Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 23:50:00 (914)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi hef ég þegar skýrt frá því hvenær ég telji heppilegast að gefa þinginu skýrslu um álsamningamálin. Ég tel að þær umræður sem hér hafa farið fram í dag og þær upplýsingar, sem fram hafa komið frá iðnrn. um málið til iðnn. og til almennings nú á þessum síðustu dægrum, séu fullnægjandi til þess að skýra stöðu málsins frá stjórnmálalegu sjónarmiði skoðað. Ég er tilbúinn til þess að upplýsa iðnn. eins og sjálfsagt er um gang málsins og það verður gert eftir því sem hún óskar, en ég tel að það sé heppilegast, ekki síst þinginu til hægari verka, að skýrsla verði gefin þegar línur hafa skýrst hvað varðar hugsanlegar tímasetningar á framkvæmdum og öðru sem að málinu lýtur eftir að fullkomlega hefur verið lokið öllum frágangi. Þetta hlýtur hver maður að sjá að er praktískt mál.
    Um umhverfismálin vil ég benda á það sem reyndar kom fram í máli mínu áðan að umhvrh. mun gefa þinginu skýrslu um starfsleyfið á morgun eða hinn daginn. Sú skýrsla verður lögð hér fram. Ég er enn þeirrar skoðunar að í umhvn. og iðnn. hafi verið lögð fram gögn sem lýsa því máli þannig að fullnægjandi getur talist. Við það þarf ekki miklu að bæta.
    Af viðbrögðum hv. 8. þm. Reykn. við því sem Goldman Sachs sögðu er það greinilegt að hann er sannleikanum sárreiðastur, nú kýs hann að búa til draugasögur um það hvernig þetta hafi allt saman legið ljóst fyrir þegar í byrjun ársins. Og þá vaknar náttúrlega spurningin: Hvers vegna breytti maðurinn ekki í samræmi við þessa vitneskju sína?
    Hvað varðar það sem ég sagði um afstöðu til Atlantsálssamninganna og slit samninga við Alusuisse um áramótin 1989--1990, þá stend ég við það sem ég sagði hér áðan.