Verðlagsráð sjávarútvegsins

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 14:45:00 (865)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil láta það koma skýrt fram strax að ég er sammála ýmsu af því sem hæstv. sjútvrh. hefur verið að segja um íslenskan sjávarútveg á undanförnum vikum. Ég vil samt gera athugasemd í þessum umræðum um eitt atriði. Til þessa hafa hafrannsóknir verið kostaðar af sameiginlegum sjóði landsmanna eins og eðlilegt er. Sjávarútvegur er einstaklega mikilvægur í þjóðfélagi okkar og stendur reyndar undir þeirri þjóðfélagsbyggingu sem við eigum. Það að hætta að kosta hafrannsóknir af sameiginlegum sjóði landsmanna og færa kostnað af þeirri þjónustu yfir á sjávarútveginn er auðvitað bein skattheimta. Skattheimta á vissa tegund fyrirtækja og skattheimta af þessari einu atvinnugrein. Þetta er út af fyrir sig í stíl við annað í skattahækkunaræði núverandi ríkisstjórnar. Hér er um skatt að ræða sem er sérstaklega lagður á eina tegund fyrirtækja. Sjávarútvegurinn er nær eingöngu stundaður í framleiðslubyggðarlögum á landsbyggðinni og þess vegna er hér um nær hreinan landsbyggðarskatt að ræða. Alveg á sama hátt eins og mundi vera með veiðileyfagjaldið sem að ég er mjög andvígur og algerlega sammála hæstv. sjútvrh. að við verðum að berjast á móti. En hér er sem sagt um landsbyggðarskatt að ræða og verra en það. Síðan er sú trygging sem þessi sömu framleiðslubyggðarlög, sem er ætlað að borga þennan hafrannsóknaskatt, hafa haft í Hagræðingarsjóðnum er frá þeim tekin. Þetta er nefnilega ekki einungis skattheimta á byggðarlögin heldur er líka þrengd og veikt aðstaða þeirra.