Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 17:56:00 (882)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Til viðbótar við þá lausn sem hv. 17. þm. Reykv. kom helsta með, þ.e. skipti á álveri og hausum og lifur, þá nefndi hann það sem þungamiðju í sinni röksemdafærslu að það hefðu gerst þeir hlutir í alþjóðlegu umhverfi efnahagslífs og fjármagnsmarkaða sem væru orsök þess að nú væri svo komið að menn frestuðu byggingu álvers. Ég vil minna hv. 17. þm. Reykv. á það að í allri umræðu um þetta mál hefur því ætíð verið haldið fram að menn horfðu til framtíðar og sveiflur í núinu, bæði á álverði og í efnahagslífinu, kæmu framgangi málsins ekkert við. Á þessu hefur verið hamrað við okkur allan tímann meðan málið hefur verið í gangi.