Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 18:01:00 (886)

     Össur Skarpéðinsson (andsvar) :
     Hv. þm. Steingrímur Hermannsson orðaði það svo í sjónvarpinu í gær þegar hann var að greina frá þessum upplýsingum að þær hefðu gefið erlendur kunningi hans. Ég þakka honum að hafa upplýst að þessi erlendi kunningi hefur býsna gott vit á álmálum.
    Varðandi dr. King kom hér fram, sem hefði átt að koma fram miklu fyrr, að maðurinn er ekki doktor. Það skýrir kannski þetta allt saman.
    Varðandi það sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði um atvinnuuppbyggingu og hvort hér hefði e.t.v. verið veðjað á rangan hest, þá verð ég að svara því þannig að ég lít ekki svo á að við séum að veðja á einhvern einn einstakan hest. Við erum kannski að veðja á heila hjörð. Við erum eins og ágætur leiðtogi, sem nú er að vísu fallinn af stalli

sögunnar, orðaði það, að reyna að verða okkur úti um kött og það skiptir ekki máli hvernig hann er á litinn bara ef hann veiðir mýs. Ég vil marga ketti. Ég er alveg eindreginn talsmaður stóriðju á Íslandi að því gefnu að umhverfisforsendur og raforkuverð séu í lagi. En ég vil líka að við reynum eftir föngum að efla aðra uppbyggingu í atvinnu alveg eins og menn eru að gera í dag. Alveg eins og t.d. þingflokkur Alþb. er að leggja til tiltekið mál, þ.e. sölu á raforku um streng, til áherslu á áhuga sínum á því þó auðvitað viti þingflokkur Alþb. að þetta mál er í mikilli vinnslu í iðnrn. undir farsælli forustu núv. iðnrh.