Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 16:36:00 (874)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er þrennt í ræðu hæstv. forsrh. sem er óhjákvæmilegt að gera athugasemd við. Í fyrsta lagi sagði hæstv. forsrh. að ég og hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefðum ekkert aðhafst í atvinnumálum þegar ljóst var að ekkert yrði úr virkjanaframkvæmdum í sumar vegna frestunar á álveri. Þetta er rangt. Ég lagði fyrir síðasta þing tillögur um lánsfjárlög þar sem kom fram í fyrsta lagi að heimilað var að fella niður gjöld vegna flugskýlisbyggingar Flugleiða á Keflavíkurflugvelli þannig að sú stóra framkvæmd, sem veita mun 200 manns atvinnu á Suðurnesjum, gæti farið í gang. Í öðru lagi lagði ég fram tillögur um að framkvæmdir hæfust við breikkun Reykjanesbrautar sem að nokkru leyti hefur verið unnið við í sumar og í þriðja lagi var gerður samningur um að flýta viðbótarbyggingu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja svo að ég nefni bara þrennt sem ákveðið var upp úr áramótum að fara í í sumar til að greiða fyrir atvinnumálum á Suðurnesjum. Þar var tekið skýrt á verkunum eins og þessi þrjú dæmi sanna.
    Í öðru lagi er auðvitað óhjákvæmilegt að forsrh. átti sig á því að nú vantar tekjumegin í fjárlagafrv. 1--1,5 milljarða en ekki 500 millj. eins og hann sagði í sjónvarpinu í gær, vegna þess að samkvæmt upplýsingum tekjudeildar fjmrn. mun sú staðreynd, að ekki verður farið í álver á næsta ári, þýða rúmlega 1--1,5 milljarða minni tekjur fyrir ríkissjóð.
    Í þriðja lagi er það rangt hjá hæstv. forsrh. að við höfum verið fremstir hér, ég og hv. þm. Steingrímur Hermannsson, í því að ráðast á iðnrh. Í þeim efnum kemst enginn með tærnar þar sem núv. hæstv. forsrh. hefur hælana vegna þess að harðasti dómurinn um vinnubrögð núv. hæstv. iðnrh. féll í apríl sl. í viðtali við Morgunblaðið og dómarinn var formaður Sjálfstfl., núv. hæstv. forsrh., sem sagði, með leyfi forseta: ,,Menn eru nú búnir að átta sig á því að allar þær tímasetningar, sem ráðherrann var búinn að boða undanfarið rúmt ár, stóðust ekki. Það var engu sérstöku um að kenna öðru en því að þær voru ekki raunhæfar. Ráðherrann tafði sjálfur málið í tvígang með undirskriftum sem erlendir viðsemjendur botnuðu ekkert í.`` Botnuðu ekkert í, sagði Davíð Oddsson. ,,Það sýnir nú hvaða mat þeir höfðu á þessum vinnubrögðum að þeir sendu hingað aðstoðarvaraforstjóra til að undirrita þau minnisblöð. En hvorki varaforstjórann né aðalforstjórann.`` Þetta var nú dómur núv. hæstv. forsrh. um vinnubrögð iðnrh. í málinu.