Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 16:18:00 (872)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Það er enginn vafi á því að sá dráttur, sem nú hefur verið tilkynntur á því að ráðist verði í virkjanaframkvæmdir og álversbyggingu á Íslandi eru mikil vonbrigði og áfall, bæði fyrir þing og þjóð. Það er enginn vafi á því að almenningur í landinu, allur þorri fólks, hafði bundið töluverðar vonir við það að nú eftir fimm ára tíma samdráttar mættu menn búast við því að sú inngjöf í okkar efnahagslíf sem fylgdi nýju álveri og virkjanaframkvæmdum yrðu að veruleika. Ég tel að þeir þingmenn, sem hér hafa þegar talað af hálfu stjórnarandstöðunnar, átti sig á þessum vonbrigðum og þeir hafi alls ekki verið að hlakka yfir því, nema síður væri, að svona hafi farið. Þeim er eins og öllum öðrum ljós nauðsyn þess að framkvæmd af þessu tagi eigi sér stað á Íslandi. Hér eru að vísu fulltrúar Kvennalistans ekki meðtaldir. Ég er ekki að segja að sá flokkur hlakki sérstaklega yfir þeirri niðurstöðu sem nú er a.m.k. um hríð, en það er í samræmi við stefnu þessa lista að vera andvígur því að til stóriðju sé ráðist á Íslandi.
    Þegar þetta er haft í huga að menn eru flestir ef ekki allir sammála því að það er harmsefni að svona hafi farið, a.m.k. um hríð, er dálítið erfitt að átta sig á hvers vegna menn grípa til þess að vera með jafnmiklar árásir á iðnrh. eins og þeir hafa haft. Það gæti gengið upp í þessu samhengi ef sýna mætti fram á það að iðnrh. hafi sérstaklega sett fótinn fyrir þessar framkvæmdir eða hann hafi verið í forustu þeirra sem vildu koma í veg fyrir að af þessum framkvæmdum yrði og nú hefði honum loksins tekist að ná þeim árangri. Allir vita að hér er málum auðvitað þveröfugt farið, enginn maður hefur verið harðari baráttumaður fyrir því að þessar framkvæmdir mættu takast en iðnrh.
    Ég tel ekki að þeir ágætu talsmenn stjórnarandstöðunnar, sem hafa talað, hafi getað sýnt fram á að neitt í orðum, verkum eða gjörðum iðnrh. hafi leitt til þeirrar niðurstöðu sem nú hefur orðið. Þess vegna hafi ekki verið ástæða til þeirra árása sem á hann voru gerðar. Ég tel að þær yfirlýsingar sem vitnað hefur verið til og upplýsingar á tilteknum tíma um stöðu mála hafi ekkert haft með það að gera hvort af samningum yrði eða ekki.
    Hér hefur verið um það rætt, m.a. af hv. 7. þm. Reykn. hvort menn hafi um of trúað á þær spár sérfræðinga sem gefnar hafi verið. Ég get vitnað til um það úr þessum ræðustól að ég hef haft uppi efasemdir um slíkar spár og látið það koma fram bæði meðan ég sat í stjórn Landsvirkjunar og út á við og ég var aðallega að hugsa um í því sambandi að raforkusamningurinn byggði á tilteknu verði á áli og því var nauðsynlegra en ella að vita um eins og fært væri hvernig það væri líklegt til að þróast. Ég held hins vegar að gagnvart því að komast að niðurstöðu um það hvort líklegt væri að af samningum yrði eða ekki hafi þessar spár ekki verið mikið innlegg í málið. Ég held að þar hafi ráðið mestu að menn sáu hinn mikla áhuga sem hinir erlendu viðsemjendur sýndu á málinu. Sú mikla vinna sem þeir lögðu í málið og sá mikli kostnaður sem þeir lögðu í málið á hverjum tíma. Þessir aðilar höfðu trú á því, þeir sem áttu auðvitað líf sitt undir því líka reyndar eins og Landsvirkjun, að af samningum yrði með skikkanlegu móti, að mál mundu þróast þannig að þetta álver ætti rétt á sér núna. Ég hygg að þeir séu ekki í neinum vafa um að það eigi rétt á sér í framtíðinni, en þeir töldu að þetta álver ætti einmitt rétt á sér núna og þess vegna var unnið að málinu af einurð af þeirra hálfu að ég hygg.
    Auðvitað má spyrja þegar frestun af þessu tagi liggur fyrir hvort við af Íslands hálfu hefðum getað unnið að málinu öðruvísi og sjálfsagt má benda á einhver dæmi þess. En ég vil leyfa mér að fullyrða að það hefði engu breytt um þessa niðurstöðu. Það eru aðrir

þættir sem því ráða að þessi frestun hefur orðið.
    Fjölmiðlamenn hafa sumir verið að nefna að óeðlileg afskipti og jafnvel upphlaup, eins og það hefur verið kallað, í stjórn Landsvirkjunar hafi tafið fyrir þessu máli. Það er auðvitað fásinna því að það var stjórn Landsvirkjunar sem fyrst og fremst átti að fjalla um og véla um orkusamning. Ég tel að bæði ég og hv. þm. Páll Pétursson höfum unnið af fullum heilindum innan samninganefndar í þágu fyrirtækisins og reyndar þágu landsins alls. Landsvirkjun var með þessum samningi, það var enginn vafi, ætíð að taka nokkra áhættu. En á hinn bóginn vildu menn innan stjórnar Landsvirkjunar jafnframt líta til þess að hagsmunir þjóðarbúsins sem heildar væru gríðarlegir að þessir samningar mættu takast og þess vegna væri verjandi að Landsvirkjun tæki töluverða áhættu í málinu. En auðvitað var nauðsynlegt að samningamenn Landsvirkjunar reyndu að setja undir sem allra flesta leka og tryggja sem öruggastan samning. Ég tel reyndar að meðan við hv. þm. Páll Pétursson vorum í þessari samninganefnd saman hafi gengið mjög langt til þess að gera þennan samning þannig úr garði að hann væri kominn í aðgengilegt horf.
    Ég átti á þeim tíma þegar ég var í samninganefnd Landsvirkjunar mjög ánægjulegt samstarf við þáv. og núv. iðnrh. og reyndar átti ég margt ágætt spjallið og umræður við þáv. hæstv. forsrh. Ég tel sem sagt að það sé misskilningur hjá mönnum sem halda að eitthvað í vinnu okkar Íslendinga, iðnrn. undir forustu iðnrh. eða annarra aðila, hafi leitt til þeirrar niðurstöðu sem nú er orðin. Það er ekki. Ég tel að menn hafi unnið af miklum heilindum alls staðar að þessu máli. Menn segja nú og eru vitrir eftir á, sumir hverjir sem hingað koma í pontuna, að þeir hafi þegar séð þetta fyrir og það fyrir langalöngu að svona mundi fara. Ég minnist þess reyndar þegar stjórnarmyndun var að hefjast fyrir sex mánuðum, að Kvennalistinn lýsti því yfir í sjónvarpi að hann væri reiðubúinn til þess að kingja álveri því að þjóðin hefði valið álver og væri reiðubúinn að taka þátt í því að byggja það upp sem nú er kallað úr þessum ræðustól reginmistök og röng atvinnustefna sem komið hefði þjóðinni á kaldan klakann. Kvennalistinn lýsti því sem sagt yfir í vor að hann væri reiðubúinn til þess að taka þátt í því að koma þjóðinni á kaldan klakann ef það mætti verða til þess að þær fengju að sitja í ráðherrastólum um skamma hríð og taka þátt í því absúrd-leikriti sem leikið væri. Og ég minnist þess að hæstv. fyrrv. forsrh. lýsti því þá yfir að þetta væri mjög mikilvæg yfirlýsing um álmálið sem var svo sannarlega ekki dautt í hans huga þá fyrir um sex mánuðum. Ég hygg nú að þessir menn, sem hér koma svo vitrir eftir á og þykjast hafa séð þetta allt saman fyrir séu nú örlítið vitrari um fortíðina núna heldur en þeir voru á því augnabliki.
    Þessir sömu menn segja nú: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í atvinnumálum staða á Suðurnesjum þar sem atvinnuástandið er erfitt? Auðvitað eru þeir að spyrja sjálfa sig um leið: Hvað gerðum við fyrir einu og hálfu ári síðan þegar við vissum að það kæmi ekkert álver? Og þeir hafa svarað því sjálfir að þeir hafi ekkert gert annað en það að bíða eftir því álveri sem þeir vissu að aldrei kæmi.
    Hæstv. iðnrh. hefur lýst því töluvert nákvæmlega hverju öðru menn hafa unnið að hvað þessi svæði snertir. En auðvitað skulu menn gera sér grein fyrir því að álver var ekki síst mikilvægt vegna þess að það var besti kosturinn til þess að ýta undir gott atvinnuástand á þessu svæði.
    Hv. 8. þm. Reykn. sagði að nú væri meginforsenda fjárlaganna hrunin. Auðvitað er það rangt hjá honum að álverið sé meginforsenda fjárlaga og hann veit það auðvitað sjálfur. Ríkisstjórnin er sökuð um að hafa af glámskyggni, eins og það var orðað, ekki tekið tillit til þess að álver kynni að koma ekki. En hér segir, með leyfi forseta, á fyrstu síðu þeirrar þjóðhagsáætlunar sem gagnrýnd er:
    ,,Þótt nú sé talið líklegt að áform Atlantsáls um byggingu álvers rætist er nauðsynlegt að minna á að engar endanlegar ákvarðanir hafa enn verið teknar í þeim efnum. Stefnt er hins vegar að því að ákvörðun um byggingu álvers liggi fyrir á fyrstu mánuðum næsta árs. Þjóðhagsáætlunin byggir á þeirri forsendu að þetta gangi eftir og hefur það áhrif á þjóðarbúskapinn þegar á næsta ári, einkum virkjunarframkvæmdir í tengslum við álverið. Í þessu felst að sjálfsögðu að verði fallið frá áformum um Atlantsál eða þeim frestað breytast efnahagshorfurnar til hins verra.``
    Þetta er allt tekið fram á fyrstu síðu þjóðhagsáætlunar og því fer fjarri að menn hafi

verið glámskyggnir eða gefið sér einhvern veruleika í þessum efnum. Annan hvorn þáttinn varð að taka inn og ég segi fyrir mig, ég taldi miklu líklegra á þessu augnabliki að sá þáttur yrði ofan á að álver kæmi hér heldur en það kæmi ekki. Ég var ekki svona vitur eftir á eins og sumir aðrir sem hér hafa áður talað.
    Menn hafa spurt um fjölmarga þætti og hæstv. iðnrh. hefur svarað þeim flestum. Ég tel að það sé verið að slá ryki í augun á fólki þegar því er haldið á lofti og látið að því liggja að það hafi verið fær leið af hálfu iðnrh. eða samningamanna að standa í tvöföldum viðræðum, vera með tvær álgrúppur í takinu ef önnur skyldi hrökkva upp af. Auðvitað vita allir menn að þetta gengur ekki upp. Álsamningar eru mjög flókið fyrirbæri og auðvitað verður aldrei trúnaður í samningum manna á milli nema að þeim sé unnið af heilindum af báðum aðilum. En á hinn bóginn er það enginn vafi í mínum huga að á þessu augnabliki eru Íslendingar ekki bundnir af neinum samningi við þennan erlenda viðsemjanda þó við teljum enn þá líklegt að að því komi í fyllingu tímans að álver af þeirra hálfu rísi. Þessir aðilar hafa lýst því margoft yfir að það sé ekki vænlegri kostur um byggingu álvers í heiminum en hér af mörgum ástæðum og langflestir aðilar telja að þó að mismunandi langar séu spár þeirra, að álverð muni hækka, forsendur hljóta að leiða til þess að álverð muni hækka.
    Menn tala um það að friðarhorfur í heiminum geri það að verkum að menn muni þurfa minna ál í framleiðslu vegna þess að það sé svo mikilvægt í hernaðartólum og tækjum. Þeir sem þekkja til segja að þetta sé misskilningur. Ál er miklu frekar neysluvarningur en hernaðarvarningur og menn benda á að um leið og dregur úr fjárframlögum til hermála aukast þeir fjármunir sem almenningur í hverju ríki hefur yfir að ráða og neysla mun aukast. Þannig eru allar líkur til þess þvert á móti sem betur fer að friðvænlegt ástand í heiminum sé jákvætt líka að þessu leyti til eins og að öllu öðru leyti.
    Hv. 7. þm. Reykn. vitnaði sérstaklega um þau miklu átök sem urðu af hans völdum í forsrn., vitnaði til bjartsýnisnefndarinnar sérstaklega og það er ágætt plagg sem þar er. En það er þó ekki annað en almenn hugleiðing á léttum og góðum nótum um það sem kynni að gerast í framtíðinni. Það er ekki handfastara en það og er sjálfsagt að senda það og birta öllum þingmönnum. Það eru góðar og gildar hugmyndir ágætra manna.
    Nefnd um Keflavíkurflugvöll ætlaði seint að skila áliti. Það varð að toga það með töngum og það var gert. Það tók vikur og mánuði að ná því áliti eða þeirri greinargerð sem tiltekinn starfsmaður þeirrar nefndar samdi. Og ég verð að segja, því miður, að mér finnst útkoman úr því áliti ekki vera þess eðlis að þar séu út af fyrir sig veruleg merki að sjá um uppbyggingu atvinnu á þessu svæði.
    Á því er enginn vafi að enginn hér, við þau tíðindi sem orðið hafa, dregur upp atvinnutækifæri á borð við álver upp úr hatti sínum á þessu augnabliki. Það er heldur enginn vafi á því að það er nauðsynlegt fyrir okkur öll sem viljum hag landsins og þessa svæðis auðvitað líka sem bestan að taka mál til endurskoðunar og sjá hvað gera megi á því tímabili sem fram undan er án þess þó að í því felist að menn séu að gera áform um álver að einhverjum hlut sem ekki komi.
    Ég vil ljúka máli mínu, virðulegi forseti, með því að segja að mér finnst árásir fyrrv. samstarfsmanna iðnrh. á hann hér vera mjög ómaklegar og ódrengilegar vegna þess að það er ekki hægt að finna stað fyrir því neins staðar að neitt í hans orðum, gerðum eða verkum hafi leitt til þeirrar niðurstöðu sem hér hefur orðið. Þingheimur og þjóðin þekkir að enginn hefur unnið að þessu máli af meiri sannfæringu, krafti og alúð heldur en einmitt hæstv. iðnrh. Og auðvitað er þessi töf áfall fyrir hann eins og okkur öll hin, en það áfall gefur ekki tilefni til þess að hann sitji undir árásum hér í þingsalnum.