Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 15:28:00 (869)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Það hefur verið á stefnuskrá ríkisstjórna á Íslandi um langt árabil að efla stóriðju í landinu. Hins vegar hefur nú orðið næstum tveggja áratuga hlé á því að orkulindum landsins fengist breytt í auðlindir. Á síðustu árum hefur víða verið leitað fanga í þessum efnum en árangurinn hefur því miður látið á sér standa.
    Það mál sem við ræðum nú á sér upphaf í samkomulagi sem gert var 13. mars árið 1990, samkomulagi þátttakenda í Atlantsálsverkefninu um að byggja hér álver. Síðan hafa farið fram umfangsmiklar viðræður þessara samningsaðila m.a. um skattamál, skipulag og almenna lagalega umgjörð fyrirtækjanna, um orkuverð, um staðarval, um starfsleyfi, um umhverfismál. Öll þessi vinna, eins og ég hef áður lýst á Alþingi, er nú komin á lokastig og er verið að ganga frá tæknilegum atriðum.
    Mig langar til að rifja upp fyrir hv. þingheim að heildarfjárfestingin í álveri Atlantsáls sem hefði 210 þús. tonna framleiðslugetu á ári yrði tæplega 44 milljarðar kr. á meðalverðlagi ársins 1990. Fjárfesting í virkjunum og öðrum tengdum framkvæmdum hefur nýlega verið áætluð um 30 milljarðar kr. Samanlögð ársverk á framkvæmdatímanum eru talin munu verða um 4500 og skiptast nokkurn veginn til helminga milli framkvæmda við álver og virkjanir. Samkvæmt fyrri áætlunum áttu flest ársverk að falla til á árunum 1994--1995. Þegar þetta mikla álver verður komið í fullan rekstur er áætlað að útflutningsverðmæti afurða þess verði um 23 milljarðar kr. miðað við meðalgengi Bandaríkjadollars á fyrri hluta þessa árs. Með Atlantsálverinu yrði hagvöxtur á Íslandi verulega meiri en án þess.
    Af þessum örfáu atriðum má öllum vera ljóst hversu mikilvægt þetta verkefni er fyrir okkur sem þjóð, fyrir atvinnuástandið, fyrir kaupmátt fólksins. Frestun þessara framkvæmda er þess vegna mikið áfall. Ég leyfi mér að benda á vegna þess sem kom fram hjá hv. málshefjanda, 7. þm. Reykn., Steingrími Hermannssyni, að allan þann tíma sem viðræður hafa farið fram hefur Alþingi Íslendinga reglulega fengið upplýsingar um málið. Ég tala nú ekki um þann aðgang sem ráðherrar í ríkisstjórn á hverjum tíma hafa haft á hverju

stigi málsins.
    Mig langar að rifja upp nokkur atriði í þessu sambandi. Í maímánuði árið 1990 var Alþingi gert grein fyrir stöðu samninganna með sérstakri skýrslu. Í október 1990 var lögð fram önnur skýrsla um stöðu samninganna þar sem gerð var vandlega grein fyrir samningunum eins og þeir stóðu þá og minnisblöðum sem gengu á milli aðila og til var vitnað í ræðu málshefjanda. Þar voru birtar greinargerðir um áhrif á byggðarþróun, þjóðarhag, um umhverfisáhrif álvera, svo að ég nefni nokkur mikilvæg atriði.
    Í mars 1991, þ.e. fyrr á þessu ári, var enn lögð fram á Alþingi skýrsla um álver á Keilisnesi. Þar varð gerð ítarleg grein fyrir skipulagi samningastarfsins, helstu ákvæðum aðalsamnings, meginatriðum varðandi orkusölu, hafnar- og lóðarmál, starfsleyfi og fleiri atriði. Iðnn. Alþingis eftir hinu nýja skipulagi þingsins hefur á liðnu sumri einnig fengið margvíslegar upplýsingar um málið. Það hefur líka umhvn. Alþingis fengið um starfsleyfið. Ótaldar eru svo utandagskrárumræður og fyrirspurnir sem umræðum hafa valdið í þinginu þá 18 mánuði sem samningaviðræðurnar hafa staðið.
    Ég leyfi mér að fullyrða að ekkert mál af þessu tagi hafi hlotið aðra eins kynningu og umfjöllun á vettvangi Alþingis og ekkert mál af því tagi sem hér um ræðir hafi verið lagt jafngreinilega fyrir þingið á frumstigum máls. Þess vegna vekur það furðu að menn vilja nú halda því fram að aðgangur að upplýsingum um þetta mál hafi verið takmarkaður og að menn hafi verið duldir einhvers þess sem þar var verið að ræða. Ég tala þá alls ekki um það að sjálfsögðu hversu góður og greiður aðgangur var að þessu máli innan ríkisstjórnarinnar sem hv. 7. þm. Reykn. veitti forstöðu. Þess vegna hlýtur það að teljast nokkuð undarlegt að hann skuli nú halda því fram að eiginlega hafi hann alla tíð dregið í efa að þetta verk svaraði kostnaði. Það hafi verið fyrir ári að hann hafi fengið upplýsingar sem gáfu honum ástæðu til að ætla að frumforsendur málsins stæðust ekki.
    Þetta tel ég mjög alvarlegar upplýsingar fyrir þingheim að fá á þessu stigi máls. Það er eitt að gagnrýna hvernig á máli er haldið. Það er annað að segja að menn hafi allan tímann haft vantrú á því en staðið þó fyrir samstarfi um það í ráðherranefnd, í ríkisstjórn og á Alþingi án þess að gera uppskátt um slíkan hug til málsins. Þetta vil ég segja í mikilli einlægni, eins og ég veit að hv. 7. þm. Reykv. er mjög vel lagið. Ég endurtek að þetta vekur furðu mína og krefst skýringar. Það er ekki undarlegt að mínu áliti að margir þingmenn Kvennalistans haldi því fram að þeir hafi aldrei haft trú á þessu verkefni. Þar er málið í sjálfu sér eins og það hefur verið lagt fyrir af þeim. Að vísu verð ég að játa það að ég skil ekki þá afstöðu, þegar fulltrúar þingflokks Kvennalistans fagna því að nú hafi orðið dráttur á þessari bráðnauðsynlegu og mikilvægu framkvæmd. En hvað um það, þar hlýtur hver að ráða sinni afstöðu.
    Mig langar til að víkja að nokkrum af þeim atriðum sem hv. 7. þm. Reykn. kom að í sínu máli. Í fyrsta lagi það sem hann sagði um minnisblaðið sem gert hafi verið í október og hafi verið óþarft. Þar vil ég benda á að ég er enn þeirrar skoðunar að það hefði verið æskilegt að ganga þá lengra en gert var, vinna hraðar, hafa skjalið ítarlegra. Þá hefðu verið meiri líkur á því að málið væri nú komið á framkvæmdastig. Þetta er mín óbreytt skoðun. En ég skil vel að þar er verið að tala um hluti sem eru getgátur manna og menn geta haft ólíkar skoðanir á. En ég vil ekki fallast á að það hafi verið óþarft. Ég tel þvert á móti að staða okkar sé sterkari fyrir það en án þess. Ég ætla ekki að tíunda það frekar en segi að ég mótmæli því algerlega að einhverjar villur hafi slæðst í þetta minnisblað. Umhverfisákvæðin, sem nú liggja fyrir í starfsleyfisdrögum, eru fullkomlega í samræmi við okkar umhverfisverndarsjónarmið, okkar þarfir. Hugleiðingar um samtengingar í því máli fá ekki staðist því það er ekki bara spurning um hvaða samtenging er notuð heldur hvað það er sem saman er tengt. Og ég fullyrði það að umhvn. Alþingis hafi nú fengið fullnægjandi skýringar á þessu og vil vísa til þess efnis sem fyrir hana hefur verið lagt og henni verið kynnt. Ég vildi reyndar láta þess getið að umhvrh. mun leggja fyrir þingið skýrslu um starfsleyfisgerðina á næstu dögum. Ég ætla að hún gæti borist þinginu í þessari viku.
    Ég kem þá að því sem sagt var, að ég sem iðnrh. hafi staðið fyrir ótímabærum fundum um staðarvalið í aðdraganda kosninga á Egilsstöðum og Akureyri til að kynna þetta mál. Aðdragandi kosninga er að vísu afstætt hugtak en þeir fundir sem hv. 7. þm. Reykn. er að vitna til voru haldnir haustið 1989, í september það ár. Á fyrri fundinum var reyndar með mér, og við boðuðum þann fund sameiginlega, varaformaður Framsfl., hv. 1. þm. Austurl., fyrrv. sjútvrh. Við vorum þar fyrst og fremst að ræða og kynna þá möguleika sem fælust í nýju álveri á Íslandi til þess að láta þann draum rætast að reisa stóra virkjun á Austurlandi. Ég held enn að þeir fundir hafi verið mjög gagnlegir. Reyndar líka fundurinn á Akureyri þar sem frá því var skýrt að það væri stefna þáv. ríkisstjórnar að næsta verkefni á eftir stækkun álvers í Straumsvík eða nýju álveri á Suðvesturlandi væri stóriðjuver við Eyjafjörð. Ég hélt að við hefðum verið alveg sammála um þetta. Ég er líka sannfærður um að þessir fundir sameinuðu menn en sundruðu þeim ekki og voru nauðsynlegur aðdragandi að því að fá ákvörðun í staðarvalsmálinu sem á endanum tókst og var farsæl vegna þess að hún náði mjög mörgum ólíkum sjónarmiðum saman. Við það stend ég enn og sérstaklega í ljósi þeirrar áhyggju sem hv. 7. þm. Reykn. réttilega lýsir af atvinnuástandinu á Suðurnesjum hef ég sannfærst um það betur og betur að staðarvalið var vissulega rétt ráðið.
    Mig langar, virðulegur forseti, að koma að nokkrum fleiri atriðum í máli málshefjanda, m.a. þar sem hann víkur að því hvort sá dráttur sem nú sé fyrirsjáanlegur á framkvæmdunum muni ekki fela í sér að Blönduvirkjun nýtist með örum hætti en áður hafi verið ráðgert og að það gefi tilefni til þess að huga að þeim ákvæðum um raðafslátt á fyrri hluta samningstíma við Atlantsál sem hingað til hefur verið gert ráð fyrir. Það er rétt athugað að þær breytingar sem við nú ræðum og frestur á málinu felur að sjálfsögðu í sér að huga þarf að þessum ákvæðum. Ég kann hins vegar ákaflega illa við að heyra orðalag eins og það sem hv. þm. leyfði sér að nota áðan: ,,Erum við þá fastir í snörunni?`` Hér er engin snara. Við erum ekki fastir í neinu. Við höfum ekki gert bindandi samning um þetta mál. En við höfum hins vegar lagt drög að samningi sem ég tel að væri okkur mjög hagfelldur ef hann yrði að veruleika. Það er okkar hagur að halda málinu áfram, ljúka samningi fullkomlega tæknilega að öllu leyti og hafa í honum fyrirvara um gildi hans verði ekki ráðist í framkvæmdir. Ég tel það vera sérstakt viðfangsefni að ræða vandlega við okkar viðsemjendur í Atlantsálshópnum og komast að niðurstöðu um það með því að vitja málsins reglulega á næstu vikum, mánuðum og missirum. Það er líka mitt áform. Og eins og lýst hefur verið mun ég eiga fundi með forráðamönnum þessara þriggja fyrirtækja á næstu vikum.
    Ég vil víkja nokkuð að því sem hv. 7. þm. Reykn. sagði að ríkisstjórnin hafi setið aðgerðarlaus meðan þessar viðræður fóru fram. Eins og ég hef áður sagt hlýtur hann að einhverju leyti að vera að vísa til sinnar eigin stjórnar því það er ekki svo langt um liðið frá því að hún fór frá að hægt sé að kenna aðgerðir eða aðgerðarleysi á samningstíma Atlantsáls eingöngu við þá ágætu ríkisstjórn sem nú situr. Það er einfaldlega þannig að allan þennan tíma hafa farið fram skipulegar viðræður, leit að ýmsum öðrum verkefnum og ég vildi leyfa mér að halda því fram að markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar hafi unnið þar mjög gott starf. Hún hefur kannað marga kosti. Hún á nú í viðræðum við aðila sem m.a. hafa í huga bræðslu báxíts til þess að breyta því í slípiefni. Það er ekki stórt fyrirtæki en gæti verið mjög áhugavert sem viðbót við orkunotkun og atvinnu á næstu

árum. Ég nefni einnig viðræður um þilplötuverksmiðju úr vikri. Ég gæti nefnt mörg fleiri dæmi af almennu tagi sem markaðsskrifstofan hefur unnið að en vísa til þess að um það efni er ráðgert að leggja skýrslu fyrir þingið.
    Ég vildi líka láta það koma fram að allan þann tíma sem Atlantsálssamningarnir stóðu hafa verið haldin sambönd við ýmsa aðra álframleiðendur. En að sjálfsögðu er það fullkomlega óraunhæf hugmynd að á meðan við erum í alvörusamningaviðræðum við eina samsteypu álframleiðenda getum við haldið uppi einhvers konar varaskeifusamningum við aðra. Hins vegar er eðlilegt að hafa vakandi samband við önnur álfélög. Og ég vildi líka benda á að hópurinn sem fer með áliðnaðinn í heiminum er ekki mjög stór og tiltölulega auðvelt að fylgjast með öllu því sem þar er að gerast.
    Hins vegar er rétt að þar hafa orðið mjög óvæntar breytingar allra síðustu mánuði. Þær eru fyrst og fremst þær breytingar sem orðið hafa á álframleiðslu og framboði frá Sovétríkjunum. Sovétmenn standa nú á tímamótum í sínum áliðnaði eins og í svo mörgum öðrum greinum. Mörg þeirra álver eru illa búin hvað varðar umhverfismál og úrvinnsluiðnaðurinn hjá þeim stendur víða á brauðfótum. Þrátt fyrir ráðagerðir um að bæta framleiðslugetu þeirra blasa við margs konar vandamál. Tæknilega standa þessi álver ákaflega illa. Þau nota úrelta tækni. Nú eru Sovétmenn í raun og veru að selja allt sem hönd á festir fyrir gjaldeyri án þess að skeyta um það hvað hlutirnir kosta. Þeir líta ekki á það hvað orkan kostar í raun og veru. Þeir líta ekki á það hvað flutningurinn yfir þvert Rússland kostar. Þeir líta ekki á það hver vinnuaflskostnaðurinn er. Allt þetta mun fyrr eða síðar ásamt fjármagnskostnaðinum renna upp fyrir þeim og þá verður ekki lengur um þetta aukna framboð að ræða frá Sovétríkjunum. Það mun áreiðanlega verða til þess að eftir tiltölulega fá ár næst jafnvægi. Þær spár sem hv. þm. vitnaði til að menn hefðu uppi um þessi málefni sl. haust kollvarpa á engan hátt því langtímamati, sem ég er enn sannfærður um að er rétt, að áliðnaðurinn á sér bjarta framtíð og Ísland er ákjósanlegt land fyrir álframleiðslu í því hófi sem við sjálfir ákveðum. Þar er enginn vafi á að einn besti staðurinn fyrir slíka framleiðslu er einmitt á Keilisnesi.
    Ég vildi að lokum, virðulegi forseti, koma nokkuð að atvinnuástandi á Suðurnesjum sem hv. 7. þm. Reykn. vék að. Það er vissulega erfitt. Þar eru nú fleiri á atvinnuleysisskrá en verið hafa um langan aldur og hefur svo verið um nokkra hríð. Það hefur verið samdráttur í störfum hjá varnarliðinu enda er samdráttur í varnarstörfum vestrænna ríkja um allan heim. Ástæðurnar fyrir þessu eru að sjálfsögðu þau gleðilegu tíðindi að friðvænlegar horfir í heiminum en fyrr. Það hefur ekki verið ráðið í störf sem losna. En samkvæmt upplýsingum um þetta frá þeim sem með starfsmannamálin fara er ekki ástæða til að óttast uppsagnir hjá Aðalverktökum á næstunni. Hins vegar er óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir því að framkvæmdir á vegum varnarliðsins dragist nokkuð saman eins og þeirra mannahald. Atvinnuhorfur í sjávarútveginum á Suðurnesjum hafa líka verið erfiðar eins og víða. Fyrirtæki hafa lokað en önnur sem betur fer hafa opnað.
    Ég ætla líka að nefna það að bygging flugskýlis á Keflavíkurflugvelli, sem hv. þm. nefndi, vegna viðhaldsstarfsemi Flugleiða mun verða mjög mikilvæg viðbót við atvinnugrundvöllinn á þessum slóðum. Ég vil líka nefna það sem nokkuð hefur verið rætt á undanförnum árum en lítið komist í framkvæmd en það er nauðsyn þess að setja upp fríathafnasvæði tengt Keflavíkurflugvelli. Alþingi samþykkti um þetta efni þáltill. Karls Steinars Guðnasonar fyrir nokkru. Nú er miklu betri gangur á því máli en fyrr. Í það verk hefur verið settur starfshópur þriggja ráðuneyta, fjármála, utanríkis og iðnaðar. Við munum leggja fram tillögur um þessa tilhögun á næstunni. Þar yrði unnt að koma á fót t.d. samsetningariðnaði á tölvum og tæknibúnaði.
    Við munum einnig setja upp frísvæði fyrir annars konar starfsemi og leita þar fyrirmynda m.a. til Írlands. Ég bendi enn á það að samningarnir um Evrópskt efnahagssvæði munu gefa fiskiðnaði á Suðurnesjum nýja möguleika. Ég bendi á að við erum nú að sjá nýja möguleika í sambandi við nýtingu á jarðhita á Suðurnesjum eftir að samstarf hefur verið tekið upp við erlenda aðila sem að sínu leyti byggist líka á aðgangi okkar að evrópskum markaði.
    Það er í þessum breytingum sem framtíðarmöguleikarnir liggja. Og það er í þessum möguleikum sem framtíðaratvinnuvonin býr. Hún býr ekki í því að ríkið ákveði hvar, hvernig og hvenær nákvæmlega eigi að byggja upp atvinnuna. Við verðum að byggja hér upp almenn skilyrði. Það að ríkið er svo umsvifamikið sem raun ber vitni í orkufrekum iðnaði hlýst eingöngu af smæð landsins og fyrirkomulagi orkubúskapar okkar. Við eigum líka að leita annarra leiða en iðnaðaruppbyggingar og að undanförnu hefur verið unnið mjög rækilega að athugunum á því hvort sala rafmagns um sæstreng til Evrópu geti svarað kostnaði. Þær viðræður eru bæði tæknilegar og viðskiptalegar. Á þessu stigi máls er ekki annað hægt um þær að segja en að líklegt virðist að undir aldamót muni verðið á þessum markaði standa undir kostnaði vegna útflutnings á raforku héðan. Hins vegar verðum við á það að líta að slíkur útflutningur skapar litla vinnu nema á meðan á framkvæmdum stendur. Það er því hagur þjóðarbúsins að hafa til skiptis beinan útflutning orku og uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi.
    Við höfum líka unnið að athugunum á framleiðslu vetnis sem orkugjafa. Það er líka mál sem liggur lengra fram í tímanum en álbræðsla. Því miður er það einfaldlega þannig að upplagðasta aðferðin til að breyta íslenskri orku í tekjur og atvinnu fyrir almenning er álbræðsla. Það er að vísu rétt að sá búskapur er sveiflukenndur en enn hefur enginn á það bent að önnur leið skili betri árangri.
     Með þessum orðum, virðulegur forseti, lýk ég mínu máli en vildi að endingu nefna það að ég geri ráð fyrir að leggja fyrir þingið skýrslu um álsamningana eftir jól.