Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 15:03:00 (868)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Fyrir hönd stjórnarandstöðunnar hef ég beðið um þessa umræðu um svonefnt álmál eða byggingu álbræðslu á Keilisnesi af augljósum ástæðum. Þau tíðindi, sem staðfest voru í gær, að langur dráttur verði e.t.v. á byggingu þessa álvers, valda

að sjálfsögðu miklum áhyggjum og hljóta að verða til þess að flestar áætlanir um þjóðartekjur, fjárlög o.s.frv. þarf að endurskoða. Ég vil taka það fram að tilgangur minn með því að biðja um þessa utandagskrárumræðu er fyrst og fremst til að ná fram ítarlegri umræðu um hvað ríkisstjórnin kann að hafa annað í pokahorninu. Það er alveg ljóst að við blasir meiri háttar kreppa og ég trúi ekki öðru en ríkisstjórnin hafi ýmislegt annað sem hún getur greint okkur frá nú. Einnig er ljóst að þetta mun hafa mikil áhrif á atvinnuástand hér á næstu árum. Gert hefur verið ráð fyrir að nokkur hundruð manna, dálítið breytilegt eftir hvenær á byggingartímanum er, hljóti vinnu við byggingu virkjunar annars vegar og álvers hins vegar. Þetta mun hafa vaxandi atvinnuleysi í för með sér og alveg sérstaklega verður þetta erfitt fyrir Suðurnesin sem mjög hafa byggt á því að álver væri á næsta leiti eins og haft hefur verið eftir hæstv. iðnrh. á þeim slóðum.
    Þar hefur verið ráðist í ýmsar framkvæmdir, ýmsan undirbúning undir byggingu þessa álvers. Ég tel hins vegar óhjákvæmilegt, eins og hæstv. landbrh. er þekktur fyrir að segja í þessum sölum, að draga fram ýmis atriði þessa máls. Af því að ég veit að hæstv. iðnrh. er viðkvæmur fyrir gagnrýni bið ég hann að taka því vel þótt hér verði rakið ýmislegt í forsögu málsins sem ég hygg að ekki verði falið.
    Ég vil vekja athygli á að á þingi iðnrekenda fyrir tveimur vikum eða svo bar þetta mál á góma. Vinnuveitendasamband Íslands hafði lýst í spá sinni að bygging álvers væri varla á næsta leiti og því gefið út miklu lakari spá um þjóðartekjur en Þjóðhagsstofnun hafði gert sem byggði að sjálfsögðu á ákvörðun ríkisstjórnarinnar um byggingu álvers. Hæstv. iðnrh. tók þessu afar illa og lét falla orð á þeim fundi sem ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa hér. Þar segir hæstv. iðnrh. meðal annars um spá Vinnuveitendasambands Íslands: ,,Það er illt til þess að vita að forustumenn í íslensku atvinnulífi telja það sitt hlutverk að hafa uppi órökstuddar illspár um mikilvæg framfaramál. Þá heggur sá er hlífa skyldi. Vonandi er ekki svo illa komið á þeim bæ að ,,falin sé í illspá hverri ósk um hrakför sínu verri``. Við verðum að vona að þeir VSÍ-menn losni úr þessu svartsýniskasti áður en álverið nýja verður byrjað að bræða.``
    Ég vil leyfa mér að segja að svona orð um virta stofnun eins og Vinnuveitendasamband Íslands sæma ekki ráðherra og raunar engum manni. Ég efa ekki að Vinnuveitendasamband Íslands hefur byggt sína spá á athugunum sem e.t.v. voru engu lakari en þær sem hæstv. iðnrh. hafði. Sérstaklega finnst mér þetta ómaklegt þar sem staðreyndin er sú að hæstv. iðnrh. hafði hvað eftir annað verið bent á að vel mætti vera að spár dr. King, sem er sá ráðgjafi sem Landsvirkjun hefur fengið að þessum málum, væru ekki á nægilega sterkum grunni reistar. Ég átti m.a. viðtal við mann, sem einnig vinnur að slíkum undirbúningi, bandarískan verkfræðing, sem á heima í Genf og er þar með verkfræðistofu og reyndar útibú líka í Moskvu, um þessi mál í september fyrir rúmu ári. Ég sýndi honum þessar spár og hann sagði mér að hann drægi þessa spá mjög í efa og sagði að það væri alls ekki rétt að draga mundi úr álsölu Rússa vestur á bóginn eins og þarna væri gert ráð fyrir heldur mætti jafnvel gera ráð fyrir að hún ykist. Þetta ræddi ég við hæstv. iðnrh. en hann tók þessu heldur fálega og taldi ekki á neinum rökum reist. Og því miður verð ég að segja að flestum slíkum ábendingum, sem hæstv. iðnrh. fékk um þessi mál, var svarað einmitt á sama máta og hann svaraði VSÍ. Hann virtist telja að ,,falin væri í illspá hverri ósk um hrakför sínu verri``. En þannig virtist öllum slíkum ábendingum því miður vera tekið og ekki síst í kosningabaráttunni síðustu þar sem maður fékk þetta að vísu ekki beint framan í sig en heyrði það af fundum sem hæstv. iðnrh. átti með sínum stuðningsmönnum ekki síst á Suðurnesjum. Það er ekki óeðlilegt með þær fullyrðingar allar að menn hafi treyst því að álver væri á næsta leiti og lagt í mikinn undirbúning til að taka á móti þeirri framkvæmd.

    Nú vil ég taka skýrt fram að hæstv. iðnrh. útbjó ekki þessar spár heldur Landsvirkjun og það er þá við Landsvirkjun að ræða um spárnar. Mér er kunnugt um það sömuleiðis að athugasemdir, sem gerðar voru við þessar spár, virtust koma landsvirkjunarmönnum mjög á óvart. Ég veit um nýlegan fund þar sem verkfræðingur einn lýsti svipuðum framtíðarspám og ég fékk og hef aðeins rakið hér og þar var staddur landsvirkjunarmaður sem lýsti mikilli undrun á því sem hann heyrði. Þó er það staðreynd að ýmsir fleiri höfðu uppi efasemdir. T.d. er mér kunnugt um að svissneska álfyrirtækið hafði þegar á sl. hausti og aftur á sl. sumri miklar efasemdir um framtíð áliðnaðarins af þeim sökum sem ég hef hér nefnt. Það kann e.t.v að hafa verið ein ástæðan fyrir því að það fyrirtæki dró sig út úr þessum sameiginlegu hugmyndum um byggingu álvers hér. Staðreyndin er að þetta mál var sótt af miklu meira kappi en forsjá. Það held ég að sé nú lykillinn í þessu máli.
    Ég sagði áðan að ekki yrði hjá því komist að rekja aðeins það sem á undan er gengið í málinu og ýmsa erfiðleika sem menn hafa orðið að fást við í þessu máli. Eins og menn þekkja á þetta mál nokkuð langan aðdraganda. Það var fyrri iðnrh. sem hóf það, reyndar tveir sem höfðu þá unnið að þessu sjálfsagða máli, að nýta orkulindir okkar til aukinnar orkuframleiðslu og orkufreks iðnaðar, í hófi að sjálfsögðu. En ég er þeirrar skoðunar að það beri að gera með öðru. Eftir að hæstv. iðnrh. tók við starfi iðnrh. í fyrri ríkisstjórn gerðist það hins vegar að fyrirtækið Alusuisse dró sig út og annar aðili kom inn. En það gerðist líka fleira. Hæstv. iðnrh. setti í raun af þá stóriðjunefnd sem hafði verið starfandi, nefnd sem var skipuð fulltrúum allra stjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokka, allra stjórnmálaflokka á Alþingi hygg ég nema Kvennalistans. Iðnrh. valdi þrjá menn úr þeim hópi, eins konar trúnaðarmenn, sem eftir það fengust fyrst og fremst við þessi störf. Því er ekki að neita að þetta olli töluverðri tortryggni í síðustu ríkisstjórn og alls ekki að ástæðulausu. Í svona máli er afar mikilvægt að allir fái að koma að og ég hygg að það sé staðreynd að betur sjá augu en auga. En hæstv. iðnrh. er kunnugur fyrir sinn mikla dugnað og kaus að hafa þetta mál sem mest inni á sínu borði og hafa með sér sem fæsta og fyrst og fremst þá menn sem játuðust undir hans sjónarmið. Þetta varð til þess að ég sem forsrh. gekk í það í síðustu ríkisstjórn að skipuð var ráðherranefnd í málið. Það var ekki fyrr en eftir töluvert múður að það var samþykkt og ráðherranefnd kom að málinu. Ég skildi mæta vel að það olli tortryggni hjá samstarfsflokkunum að fá ekki að fylgjast með því sem þarna var að gerast og þurfa alloft að heyra fyrst um það í fréttum.
    Ég vil hins vegar taka það fram að í viðræðum mínum við hæstv. iðnrh. leyndi hann mig að sjálfsögðu ekki því sem var að gerast og þarf ég ekki að kvarta undan því. En vitanlega þurftu allir flokkarnir að koma að málinu. Ég tel þó að í framhaldi málsins hafi alls ekki verið gætt þeirrar varfærni sem hafa þarf í svo stóru máli. T.d. á að mínu mati skilyrðislaust að halda svo á málinu að ráðherra geti verið síðasti dómarinn fyrir utan hv. Alþingi að sjálfsögðu, en ekki sem þátttakandi í málinu og meira og minna bundinn í ýmsum þáttum þess. Ég taldi t.d., og ræddi það við hæstv. iðnrh., afar óeðlilegt þegar hæstv. ráðherra fór inn á fund samningamanna Landsvirkjunar í Hollandi fyrir rúmu ári og handsalaði þar samkomulagi um orkuverð og grundvallaratriði orkusamnings. Mér þótti afar skiljanlegt þegar núv. hæstv. forsrh. gerði uppsteit í Landsvirkjunarstjórn gegn þessu þegar honum var sýndur þessi samningur og sagðist hafa hann að engu ef ég man rétt og heimtaði að sett yrði nefnd sem hann fór sjálfur í til að endurskoða þennan samning. Hins vegar lýsti hæstv. forsrh., þáv. borgarstjóri, því yfir á fundum t.d. á skrifstofu minni að þeir komust ekkert með orkuverðið og var beinlínis svarað að ráðherra hefði þegar gengið frá því með handsali. Það voru náttúrlega mistök. Ég skal ekkert um það segja hvort unnt hefði verið að ná betra orkuverði. En lög gera ráð fyrir því að stjórn Landsvirkjunar semji

um orkusölu og síðan er það samkomulag háð samþykki ráðherra. Ráðherra á sem sagt að vera síðasti aðilinn fyrir utan Alþingi sem kemur að slíku máli.
    Því er ekki að neita að í síðustu ríkisstjórn ollu svona framkvæmdir verulegum vandræðum og ég vil leyfa mér að segja sjálfur að ég hafi í mörgum tilfellum leitt þetta mál fram hjá æðislæmum boðum sem út af fyrir sig voru ekki óeðlilegir eins og á því var haldið. Ég tel, eins og ég taldi þá, að sú undirskrift undir minnisblað sem fram fór í byrjun október fyrir rúmu ári hafi verið algerlega óþörf og reyndar stóð til að skrifa undir langtum ítarlegra minnisblað sem við í ráðherranefndinni fengum að sjá og gerðum margar athugasemdir við og töldum alls ekki svo langt komið að undir það væri hægt að skrifa, hvorki lægi fyrir samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um öll atriðin hvað þá að málin hefðu verið rædd á þingflokksfundum. Ég átti skömmu síðar fund með aðalmanni hinna erlendu fyrirtækja í Bandaríkjunum sem virtist nákvæmlega sömu skoðunar. Úr þessu minnisblaði fékkst síðan að vísu mjög dregið, en það var samt sem áður undirskrifað með fánaborg að baki.
    Í þetta minnisblað slæddust villur sem ég vil leyfa mér að spyrja hvort enn eru í aðalsamningi. Í minnisblaðinu stóð t.d. að við Íslendingar skyldum hafa leyfi til þess að auka kröfur um mengunarvarnir ef slíkt yrði ákveðið á alþjóðlegum vettvangi og sýnt væri fram á að álverið ylli tjóni á á landinu í kring. Þetta eina litla ,,og`` varð afar afdrifaríkt og fyrrv. umhvrh. fór sérstaka ferð til Bandaríkjanna til að fá það burtu en það tókst ekki og í það var vísað að þetta væri undirskrifað af hæstv. iðnrh.
    Nú veit ég að núv. hæstv. umhvrh. hefur lagt fram drög að umhverfissamningi við álverið í þeirri nefnd sem um það fjallar á Alþingi, en eftir því sem ég best veit fékkst ekki upplýst hvort þetta ,,og`` væri enn þá í aðalsamningi og reyndar fékkst aðalsamningurinn ekki skoðaður. Ég hef að vísu verið í burtu í nokkra daga, en ef hann hefur komið fram þá vil ég gjarnan fá það upplýst og hins vegar hvort þetta er enn þá í aðalsamningi. Erum við bundnir af þessu litla ,,og``?
    Ég þarf náttúrlega ekki að rekja þær deilur sem urðu um staðsetningu álversins og ég vil taka það skýrt fram að það var ekki með samþykki ríkisstjórnarinnar fyrrv. að haldinn var fundur austur á fjörðum og síðan í Eyjafirðinum og boðið upp á álver. Það var ekki fyrr en þessi boð höfðu verið gerð að ráðherranefndin sem um þetta fjallaði samþykkti að allir þessir staðir skyldu vera til umræðu. En ég skal ekki segja hvað olli því að farið var skyndilega í þessa fundarferð. Að vísu dró nær kosningum og sumir sögðu að hæstv. ráðherra þyrfti að finna sér kjördæmi. Ekki veit ég hvort það er rétt eða ósatt sagt. En þessi fundarferð var slæm og olli með þjóðinni miklum klofningi og stórkostlegum vandræðum í þessu máli sem reyndist erfitt að greiða úr.
    Þannig gæti ég rakið ýmislegt fleira. Ég hef fylgst nokkuð með málinu eftir að ný ríkisstjórn tók við og hefði vissulega fagnað því mjög ef af þessu álveri yrði. Ég tel að við þurfum á því að halda. Ég tel sérstaklega mikilvægt í núverandi ástandi að nýjar atvinnugreinar standi hér til boða. Mér þótti hins vegar ýmislegt undarlegt í þeirri undirskrift sem fór fram sl. sumar og mér virtist vera bindandi fyrir okkur Íslendinga en algerlega opin án nokkurra trygginga fyrir hina erlendu aðila. Var t.d. tryggt, ef hinir erlendu aðilar kysu að nota sinn opna fyrirvara um fjármögnun, að þeir greiddu þann kostnað sem hlotist hefur af samningagerðinni? Um það var oft rætt í fyrri ríkisstjórn að það væri lágmark að krefjast þess að ef þeir hlypu frá greiddu þeir þann kostnað sem á væri fallinn. Nú var gerður við þá samningur og undirritaður með viðhöfn, en alveg opinn af þeirra hálfu því að vitanlega geta þeir hvenær sem er sagt að vaxtakjör séu ekki nægilega góð og þess vegna kjósi þeir að ganga ekki til þessa verks.
    Fjölmargar fleiri slíkar spurningar hljóta að vakna. Nú t.d. er ljóst að mikill dráttur verður. Hæstv. forsrh. sagði í sjónvarpinu í gær, ef ég tók rétt eftir, að hann teldi tvö ár og ég held að það sé raunsærra en haft hefur verið eftir hæstv. iðnrh. --- það sé meiri óskhyggja í því hjá iðnrh. En þetta þýðir að Blönduvirkjun verður vannýtt í lengri tíma. Það var talað um þegar dráttur varð í fyrra að fást yrði stytting á afsláttartíma raforkuverðsins. Það tókst ekki í samningunum sem undirritaðir voru í sumar að því er mér skilst þó að það fengist lítilfjörleg hækkun síðar á tímabilinu. Ég spyr: Nú dregst enn að úr byggingu þessa álvers verður og fæst þessi afskriftartími þá styttur? Og ég verð að spyrja: Erum við bundnir af þessum samningi enn þá? Geta hinir erlendu aðilar haldið okkur í biðstöðu þar til þeim þóknast að segja: Nú höfum við fengið þau kjör sem gera okkur kleift að byggja hér álver. Erum við bundnir? Eða getum við Íslendingar nú leitað annað? Getum við afskrifað þetta ef önnur tækifæri bjóðast? Það er ýmis orkufrekur iðnaður sem kemur til greina annar en álbræðsla. Um allt þetta þurfum við nú að fá upplýsingar eins og stendur. Erum við bundnir af þessum samningi? Hafa þeir okkur í snörunni? Geta þeir látið okkur bíða eins lengi og þeim sýnist? Er ekki a.m.k. ljóst að ákvæði eins og þetta sem ég hef nefnt um afsláttartíma raforkunnar hlýtur að endurskoðast? Hefur þeim verið gerð grein fyrir því að við getum að sjálfsögðu ekki lengur látið þá fá orku með slíkum afslætti? Forsendurnar eru ekki fyrir hendi. Ég vona að hæstv. iðnrh. upplýsi okkur á eftir um ýmis slík atriði.
    Eins og ég sagði í upphafi vil ég ekki hvað síst að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ríkisstjórn hvað hún hyggst nú gera. Stendur það enn þá sem hæstv. forsrh. gerði að aðalinntaki í stefnuræðu sinni, að ríkisstjórnin ætlaði engin afskipti að hafa af atvinnulífinu? Hér blasir nú við með samdrætti í sjávarútvegi og svo þessu áfalli, sem þýðir um það bil 1% meiri samdrátt í þjóðartekjum, þriggja milljarða minni tekjur og líklega 400--500 færri sem fá atvinnu, samdráttur sem er að nálgast það sem var 1967. Og af því að núv. stjórnarflokkum er svo gjarnt að vísa til viðreisnarstjórnarinnar vil ég benda á að hún hafði þó dug til að grípa til vissra aðgerða til að draga úr þeirri vá og þeim vandræðum sem sá samdráttur olli um land allt. Stendur það enn þá að ríkisstjórnin ætlar að sitja aðgerðarlaus?
    Ég vil spyrja um ýmsar aðrar hugmyndir og ekki síst af því að fram kom hjá hæstv. iðnrh. í fréttum í gær að við værum að fordæma atvinnustefnu fyrri ríkisstjórnar. Fyrri ríkisstjórn var þó með ýmislegt annað á prjónunum. Ég skildi t.d. eftir afar athyglisvert álit frá nefnd sem ég bað að kanna ýmsa framtíðarmöguleika hér og var stundum kölluð bjartsýnisnefndin af því að hún komst að þeirri niðurstöðu að þeir væru ótal margir, t.d. gífurlega miklir í ferðaiðnaðinum og að hér gæti alls konar sérhæfð ferðaþjónusta blómstrað. Hins vegar var gert ráð fyrir áframhaldandi þátttöku ríkisvaldsins í að kanna þessa möguleika og jafnvel styðja við bakið á þeim sem vildu nýta sér þá eftir ýmsum leiðum, beinum og óbeinum. Hvað er orðið um þetta verk?
    Hvar liggur núna skýrsla sem einnig var samin að minni tilhlutan í forsrn. um að nýta Keflavíkurflugvöll sem býður upp á gífurlega mikil tækifæri? Hvað á að gera þar? Hvað á að gera til að mæta atvinnuleysi á Suðurnesjum þar sem 8% kvenna eru nú atvinnulausar og atvinnuleysi fer ört vaxandi? Ég spyr: Hefur ríkisstjórnin mótmælt við Bandaríkjaher sem segir upp Íslendingum á undan Bandaríkjamönnum í trássi við samkomulag sem gert var fyrir allmörgum árum um að Íslendingar skuli ganga þar fyrir vinnu? Hæstv. utanrrh. er því miður ekki hér en starfandi utanrrh., sem ég hygg að sé hæstv. iðnrh., getur e.t.v. svarað þeirri spurningu. Hvað hefur verið gert? Hefur verið gripið þar í taumana?
    Ég neita því ekki að það vakti óneitanlega athygli þegar ákveðið var að reisa það mikla og ég vona mjög gagnlega flugskýli á Keflavíkurflugvelli að Flugleiðir leituðu ekki

einu sinni tilboða innan lands heldur var samið án útboðs við erlent fyrirtæki um að reisa þetta flugskýli. Ég spyr, var það gert í samráði við hæstv. ríkisstjórn eða var hún ekki höfð þar með í ráðum?
    Enginn vafi er á því að það er rétt sem hæstv. iðnrh. hefur að fyrirsögn í frægu erindi sínu hjá iðnrekendum. ,,Þetta land á ærinn auð``, segir hæstv. iðnrh. og það er rétt. Þetta land á ærinn auð, en það þarf vitanlega dug og kjark til að halda vel á þeim auði og nýta þann auð. Og það má ekki draga svo kjarkinn úr mönnum með því tali að athafnamenn skuli fá að gjalda sinna mistaka, eins og hæstv. forsrh. hefur sagt, og veita ekki þá aðstoð sem nauðsynleg er þegar kreppa gengur yfir þjóðfélagið að þessi mikli auður nýtist ekki og þau fjölmörgu tækifæri sem þjóðin hefur til að skapa hér góð lífskjör. Er það virkilega svo að hæstv. ríkisstjórn sjái enga aðra lausn á vandamálum okkar Íslendinga en að leita forsjár Evrópubandalagsins, sem hæstv. utanrrh. hefur reyndar hvað eftir annað lýst sem mesta afturhaldi í heimi? Er það lausnin? Ég vildi gjarnan fá svar við því.
    Nei, staðreyndin er sú að okkur Íslendingum hefur með nánu samstarfi ríkisvalds, atvinnurekenda, verkalýðshreyfingar, bænda o.s.frv. tekist að skapa hér lífskjör sem eru með því besta sem þekkist. Þannig hefur tekist að brúa þá erfiðleika sem hér hafa orðið og það er hægt enn því að það er rétt að þetta land á ærinn auð.
    Ég vil ljúka þessu með því að lýsa þeirri einlægu von minni að ríkisstjórnin hverfi af núverandi braut afskiptaleysisins og taki upp nauðsynlegt samstarf við Íslendinga hvar sem þeir eru og hverjir sem þeir eru um að nýta þennan mikla auð.