Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 20:59:00 (892)

     Sturla Böðvarsson :
     Virðulegi forseti. Frestun framkvæmda við álver á Keilisnesi, sem nú er staðreynd, er mikið áfall fyrir þjóðarbúið. Það er á vissan hátt áfall í samskiptum okkar og viðsemjenda um nýtingu fallvatna sem svo mjög hefur verið horfið til sem mikilvægrar undirstöðu fyrir atvinnuuppbyggingu og til að efla hag þjóðarinnar.

    Nú þegar frestun er staðreynd þarf að nema staðar og huga rækilega að næstu sporum í þessu mikilvæga máli sem varðar alla þjóðina svo miklu. Við þurfum að stokka spilin að nýju. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar hér á hinu háa Alþingi, sem og í fjölmiðlum, hafa vissulega vakið nokkra athygli. Kvennalistinn fagnar þessari niðurstöðu og telur stóriðju sem fyrr allt til foráttu. Sú afstaða til álvers hefur legið fyrir og er því ekki ný. Alþb. og Framsfl. hafa notað stöðuna til þess að ráðast á iðnrh. og vekur málflutningur hv. þm. Steingríms Hermannssonar einkum athygli vegna þess að þar talar fyrrum forsrh. sem bar ábyrgð á samningaviðræðum við álfyrirtækin í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það er ekki sannfærandi málflutningur hjá stjórnarandstöðunni þegar hv. þingmenn og fyrrum ráðherrar reyna að hlaupa frá ábyrgð og láta að því liggja að þeir hafi séð fyrir þá niðurstöðu sem nú hefur orðið.
    Við þær aðstæður sem frestun á byggingu álvers hefur nú skapað verðum við að horfa fram á við en ekki lifa stöðugt í því sem liðið er. Leita verður leiða til þess að bæta þjóðarhag svo sem mest má verða og efla atvinnulífið og tryggja og treysta framfarir í landinu á öðrum grunni en þeim sem álverið átti að skapa. Engu að síður verðum við að halda áfram undirbúningi og freista þess að halda áfram viðræðum um byggingu og rekstur stóriðjufyrirtækja. Þegar fyrir liggur að framkvæmdum við álverið verður frestað verður þegar að bregðast við. Viðbrögðin verða annars vegar að byggjast á því að auka tekjur af öðrum atvinnukostum og með öðrum hætti og hins vegar að draga úr ríkisútgjöldum eða endurskipuleggja fjárfestingu í landinu til þess að mæta samdrætti og hættu á atvinnuleysi. Ekki koma þar margir kostir til greina sem grípa má til, en sjávarútvegurinn hlýtur að vera sú grein sem áfram verður að treysta mjög mikið og reyndar mest á.
    Varðandi sjávarútveginn verður að skoða það rækilega og fara yfir allar hliðar þess að hefja hvalveiðar með fullum afköstum að nýju strax á næsta ári, svo og hrefnuveiðar. Nýta verður alla þá fiskstofna sem mögulegt er og auka til muna allar rannsóknir á fiskstofnum. Leggja þarf mat á það hvort takmarka eigi verulega útflutning á óunnum fiski til þess að freista þess að auka sem mest vinnslu í landi og auka vinnsluvirði þess afla sem hér er veiddur við strendur landsins.
    Auðvitað þarf að leita allra leiða til að efla aðrar atvinnugreinar en auk þess þarf að fara inn á nýjar brautir, svo sem þá að kanna sölu á raforku til nágrannalanda um sæstreng, svo sem bent hefur verið á við þessa umræðu. Við megum hins vegar hvergi láta deigan síga í viðleitni okkar við að mæta því tekjutapi sem verður frá því sem ætlað var að fengist í auknum tekjum með byggingu og rekstri álversins.
    Í þjóðhagsáætlun segir að landsframleiðsla árið 1992 verði um 1% minni en ella ef fallið er frá áformum um byggingu álversins. Það verður því að endurmeta fjárlagafrv. sem liggur fyrir þinginu, en það þarf einnig að skoða þá möguleika að hefja framkvæmdir sem geta leitt til sparnaðar eða hagræðingar í atvinnulífinu eða í opinberum rekstri og þar með í raun aukið þjóðartekjur þegar til lengri tíma er litið, auk þess sem líta verður til þeirra verkefna sem stuðla að atvinnuöryggi í landinu. Í því sambandi má vissulega nefna vegaframkvæmdir og hafnagerð sem án nokkurs vafa eru þær opinberar framkvæmdir sem eru verulega arðsamar og munu styrkja byggðina og styrkja atvinnuuppbyggingu í landinu til lengri tíma litið. Allt þetta þarf að skoða og meta í nýju ljósi þeirrar staðreyndar að álver verður ekki byggt í bráð.