Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 15:49:00 (870)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það eru vissulega alvarleg tíðindi þegar þau erlendu fyrirtæki sem Íslendingar hafa átt í viðræðum við um áraraðir tilkynna okkur að þau ætli sér ekki að byggja álver á Íslandi í bráð. Við höfum ýmsir að vísu varað við því um langt skeið að þetta kynni að verða niðurstaðan en núv. hæstv. iðnrh., núv. hæstv. forsrh. og núv. hæstv. fjmrh. hafa ekki viljað hlusta á þær viðvaranir.
    Þeir lögðu fyrir þingið fyrir fjórum vikum síðan fjárlagafrv. sem er byggt á þeirri meginforsendu að álversframkvæmdir og virkjanaframkvæmdir hefjist á næsta ári. Þeir hafa lagt fyrir þingið, þjóðina og samtök vinnumarkaðarins þjóðhagsáætlun sem einnig byggir á þessari sömu forsendu. Nú verður þetta allt tekið til endurskoðunar. En það er ekki bara að þingið og þjóðin hafi fengið upplýsingar sem ekki entust einn mánuð heldur hefur mikill fjöldi einstaklinga, jafnvel svo þúsundum skiptir, mikill fjöldi atvinnufyrirtækja, mikill fjöldi áhugamanna um atvinnuþróun, sérstaklega á Suðurnesjum, miðað sín framtíðaráform um langt skeið við þau orð iðnrh. að álverið væri á næsta leiti, samningum væri að ljúka og engin ástæða væri til að draga það í efa. Það er mikið högg fyrir Suðurnes, sem eiga núna við mikla erfiðleika í atvinnumálum að etja, að fá nú frá fyrirtækjunum, sem iðnrh. hefur treyst og sagt við Suðurnesjamenn að hann treysti, þá tilkynningu að ekkert verði úr þessum framkvæmdum í bráð. Það knýr á um að stjórnvöld taki til hendinni í atvinnumálum Suðurnesja og landsins alls. Það knýr á um það að afskiptaleysisstefna ríkisstjórnarinnar verði nú lögð til hliðar og hún bæti fyrir það tjón sem hefur orðið.
    Þetta er alveg ljóst: Ríkisstjórnin hefur sýnt dómgreindarleysi. Málefnaundirbúningur hennar á þingi hefur reynst óraunhæfur og í miðjum nóvembermánuði verður að taka

upp lykilákvarðanir þingsins. Hæstv. iðnrh. tilkynnti þjóðinni í gær að það hefði verið erfitt að sjá þessi tíðindi fyrir vegna þess að Persaflóastríð og síðari byltingin í Sovétríkjunum væru orsökin. Hæstv. iðnrh. viðhafði að vísu ekki þessa skýringu í ræðustólnum áðan. Og væri óskandi að þögn hans um þessi skýringaratriði í ræðustólnum væri vísbending um að hann hefði séð að sér. Vegna þess að þessar fullyrðingar, sem hann flutti þjóðinni í gær, um Persaflóastríðið og síðari byltinguna í Sovétríkjunum eru einfaldlega rangar. Þær standast ekki og orsakirnar sem hér liggja að baki eru miklu víðtækari og eiga sér lengri sögu en þessir tveir atburðir. En það er svo sem í stíl við annað í óraunhæfum ummælum hæstv. iðnrh. í þessu máli í gegnum tíðina að hann skuli á svo alvarlegri stundu flytja þjóðinni rangar skýringar á því hvers vegna nú er svo komið.
    Hv. þm. Páll Pétursson hefur greint frá því í viðtölum við fjölmiðla að þegar samninganefnd Landsvirkjunar, sem var skipuð hv. þm. Páli Péturssyni og núv. hæstv. forsrh., Davíð Oddssyni, fór til viðræðna í Lundúnaborg við fyrirtækin þrjú og forsvarsmenn þeirra voru þar líka staddir til að ræða við erlenda banka kom þegar í ljós að erlendu bankarnir voru ekki tilbúnir til að greiða fyrir lánveitingum þessara fyrirtækja á grundvelli þeirra samningsdraga, ég endurtek, á grundvelli þeirra samningsdraga sem gerð höfðu verið, þ.e. þess lykilatriðis að bankarnir en ekki fyrirtækin ættu að bera megináhættuna af þessari fjárfestingu.
    Eins og ég mun koma að síðar liggur þar ein meginskýringin á því hvers vegna fyrirtækin hafa nú dregið sig til baka og tilkynnt þessi slæmu tíðindi að samningurinn sjálfur var þannig gerður að það voru afar litlar líkur á því að fyrirtækin gætu fengið bankana til að annast þessa fjármögnun. Það er þess vegna samningsgerðin sjálf sem er ein af skýringunum á því hvers vegna nú er svo komið.
    Ég átti skömmu eftir áramót viðræður við forustumenn Goldman Sachs. Goldman Sachs er eitt af virtustu fjármögnunarfyrirtækjum í veröldinni, eitt stærsta sinnar tegundar, og hefur m.a. annast fjármögnun fyrir álversbyggingar í Frakklandi. Forráðamenn þessa fyrirtækis tjáðu mér það snemma á árinu að Persaflóastríðið hefði eingöngu haft truflandi áhrif á alþjóðlegan lánamarkað í eina viku. Hinn alþjóðlegi lánamarkaður hefði strax náð sínu fyrra ástandi í annarri viku eftir að Persaflóastríð braust út. Þeir tjáðu mér einnig og forráðamönnum fjmrn. sem þar mættu til viðræðna og Lánasýslu ríkisins að að þeirra dómi væru fyrirtækin þrjú sem Íslendingar væru að ræða við að tefja málið vegna þess að þau væru ekki reiðubúin og bankarnir væru ekki reiðubúnir að taka þá almennu áhættu sem í þessu fólst.
    Ég greindi þáv. iðnrh. og ríkisstjórninni frá þessum ummælum forustumanna Goldman Sachs, kunnáttumanna í hinum alþjóðlega peningamarkaði. En eins og með margt annað vildi hæstv. iðnrh. ekki hlusta á það. Ég verð hins vegar að segja nú í nóvembermánuði að þessi spá forustumanna Goldman Sachs í upphafi ársins hefur reynst vera rétt.
    Hæstv. fyrrv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, greindi frá því í þeirri ráðherranefnd sem hann lýsti hér áðan að starfaði í tíð síðustu ríkisstjórnar að hann hefði þegar á síðasta ári fengið vitneskju um það að álframboð frá Sovétríkjunum kynni að verða með þeim hætti að það truflaði markaðsþróun á áli. Þá vildi hæstv. iðnrh. einnig lítið gera með það. Ég get svo sem rakið þau orðaskipti og ummæli ef þess er óskað því það vill svo til að við erum hér staddir í þingsalnum tveir, ég og hv. þm. Steingrímur Hermannsson, sem þekkjum vel af eigin reynslu hve léttvægt hæstv. núv. iðnrh. fannst vera margt af því sem honum var sagt frá kunnáttumönnum víða að í veröldinni um þetta mál.
    Ég tel þess vegna nauðsynlegt, þegar við erum nú stödd í þeim sporum að málið er úr sögunni um langa framtíð, að rekja hér þrjár ástæður sem ég tel að liggi að verulegu leyti á bak við það að nú er svo komið.

    Í fyrsta lagi. Dómgreindarleysi iðnrh. sjálfs. Ég geri mér grein fyrir því að það eru stór orð. Þau eru hins vegar ekki mælt af neinum illvilja, en það verður að líta yfir málið eins og það er vaxið og skoða söguna eins og hún er í eðli sínu, hversu óþægilegt sem það kann að vera. Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að rekja í löngu máli, enda hef ég ekki til þess tíma, þann langa lista yfir yfirlýsingar hæstv. iðnrh. á síðustu þremur árum sem sýna dómgreindarleysi hans á hverri stundu vegna þess að ég vil ekki væna hann um það að hafa greint rangt frá. Það vil ég alls ekki gera. Ég vil aðeins nefna nokkur dæmi.
    Á þingi iðnrekenda, ekki því sem nýlega er afstaðið og hv. þm. Steingrímur Hermannsson vitnaði til, heldur á þingi iðnrekenda í mars 1989, fyrir rúmum þremur árum síðan, sagði hæstv. iðnrh. orðrétt: ,,Miðað hefur verið við að fyrri áfangi álversins færi í gang árið 1992, en hinn síðari árið 1996.``
    Í Morgunblaðinu 14. sept. 1989 tilkynnir iðnrh. formlega að Eyjafjörður sé líklegasti aðsetursstaður hins nýja álvers.
    Þann 9. des. 1989 segir hann í viðtali við Alþýðublaðið: ,,Til þess að þær tímaáætlanir sem unnið hefur verið eftir riðlist ekki, verðum við að komast til botns í málinu á fyrstu mánuðum nýja ársins.`` --- Þ.e. ársins 1990.
    Og 19. des. 1989 segir í viðtali við hæstv. iðnrh.: ,,Varðandi áætlanir hans um byggingu nýs álvers sagði iðnrh. að þær miðuðust við það að upphaf framleiðslunnar gæti orðið í árslok 1993 og full framleiðsla síðan 1994.``
    Í viðtali við Morgunblaðið 14. mars 1990 segir hæstv. iðnrh.: ,,Stefnt er að því að ljúka samningsgerð Alumax, Hoogovens og Gränges og íslenska ríkisins um byggingu nýs álvers á Íslandi fyrir 20. sept. í haust.`` --- Þ.e. 20. sept. 1990.
    ,,Nú er þetta að verða dauðans alvara``, segir hæstv. iðnrh. 14. mars 1990.
    Hinn 27. sept. 1990 segir hann í viðtali við Tímann: ,,Álsamningar verða undirritaðir 5. okt.``
    Þann 6. okt. segir hann í viðtali við Þjóðvijann: ,,Tímans vegna er nauðsynlegt að málið verði til lykta leitt fyrir jól.``
    Og 12. des. segir hann í viðtali við Alþýðublaðið: ,,Skrifað undir í marsmánuði 1991.``
    Þetta eru, virðulegi forseti, aðeins fáein dæmi af því yfirlýsingaflóði sem komið hefur frá núv. hæstv. iðnrh. á síðustu árum þar sem hann var sífellt að tilkynna nýjar dagsetningar, ný verklok, nýja áfanga, nýjar stundir, ný ár þar sem byrjað yrði á verkinu sjálfu.
    Var þetta rangt mat ráðherrans á hverri stundu? Mat hann málið svona vitlaust í öllum þessum tilvikum sem ég hef hér nefnt? Eða er einhver önnur skýring á því hvers vegna öll þessi ummæli --- og hef ég þó bara tekið lítið brot --- eru í ljósi reynslunnar dauð og ómerk?
    Við sem vorum hér á síðasta vetrarþingi munum einnig að hæstv. iðnrh. hélt þinginu í helgreipum sínum dögum saman vegna þess að hann vildi knýja á um það að samþykkt yrði þáltill. um álmálið því að ella væri málið úr sögunni. Og þess var krafist að í frv. til lánsfjárlaga yrðu teknar heimildir um verulegar framkvæmdir sem síðan var farið í. Því ef það yrði ekki gert væri málinu stefnt í hættu. Dögum saman beið þingið nánast verklaust vegna þess að iðnrh. gerði það að algeru skilyrði að þetta yrði gert. Og það var gert. En enn á ný er ljóst að þau ummæli og þær ályktanir sem hann dró hér á síðasta vetrarþingi reyndust ekki réttar.
    Það væri þess vegna hægt, virðulegi forseti, í mjög löngu máli að rekja hér yfirlýsingar ráðherrans mánuð eftir mánuð, missiri eftir missiri, ár eftir ár allt fram að yfirlýsingunum fyrir tveimur vikum síðan, sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson vitnaði hér til, sem allar hafa reynst rangar. Hæstv. iðnrh. skuldar þinginu og þjóðinni annaðhvort skýringu á því hvers vegna allt þetta var rangt, hver og ein einustu ummæli, eða þá að biðjast afsökunar á því að hafa leitt þingið, þjóðina og Suðurnesjamenn sérstaklega í þessi erfiðu spor.
    Önnur skýringin að mínum dómi á því hvers vegna nú svo komið eru lykilþættir í þeim samningi sem hæstv. iðnrh. hefur þegar gengið frá við fyrirtækin þrjú. Þegar samið var við Alusuisse á sínum tíma, þá var það gert með þeim hætti að móðurfyrirtækið ber alla ábyrgð á verksmiðjunni sem hér starfar. Hún er hluti af aðalfyrirtækinu sjálfu. Álfyrirtækin þrjú neituðu að fallast á slíkt sjónarmið og hæstv. iðnrh. samþykkti og undirritaði samningsdrög sem fela það í sér að móðurfyrirtækin þrjú bera mjög takmarkaða ábyrgð á þeirri verksmiðju sem reisa á á Íslandi, heldur á að mynda sérstakt hlutafélag um verksmiðjuna. Hinum erlendu bönkum er ætlað að taka meginábyrgðina á því að fyrirtækið standi sig. Ef það stenst ekki, þá eru það bankarnir sem tapa stórkostlegum fjármunum, miklu meiri fjármunum heldur en móðurfyrirtækin þrjú. Við vöruðum hæstv. iðnrh. í síðustu ríkisstjórn hvað eftir annað í ráðherranefndinni og á öðrum fundum að þetta ákvæði væri svo hæpið og opnaði svo útgönguleiðir fyrirtækjanna að það mundi að öllum líkindum leiða til þess að þau gengju frá verkinu, enda hefur það komið á daginn.
    Það er ekki skortur á fjármagni sem veldur því að fyrirtækin hafa nú dregið sig til baka. Það kemur fram í viðtalinu við Paul Drack í Morgunblaðinu í dag. Þau geta fengið peninga. Það er ekki skortur á lánum sem hindrar þau í að fara í framkvæmdina. Það sem hindrar þau hins vegar er það að bankarnir vilja ekki taka þá áhættu sem fyrirtækin þrjú krefjast að bankarnir geri. Hvers vegna vilja fyrirtækin þrjú ekki sjálf taka þessa áhættu? Það er spurning sem er nauðsynlegt að bera fram. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég þyrfti satt að segja miklu lengri tíma til að rekja þetta hér, en ég skal reyna að ljúka máli mínu á örfáum mínútum.
    Þriðji þátturinn . . . ( Forseti: Tíminn er búinn.) Ef ég má hafa eina mínútu í viðbót, virðulegi forseti. Ég tel það óhjákvæmilegt. --- Þriðji þátturinn er sú aðferðafræði sem hæstv. iðnrh. kaus að beita í þessu máli og Steingrímur Hermannsson vék að áðan, þ.e. sá ruglandi sem var um það hver væri í raun og veru að semja. Fyrst er formleg samninganefnd sett af. Þá er búin til samráðsnefnd. Hún starfar satt að segja enn, en hún hefur ekki komið saman í mörg missiri, því síðan var myndaður innri kjarni í þeirri samráðsnefnd sem átti að fara með viðræðurnar við fyrirtækin. En síðan kemur ráðherrann sjálfur og fer inn í viðræðurnar fram hjá þeim hópi og til hliðar, síðan Jóhannes Nordal persónulega og loks stjórn Landsvirkjunar. Það eru um það bil sex aðilar sem hafa verið flæktir inn í þetta mál með mismunandi hætti og það hefur vissulega tafið gang málsins og gert hann flóknari og erfiðari af hálfu Íslands. (Forseti hringir.)
    Ég mun í þeim síðari tíma sem ég hef í þessum umræðum rekja nokkra aðra þætti málsins, en ég tel óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að hæstv. iðnrh. taki hér á Alþingi þátt í umræðum um þær fullyrðingar sem hann setti fram við þjóðina á blaðamannafundi og í fjölmiðlum í gær.