur að benda mönnum á Byggðastofnun til bjargar í þessum málum. Þetta er miklu alvarlegra og víðtækara mál en svo að menn geti leyft sér að svara

þessu með þeim hætti sem hæstv. ráðherra hefur gert.
    Ég vildi nú leyfa mér að fara nákvæmlega yfir ákveðið sjónarhorn varðandi þetta frv. Það fjallar í eðli sínu um samskiptareglur milli kaupenda og seljenda um fisk. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt að mínu mati og ekki neitt sem kemur á óvart að menn hugi að því að þær samskiptareglur eigi að vera þær sem lagðar eru til. En það er engu að síður svo að við verðum að huga að þessum málum með heldur víðtækari hætti en fram kom í framsöguræðu. Við þurfum að athuga hvernig staða aðila er í viðskiptunum. Hvernig er staða kaupenda og hvernig er staða seljenda? Til þess að frjálsir samningar um verð gangi upp með viðunandi hætti þá þurfa aðilar að vera nokkurn veginn jafnsettir í þeim viðskiptum en ekki þannig að annar aðilinn hafi spilin á sinni hendi en hinn eintóma hunda. Það er ákveðið atriði sem mig langar til að benda á og það er að við erum með kvótakerfi í gangi. Við erum með þau lög í gangi sem úthluta öðrum aðilanum veiðiheimildirnar til ráðstöfunar og sölu ef honum sýnist svo. Þ.e. seljandinn í þessu máli hefur einn réttinn til að fiska. Kaupandinn, sem væntanlega er þá fiskvinnslufyrirtæki eða einhver slíkur aðili, hefur það ekki. Þetta skapar ákveðinn aðstöðumun sem m.a. hefur komið mjög skýrt fram í samningum um verð fyrir úthafsrækju þar sem rækjustöðvarnar í landi hafa haft mjög slæma samningsaðstöðu gagnvart útgerðarmönnunum. Það hefur leitt til þess sem mér er kunnugt um og eflaust ykkur öllum að rækjuvinnslurnar í landi hafa ekki aðeins þurft að borga umsamið verðlagsráðsverð fyrir úthafsrækjuna heldur yfirleitt líka orðið að semja um að borga hæsta verð fyrir alla rækju án tillits til stærðarflokkunar. Þar að auki hafa rækjuvinnslufyrirtækin oft og tíðum greitt til viðbótar þessu verði ýmsan útgerðarkostnað útgerðaraðilanna eins og veiðarfærakostnað og olíu. Það eru mýmörg dæmi sem mér er kunnugt um þar sem útgerðaraðilinn hefur getað náð slíkum samningum við vinnsluna.
    Þetta kemur til að mínu mati vegna þess að aðilarnir eru svona misjafnlega settir til þess að semja þar sem annar aðilinn verður að fá keypt hráefni og stundum hvað svo sem það kostar. Menn eru í raun og veru ekki jafnsettir í þessu tilliti. Ég er því þeirrar skoðunar að lögin um fiskveiðistjórnun skapi verulegan aðstöðumun sem verður að taka tillit til þegar menn eru að taka ákvörðun um að menn eigi að semja um verð með frjálsum hætti að öllu leyti.
    Þetta kemur minna að sök í botnfiskvinnslunni eins og menn þekkja þar sem veiðar og vinnsla eru að mjög miklu leyti á sömu hendi. Þó er þróunin í hina áttina að útgerðin er að taka til sín stærri hluta á kostnað vinnslunnar eins og hefur m.a. komið fram í máli hæstv. sjútvrh. Þannig eru útgerðarmennirnir farnir að nýta sérstöðuna í æ ríkari mæli í þeirri atvinnugrein líka. Og svo er enn atriði sem ég vil benda á og það er að kaupandinn í landi verður fyrir samkeppni um hráefni frá kaupendum erlendis. Útgerðarmaðurinn hefur þá möguleika að selja fiskinn í landi og líka að selja hann til útlanda þar sem fiskurinn er nú að jafnaði keyptur af vinnslufyrirtæki sem vinnur vöruna áfram hvort sem það kaupir hana sem ísfisk eða fisk af frystitogara. Þar erum við nú komin með ákaflega óeðlileg samkeppnisskilyrði því að fiskvinnslan í landi býr ekki við þær aðstæður sem fiskvinnslan í Evrópu býr við, sem er að miklu leyti ríkisstyrkt atvinnugrein og getur þar af leiðandi boðið hærra verð en raunhæft er miðað við rekstrarskilyrði hennar erlendis. Þetta hefur m.a. leitt til þess að á síðasta ári voru flutt út sem ísfiskur 150 þús. tonn af botnfiski. Og úti á sjó í frystitogurunum voru unnin 120 þús. tonn af botnfiski. Þannig að við erum með 270 þús. tonn af botnfiski sem fer til vinnslu annars staðar en í landi.
    Ég hef ákveðnar efasemdir um að stíga þetta skref, sem hér er lagt til, í ljósi þessarar mismunandi samkeppnisaðstöðu, þó ég sé í sjálfu sér nokkuð sammála efni frv. Því að vilji menn hafa frelsi í viðskiptum þá verða aðilar sem eiga að vera í þeim viðskiptum að vera nokkurn veginn á sama róli.
    Ég horfi á málið þannig að markmiðið hljóti að vera að vinna sem mest af fiskinum í landi. Ég tel í fyrsta lagi óhagkvæmt fyrir þjóðarbúið að vinna svona mikið af fiski um borð í frystitogurum. Ég hef áður rakið tölur sem ég lét taka saman fyrir mig af aðilum sem gjörþekkja þetta mál og þær tölur leiddu í ljós, ef við tökum bara Vestfirði 1990, að þá var framleiðsla landfrystingarinnar á Vestfjörðum á síðasta ári 4 milljarðar kr. að útflutningsverðmæti. Ef þetta hefði verið unnið eingöngu um borð í frystiskipum þá væri verðmætið ekki nema 3 milljarðar kr. Þannig að það er 1 milljarður sem tapast á þessu magni á síðasta ári ef við færum með það í gegnum sjófrystingu í stað landfrystingu. Ég tel því að við eigum að styrkja stöðu kaupenda í landi þannig að meira af fiskinum fari þar í gegn. Í öðru lagi verðum við að hafa einhverja löggjöf sem tekur á þessum mismun á milli frystihúsa í landi innan lands og fiskvinnslunnar erlendis. Ég held að sá mismunur sem er í dag sé of mikill til að vinnslan í landi geti borið það til langframa. Þá komum við aftur að því máli að þegar svona gerist þá kemur það fyrst og fremst niður á landsbyggðinni og eykur í raun og veru enn á vanda hennar.
    Í sambandi við úthafsrækjuna spyr ég sjálfan mig: Er eitthvað sem kallar á að það sé kvótakerfi í úthafsrækju? Rökin fyrir því að setja á kvóta, eins og menn hafa lagt málið fram, eru þau að það þurfi að skipta takmörkuðu magni upp á milli flotans sem hefur miklu meiri veiðigetu en það magn leyfir. Ég er ekki viss um að staðan sé þessi í úthafsrækjunni. Ég er nú ekki alveg með þessar tölur í kollinum en mig minnir að á síðasta ári höfum við jafnvel ekki náð því að veiða úthlutaða kvóta samanlagða í úthafsrækju. Þannig að ég spyr: Er ekki nægjanlegt í úthafsrækjunni eins og staðan er í dag að hafa bara heildarkvóta? Ef það væri þá erum við búnir að jafna aðstöðu seljenda og kaupenda hvað það varðar. Ég held að menn eigi ekki að vera að setja kvóta á fisktegundir bara til að setja á kvóta. Það á að vera með einhverjum rökum vegna stofnsins sjálfs. Því að hitt hlýtur að vera óeðlilegt að kvótasetja afurð eins og rækju ef ekki er nauðsyn á því því að það leiðir einfaldlega til þess að menn fara að kaupa og selja.
    Þá vil ég að lokum benda á aðra grein þar sem mér finnst miðað við núverandi aðstæður að menn standi ekki jafnfætis. Þar er í raun og veru aðstöðumunurinn á hinn veginn og það er innfjarðarækjan. Þar vil ég meina að aðstaða seljenda sé mun lakari heldur en aðstaða kaupenda. Kaupendur hafa nýtt sér það í gegn um árin og gengið á það lag. Þannig hefur það verið með innfjarðarækjuna að seljendur hafa verið skyldaðir til að selja hana innan tiltekins svæðis og í raun meira því að það hefur ekki bara verið svæðisbinding á ráðstöfun aflans heldur verið fyrirtækjabinding innan þess svæðis. Það þýðir einfaldlega, t.d. við Ísafjarðardjúp að rækjubátar þar hafa í raun og veru verið skyldugir til að selja ákveðnum tilteknum fyrirtækjum rækjuna, því að hvert vinnslufyrirtæki hefur þar haft sinn kvóta úr heildinni sem bátunum ber að skaffa því.
    Þar hafa sjómenn í þeirri atvinnugrein lagt fram þá breytingu að ráðstöfun aflans eða sala væri einungis svæðisbundin. Menn mættu selja sinn afla hverjum sem er innan tiltekins svæðis. Eins og t.d. við Ísafjarðardjúp mættu menn selja sinn rækjukvóta hvaða verksmiðju sem er sem þeir kysu sjálfir og næðu samningum við. Til þess að það nái fram að ganga verður að afnema svokallaðan verksmiðjukvóta. Og ég bendi á það að á síðustu vertíð í Ísafjarðardjúpi þá leiddi þessi verksmiðjukvóti til þess að rækjuverksmiðjur í frystingu sem reknar voru með bullandi tapi vildu frekar taka sinn kvóta og vinna hann með tapi heldur en færa hann yfir í niðursuðu sem var mögulegt og sem var rekin þannig að hún stóð undir sér og gat borgað hærra verð. Það er að mínu viti þjóðhagslega óhagkvæmt að þvinga menn til að láta í frystingu sem flutt er úr landi með tapi. Menn hefðu ekki átt að gera það og beina stærri hlut heildarkvótans í gegnum niðursuðuna sem hafði samninga í Þýskalandi um sölu á miklu meira magni en hún mátti vinna heldur en nam verksmiðjukvóta hennar og hún gat auk þess borgað hærra verð þannig að sjómenn urðu þá ekki fyrir eins miklu tekjutapi vegna verðfalls.
    Þetta er mál sem kannski er staðbundið en þetta á að ég hygg við alla innfjarðarækju um land allt þannig að það er nú kannski ekki svo afmarkað. En þetta eru mín sjónarmið varðandi það og ég óska eftir því við sjútvrh. að hann upplýsi sín sjónarmið varðandi innfjarðarækjuna, þau viðhorf sem ég var að rekja.
    Almennt ætla ég ekki að segja fleira um frv. Ég held að ég sé búinn að fara yfir það svona efnislega eins og það heitir eins og það horfir við mér. Ég er í sjálfu sér nokkuð sammála því sem menn eru að gera. En ég bendi þarna á ákveðna annmarka og mismunandi aðstæður kaupenda og seljenda og ég tel að menn verði að gera einhverjar ráðstafanir þar sem þessi mismunur leiðir til þess að við erum að missa fiskinn úr þjóðhagslega hagkvæmustu vinnslunni yfir í eitthvað annað sem er síður hagkvæmt.