Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 22:24:00 (900)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér finnst hreint ótrúlegt að þurfa enn einu sinni að útskýra fyrir hæstv. þingheimi og nú raunar hæstv. forsrh. að okkur kvennalistakonum finnst engin ástæða til að gleðjast yfir ástandinu í atvinnumálum. Hins vegar finnst okkur ástæða til að gleðjast yfir því ef ekki verður gengið lengra út á þá óheillabraut sem stóriðjan hefur nú

þegar leitt okkur og við teljum að muni verða óheillabraut.
    Varðandi það að stóriðja muni ekki spilla ímynd okkar þá er ég ekki ein um þá skoðun að ímynd landsins sem land hreinleika sé í hættu. Ég hef í þingræðu áður vitnað til ummæla íslensks útflytjanda sem framleiðir gæðavöru, mat, og hefur miklar áhyggjur af þessari atvinnustefnu og þessum röngu áherslum. Ég hef sömu sögu að segja frá fólki úr ferðaþjónustu og það er full ástæða til að hlusta á það fólk sem þar starfar.