Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 16:39:00 (875)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég býst við að ræðumaðurinn, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, hafi

misskilið mig. Ég var að fjalla um þá niðurstöðu, sem nú hefur orðið, að frestað var þeim framkvæmdum sem menn áttu von á. Og menn notuðu það tækifæri sérstaklega til að ráðast að iðnrh. rétt eins og eitthvað í hans orðum, gerðum eða verkum hefði leitt til þeirrar niðurstöðu að nú hefði málinu verið frestað. Það er alveg rétt, það þekkja allir menn að ég og iðnrh. deildum á síðasta ári um tímasetningar, hvort þær væru raunhæfar eða ekki. Það kannast ég við. Það er fjarri mér að halda að eitthvað af því sem ég sagði þá um þær tímasetningar eða eitthvað sem iðnrh. sagði á þeim tíma hafi leitt til þeirrar niðurstöðu sem nú hefur orðið. En menn nota þetta tækifæri nú þegar þjóðin hefur orðið fyrir miklum vonbrigðum með það að málið frestast að gera harða hríð og atlögu að iðnrh. Ég var að mótmæla því.