Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 23:57:00 (917)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. talaði hér áðan í 44 mínútur. Hann fór 14 mínútur fram yfir þann tíma sem þingsköpin skammta honum. Ég hef aldrei áður kynnst því að núv. forseti hafi sýnt mönnum í ræðustól jafnmikla þolinmæði og jafnveikburða dangl í bjölluna og fram kom hér áðan. Ég hef a.m.k. kynnst því hjá hæstv. forseta að hafa orðið að hætta mínum ræðum vegna þess að forsetinn var svo aðgangsharður við bjölluna að maður heyrði ekki til sjálfs sín hér í ræðustólnum. Hér kveður sem sagt nýrra við og það var greinilegt, eins og fram kom hjá hv. 8. þm. Reykn., að þingheimur skildi út af fyrir sig vel að hæstv. iðnrh. þyrfti að tala alllengi. En það hefði auðvitað verið eðlilegra að hann hefði fengið málið fyrr, að hann hefði t.d. í sinni upphafsræðu hér í dag hjólað í stjórnarandstöðuna með þeim hætti sem hann gerði í sinni síðari ræðu í kvöld.
    Staðreyndin er auðvitað sú að það hefur komið í ljós að þessi ákvæði þingskapa eru óbrúkleg, algjörlega óbrúkleg og ég tók þetta upp í máli mínu fyrr í dag. Ég hef raunar alltaf verið þeirrar skoðunar að hér sé teflt á tæpasta vað og ég taldi sérstaklega rangt að bæta inn orðunum ,,sem við á``, þ.e. á eftir orðinu ,,ráðherra`` í þeirri þingskapagrein sem hér um ræðir vegna þess að þar með var í raun og veru verið að takmarka þessi mál enn þá meira en þurfti að gera.
    Ég vil í tilefni af þessum yfirgangi sem hér hefur birst segja það, virðulegi forseti, að í fyrsta lagi áskil ég mér allan rétt til þess að tala almennt um þetta svokallaða álmál þegar umhvrh. gefur skýrslu sína. Mér er ekki kunnugt um það hvenær sú umræða á að fara fram. Ég gegni störfum varaformanns í þingflokki Alþb. en það er fróðlegt að vita hvort formenn þingflokkanna hafa samið um það að skýrsla umhvrh. komi hér til meðferðar á morgun eða hinn daginn. Það hefur aldrei verið rætt í þingflokkunum. Og þó að hæstv. iðnrh. kjósi að menn standi og sitji eins og honum þóknast, þá er það einu sinni þannig að hann ræður ekki enn þá dagskrá þingsins. Mér er því ekki kunnugt um að þetta eigi að gerast á morgun eða hinn daginn, en segjum að það verði þá. Þá þurfa menn líka að setjast niður og ræða um það. Og það er augljóst mál að eftir framkomu iðnrh. við einstaka menn hér í kvöld hljótum við að nota umræðuna um umhverfismálin til þess að ræða álmálið almennt.
    Í öðru lagi vil ég segja, virðulegi forseti, að óhjákvæmilegt er að beina því til forsetans og forsætisnefndarinnar --- ef hún skyldi koma saman og gæti kannski reynt að ná samkomulagi um hin mikilvægu mál eins og henni ber samkvæmt þingskapalögum --- að það verði rætt um endurskoðun á þessum ákvæðum þingskapanna og fleiri ákvæðum þeirra. Greinilegt er að vissir gallar hafa komið í ljós. Þessi er augljós nú þegar og það er nauðsynlegt að þau mál verði rædd.
    Ég vil almennt líka segja það, virðulegi forseti, að ég tel að það sé ósiður af ráðherrum að koma með mál inn í þingið eins og hæstv. iðnrh. kemur með þetta mál. Ég tel að hann hefði átt að óska eftir því að gefa þinginu munnlega skýrslu. Það er margra ára hefð fyrir slíku og engar athugasemdir hefðu verið gerðar við það af hálfu stjórnarandstöðunnar þó að ekki hefði verið lögð fram skrifleg skýrsla. Þetta hefði þýtt að við hefðum getað haft hér ítarlegri umræður um þetta mál en það form gefur kost á sem við höfum verið að ræða þetta undir. Hér er því í rauninni um það að ræða að við þurfum að taka öll þessi samskiptamál til meðferðar og ég mótmæli þeim dónaskap sem fram kom í máli iðnrh. vegna þess að hann var ekki bara að svara. Hann flutti hér, ef ég má nota hans eigin orð, samfelldan fúkyrðaflaum um einstaka þingmenn stjórnarandstöðunnar og má ekki

á milli sjá hvor flaumurinn væri öflugri til virkjunar, sá sem hann flutti eða sá sem hann nefndi.