Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 17:59:00 (885)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nota þetta tækifæri til að leiðrétta misskilning sem hefur komið fram nokkrum sinnum í umræðunum. Það er leiðrétting sem ég fékk frá núv. hæstv. forsrh. á sínum tíma að hinn margumræddi doktor King er ekki doktor gagnstætt því sem við höfum haldið margir árum saman heldur bara venjulegur mister King. Þetta upplýsti núv. hæstv. forsrh. mig um á sínum tíma. ( Forseti: Halda sig við andsvarið.) Það var óhjákvæmilegt að ég gerði þetta vegna þess að enn á ný var farið að kalla þennan mann, sem hefur reynst hafa svona rangt fyrir sér, doktor og okkur doktorunum í salnum, a.m.k. þeim sem hér stendur og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, er annt um það hvernig þessi titill er notaður.
    Ég vil hins vegar víkja að því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að í 20 ár hefði verið reynt að fá hingað verksmiðjur. Það er rétt hjá þingmanninum að því leyti til að margir iðnrh. hafa glímt við það að fá hingað erlenda fjárfestingu og einnig sá iðnrh. sem hv. þm. Björn Bjarnason var að hnýta hér í áðan. Hann glímdi mikið við það og lagði grundvöll m.a. að ákveðinni verksmiðju á Austurlandi.
    Hv. fyrrv. þm. Sverrir Hermannsson átti í viðræðum við Kína. Albert Guðmundsson fyrrv. iðnrh. átti líka í viðræðum. Friðrik Sophusson fyrrv. iðnrh. átti líka í viðræðum. Það væri auðvitað fróðlegt að fá að vita hvaða ályktun hv. þm. Össur Skarphéðinsson dregur af því að engar þær tilraunir hafa tekist. Núv. iðnrh. hefur mistekist. Friðriki Sophussyni mistókst. Sverri Hermannssyni mistókst. Albert Guðmundssyni mistókst. Hjörleifi Guttormssyni mistókst. Er kannski skýringin sú að menn hafa verið að elta rangan hest? Gefa sér vitlausar forsendur í atvinnuuppbyggingunni? Ég held það hljóti að vera áleitin spurning þegar við stöndum núna frammi fyrir því að núv. hæstv. iðnrh. bætist í þennan hóp.