Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 23:42:00 (911)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég mun ekki fara fram yfir þann tíma sem mér er ætlaður þó satt að segja væri mjög rík ástæða til. Aðeins örfá atriði vil ég nefna.
    Hæstv. iðnrh. taldi rétt að gera samninga með fyrirvara, en ég spurði að því hvort ekki þyrfti að gera ýmsar breytingar á samningunum, t.d. í sambandi við afsláttartíma. Því var hins vegar engu svarað. ( Viðskrh.: Því var svarað.) Ja, hæstv. forsrh. kom inn á það. (Gripið fram í.) Nú, var komið inn á það? Þá hef ég ekki tekið eftir því. Ég vona þá að áhersla verði lögð á slíkt því að það er nauðsynlegt. En yrðum við bundnir þar til framkvæmdir hefjast? Ég tel vera mjög vafasamt að binda okkur við þessa aðila í raun nokkuð umfram það sem orðið er.
    Hæstv. iðnrh. minntist á umhverfismálin og ég sagði í ræðu minni að ég hef ekki heimild til að upplýsa það sem ég veit, en ég vil spyrja hæstv. iðnrh. Hann taldi þau mál fullnægjandi eins og nú er orðið. Er það ekki rétt að enn þá sé inni þriðja skilyrðið fyrir því að herða megi kröfur í umhverfismálum og það tengt með þessu fræga ,,og`` við önnur skilyrði? Mig grunar að þessu hafi eitthvað verið breytt, en er það ekki enn þá inni og er það þá þannig að það er ekki tengt aðstæðum hér heima? Ég tel afar nauðsynlegt að fá þetta upplýst.
    Ég vil síðan andmæla því að Framsfl. hafi verið í andstöðu við byggingu álvers. Hann var því hlynntur, og allan tímann, en svo sannarlega ollu gylliboð hæstv. iðnrh. um álver hingað og þangað um landið okkur í flokknum mjög miklum vandræðum. Og ég vil mótmæla því að ég hafi farið með óvandaðan málflutning. Ef áfellast má mig fyrir eitthvað þá er það fyrir að hafa þagað um ýmis atriði þessa máls á meðan að því var unnið. Það gerði ég af því að ég vildi ekki spilla fyrir því að þrátt fyrir það mættu niðurstöður fást. Fyrir það má e.t.v. áfellast mig.