Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 17:17:00 (879)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Sú alvarlega staða sem komin er upp í atvinnumálum þjóðarinnar er að miklum hluta verk núverandi og fyrrverandi stjórnvalda. Tvennt veldur því einkum að nú horfir illa við atvinnugreinum: Svartar horfur í sjávarútvegi vegna minnkandi afla, ástand sem ég ætla ekki að skrifa á kostnað stjórnvalda, og svo, og ekki síður, sú óraunhæfa atvinnustefna sem rekin hefur verið, þar sem stóriðjudraumar hafa leitt menn á alvarlegar villigötur. Þar bera stjórnvöld fulla ábyrgð.
    Það er lán í óláni að erlendir aðilar eru enn ekki reiðubúnir að kaupa Ísland undir stóriðju jafnvel þótt mengunarvarnir og orkuverð hafi verið sett á útsölu.
    Við eigum tveggja kost völ nú þegar álveri hefur verið frestað --- og vonandi fyrir fullt og allt --- að snúa okkur að raunhæfri atvinnuuppbyggingu á Íslandi eða að halda áfram stöðnunarstefnu stóriðjunnar. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að menn séu reiðubúnir að fara hina síðari leið og geyma íslenska atvinnuþróun eins og G-mjólk uppi í hillu. Tíminn er löngu útrunninn, mjólkin farin að fúlna, síðasti söludagur liðinn hjá. Við höfum þegar tapað miklu á því að leiðast afvega. Við höfum tapað dýrmætum tíma og umtalsverðu fé. Stjórnvöld hafa verið andvaralaus og vísað öllu á álver eða tálver.
    Á meðan atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum hefur sífellt orðið alvarlegra hefur ekkert verið að gert og nú er atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum orðið 8%. Yfir landið allt

er um 7% atvinnuleysi í fiskiðnaði samkvæmt frétt frá Þjóðhagsstofnun. Ekki gagnar það konunum á Suðurnesjum að Jón Sigurðsson heldur að einhvern tíma verði hægt að fá álver í Flekkuvík.
    Álver er ekki og hefur aldrei verið lausn á atvinnuvanda kvenna og það eru þær sem búa við alvarlegasta atvinnuleysið á Suðurnesjum. Þessi vandi er ekki nýr en hann er alvarlegri nú en um margra ára bil vegna vondrar atvinnustefnu.
    Því miður hafa Suðurnesin ævinlega verið afgreidd snubbótt í atvinnumálum og ekki tekist á við þann vanda sem blasir við í raun. Ég held að ummæli Borgars Jónssonar, formanns Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, í Þjóðviljanum í morgun séu allgóð samantekt á hug manna þar sem hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Þessar fréttir setja auðvitað strik í reikninginn varðandi atvinnuuppbyggingu hér á Suðurnesjum. Menn hafa horft á þetta alllengi. Það dugar ekki fyrir ráðamenn þjóðarinnar að skella framan í okkur, þegar talið berst að atvinnumálum, að við höfum herinn eða fáum nýtt álver.``
    Það er greinilegt að á Suðurnesjum hafa menn gert sér grein fyrir að álver mundi ekki leysa allan þeirra atvinnuvanda því að allmargir viðmælendur blaðsins nefna aðra atvinnumöguleika sem vænlega og virðast reiðubúnari en stjórnvöld að laga sig að breyttum aðstæðum og betri. Þess vegna ríður nú á að fleiri horfist í augu við raunveruleikann og gleymi þeirri tálsýn sem álverið er.
    Við eigum að nýta lagið nú og sækja í stað þess að staðna. Við eigum að vernda fiskvinnsluna í landinu með því að vigta allan afla á Íslandi og gefa þar með íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum betri möguleika á að bjóða í fiskinn. Við megum ekki missa sjónar á atvinnugreinum eins og ylrækt sem þó er í hættu vegna samninga um Evrópskt efnahagssvæði. Við verðum að vera opin fyrir nýsköpun, svo sem vetnisframleiðslu og við verðum að hlúa að mannfrekustu atvinnugreinunum, þjónustugreinum eins og t.d. ferðaþjónustu. Hvar er bjartsýnin á uppbyggingu heilsuhótels við Bláa lónið? Af hverju fær vaxandi ferðaþjónusta ekki sömu fyrirgreiðslu stjórnvalda og ótrygg stóriðja?
    Það gladdi mig sannarlega að heyra hæstv. iðnrh., eitt andartak a.m.k., taka undir að fleira þyrfti að byggja upp en álver á Suðurnesjum. Kveður nú við nýjan tón og jákvæðari og vonandi að við heyrum fleiri orð í sama dúr.
    Álversstefnan var aldrei góð atvinnustefna. Við hefðum spillt fyrir annarri og vænlegri atvinnuuppbyggingu með því að byggja álver. Við getum ekki bæði byggt stóriðjuver og markaðssett landið okkar sem land hinnar hreinu og óspilltu náttúru. Við eigum að leggja rækt við þá ímynd landsins að þetta sé landið sem sér íbúum mengaðra svæða fyrir hreinni og heilnæmri matvöru og tekur á móti ferðamönnum sem flýja iðjuver iðnríkjanna. Við verðum að velja og við ættum að skilja að straumurinn er í átt að umhverfisvernd. Þungaiðnaður og stóriðja eru atvinnustefna gærdagsins.
    Við kvennalistakonur höfum löngum gagnrýnt það hvernig hagvöxtur er reiknaður út. Enn er það svo að það er talið auka hagvöxt að eyða náttúruauðlindum og menga umhverfið ef umsvifin eru nóg. Við okkur blasa í stóriðjustefnunni sömu áherslur og eiga að heita framfarir á Íslandi, að ganga á auðlindir og menga umhverfi í stað þess að leggja áherslu á menntun, tækniþekkingu og vel þróaðar þjónustugreinar. Vitanlega eru flestar aðrar þjóðir sem við miðum við löngu búnar að leggja nýjar áherslur þar sem atvinnustefna byggist á sérhæfðri þjónustu og fjölbreyttri framleiðslu þar sem mannvit er meira virði en dýrkeypt hráefni. En jafnvel þótt við sættum okkur við úreltar skilgreiningar á hagvexti er ekki sýnt að álið mundi færa okkur björg í bú.
    Ég minni á að jafnvel bjartsýnustu spár um orkuverð hafa verið á þá leið að við mundum verða að borga með orkunni okkar fyrstu árin og mjótt er á mununum hvort eftir fyrstu árin væri hægt að tala um tap eða gróða --- og nú er ég að tala um óraunhæfar bjartsýnisspár, ekki raunsæjar spár. Ég vil til að stytta mál mitt vísa í þær upplýsingar sem fram komu í máli hv. þm. Páls Péturssonar þar sem mjög greinilega var lýst gangi mála í sambandi við orkusölu og hef ég engu við það að bæta.
    Ég held að mönnum skiljist sífellt betur að þróun getur orðið á annan veg en að allt fari að óskum hæstv. iðnrh. og ætti lexía um þróun álvers á þessu ári að verða mönnum víti til varnaðar, því að hver sá hana fyrir? Jú, þeir sem vildu, ekki þeir sem voru

blindir.
    Síðan þeir útreikningar lágu fyrir sem flestar spár byggja á hefur verð lækkað jafnvel enn meir og það er ljóst að Sovétmenn, fyrir og eftir ýmsar byltingar, munu halda áfram að bjóða ál á heimsmarkaði. Hve lengi getur enginn með réttu fullyrt. En þörf þeirra fyrir gjaldeyri er mikil og framleiðslugeta meiri en þeir nú nýta. Ég minni einnig á að samdráttur í hergagnaframleiðslu minnkar eftirspurn eftir áli og sá orðrómur, þó ekki yrði meira, um að ál gæti átt þátt í að Alzheimers-sjúkdómurinn vakni eða magnist, jafnvel sá orðrómur getur hæglega orðið til þess að eftirspurn eftir drykkjarílátum úr áli minnki eða hverfi. Það er vel þekkt í viðskiptum að grunsemdir einar og sér valda miklu. Svo sem kunnugt er eru umbúðir verulegur hluti af áliðnaði heimsins.
    Við erum að glíma við undarlegar forsendur, hagvöxt sem orkar tvímælis, orkuverð sem skilar okkur alls engum arði og markað sem er ótryggur. Þurfum við fleiri sveiflur í efnahagslífinu en þær sem við búum við nú þegar af því að við byggjum á einni auðlind í stað margra? Eru tvær sveiflukenndar auðlindir betri en ein? Hvað ef niðursveiflan er í báðum greinum samtímis? Ég hef raunar spurt hæstv. iðnrh. þessara spurninga áður og ekki fengið svör. En í viðbót við þetta má bæta meðlagi með álverinu, meðlagi sem hefði verið einum of dýru verði keypt ef farið hefði verið út í framkvæmdir. Við þurfum ekki að rifja upp þá sögu hvernig átti að færa Atlantsálsmönnum eitt stykki höfn upp á einhver hundruð milljóna á silfurfati. Enn alvarlegri er þó sá afsláttur á mengunarvörnum sem til stóð að veita.
    Mér er í fersku minni fundur sem ég sótti í Vogunum þann 4. sept. sl., alls ekkert of velkomin að vísu, undarlegt nokk, þar sem ég hlustaði á kynningu á starfsleyfi vegna álvers. Þessi kynningarfundur var víst ekki ætlaður mér heldur aðeins íbúum svæðisins, en seta mín á fundinum var þó látin óátalin. Af þessum fundi mætti margt segja en ég ætla að takmarka mig við tvennt varðandi starfsleyfið sem stakk mig sérstaklega, og ég tek undir hve miklu lakari kröfur við gerum en Norðmenn.
    Í fyrsta lagi kom fram á þessum fundi að það var sama hvernig spurt var, álver á Keilisnesi mun ekki verða búið besta mengunarvarnabúnaði og það varð að viðurkennast. Vothreinsibúnaður verður ekki notaður. Þess í stað á að nota hreinni skaut í þurrhreinsibúnaði, þ.e. með lágu brennisteinsinnihaldi, en --- og ég bið menn að taka eftir --- því aðeins að þau fáist á einhverju sem kallað er samkeppnisfært verð. Það er brotalöm sem margir sáu ástæðu til að vekja athygli á en fengu engin viðhlítandi svör við. Og er einn íbúa Vatnsleysustrandarhrepps spurði hvers vegna ekki væru notuð hreinustu skaut og vothreinsibúnaður sem er besti kostur, þá var svarið: Það er ekki hægt, það er of dýrt. Þetta er afsláttur á mengunarvörnum.
    Öllu augljósari var þó vandinn vegna kerbrota sem á að koma fyrir í flæðigryfjum og vona að valdi ekki mengun. Lausn á þeim vanda var greinilega ekki til og eru reyndar dæmin að sanna það að þessi mál hafa einnig verið í mesta ólestri í Straumsvík. Lausn á þeim vanda var greinilega sú að sagt var: Þetta verður ekki vandamál fyrr en eftir svona 5--10 ár og í millitíðinni verður vonandi búið að finna lausn. Ég endurtek: Er þetta það sem við eigum að reiða okkur á í mengunarvörnum? Hvílíkar mengunarvarnir, og er þá aðeins getið um fátt eitt. Ég er hrædd um að þessi býti hefðu orðið okkur of dýr.
    En vissulega er hægt að taka undir áhyggjur fólks vegna atvinnuástandsins sem skapast nú þegar draumsýnin um álver gefur mönnum ekki lengur von um vinnu einhvers staðar í framtíðinni handa öllum og einhverja einfalda allsherjarlausn, sem auðvitað var aldrei til, stóriðju.
    Ég held að nú sé rétti tíminn að reyna að gera eitthvað vitrænt í atvinnumálum í stað þess að elta uppétna og skemmda gulrót. Það er alllangt síðan farið var af stað með ranga atvinnustefnu. Skaðinn sem orðinn er verður ekki bættur. Hins vegar er ég sannfærð um að dýrara hefði verið fyrir atvinnulífið og þjóðarbúið í heild að halda áfram með álvershugmyndir en að hætta við. Auðvitað er áfallið mikið þótt ýmsir segi að þetta hafi blasað við lengi. Of lengi hefur verið byggt á óraunsæjum vonum um álver sem öllu átti að bjarga. Því er mál til komið að byggja upp í stað þess að brjóta niður. Við skuldum okkur sjálfum að snúa okkur í alvöru að atvinnumálum þjóðarinnar með nýjar og ferskar lausnir og með því að hlúa að auðlindum okkar með því að færa okkur góða menntun

þjóðarinnar í nyt og með því að fullnýta endurnýjanlegar auðlindir í stað þess að fara út í dýra frumvinnslu.
    Konurnar á Suðurnesjum vilja úrlausn strax. Þær hafa beðið nóg lengi. Ég held að við verðum öll að veita þeim úrlausn og það fyrr en seinna.