Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 00:03:00 (919)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Því miður hefur hæstv. forseti ekki svarað því atriði sem fram kom í umræðum hér um þingsköp áðan þar sem ég beindi því til hennar að á þessum málum yrði tekið formlega af forsætisnefndinni. Kannski treystir hæstv. forseti sér ekki til að tala fyrir hönd forsætisnefndarinnar nema halda fund í nefndinni af slæmri reynslu um mikinn ágreining og erfiðleika í þeirri nefnd, en ég hefði kosið . . . ( Forseti: Ef forseti má bara skjóta því inn að það var nú óviljandi að forseta láðist að svara þessu, en mun að sjálfsögðu taka þessum ábendingum með velvilja sem hv. þm. kom inn á í sinni þingskaparæðu.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessa yfirlýsingu og það að hún skuli sýna þann kjark að ætla sér að reyna að ná samstöðu í forsætisnefndinni um þetta mikilvæga mál sem ég hér nefndi.
    Ég vil víkja aðeins að einstökum atriðum sem fram hafa komið hér og satt að segja nenni ég ekki mikið að vera að spyrja hæstv. iðnrh. Ég hef satt að segja ekki margt um að spyrja þegar hann er annars vegar. Ég vil þó segja það að mér dugir ekki að vitna í Jeltsín til þess að afsanna það að álmarkaður sé valtur. Það eru ár og dagar síðan leiðtogum Rússlands hefur verið sýnd önnur eins virðing og fram kom hér í máli hæstv. iðnrh. þar sem hann las, í knöppum tíma utandagskrárumræðu, langlokutilvitnun í Boris Jeltsín. Ég tel að í rauninni sé nóg að vita að um er að ræða stórfelldar birgðir af áli í Sovétríkjunum samkvæmt upplýsingum sem birst hafa í alþjóðlegum tímaritum eins og t.d. tímaritinu Economist. Þar kemur fram í grein sem birtist 20. júní sl. að það er ætlun Rússa að setja á markað af gömlum birgðum 1 milljón tonna af áli á næsta ári. Framleiðsla Rússa á ári er núna um 2,5 millj. tonna og Rússar eru í dag næststærsti álframleiðandi í heimi. Og ég spyr: Er ekki full ástæða til að staldra við þennan veruleika? Er nokkur ástæða í ljósi reynslunnar til þess að reyna að vera að blekkja sig? Er ekki nauðsynlegt að menn skoði þessar staðreyndir eins og þær liggja fyrir? Og er ekki líka nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að álnotkun Rússa fer minnkandi, m.a. vegna samdráttar í hergagnaiðnaði? Ég held að það sé líka nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þrátt fyrir ásetning Borisar Jeltsíns um það að aðlaga hagkerfið í Rússlandi að heimsmarkaði, þá eru hlutirnir engu að síður þannig að gjaldeyrishungrið er slíkt að menn þar eru tilbúnir svo að segja til að selja hvað sem er á hvaða verði sem er svo fremi sem þeir fái fyrir það gjaldeyri. Það er því augljóst að hér er um verulega óvissu að ræða, hvað sem hver segir. Og mér finnst það satt að segja ekki þjóna neinum tilgangi, eins og iðnrh. setur það upp, að vera að reyna að klóra yfir þennan veruleika. Ég held að reynslan hafi sýnt okkur að við eigum að horfast í augu við hann rétt eins og hann er, svo óþægilegur sem hann er.
    Í annan stað er það auðvitað ljóst og liggur fyrir að bílaiðnaðurinn mun ekki taka við áli í stórum stíl. Fréttir birtast um það reglulega, m.a. í erlendum vísindatímaritum, að bílaiðnaðurinn notar í vaxandi mæli plast- og trefjaefni í stað áls. Af hverju má ekki segja það? Af hverju má ekki viðurkenna þennan veruleika? Hann er svona. Af hverju erum við að reyna að blekkja okkur? Eða erum við að reyna að blekkja einhverja fleiri? Erum við ekki í raun og veru búin að plata fólk nógu lengi, íbúana í Vogunum og á Vatnsleysuströnd, verktakaiðnaðinn í landinu, þjóðina, Akureyringa, Reyðfirðinga? Er ekki búið að blekkja fólk nógu lengi? Þarf að halda því áfram? Ég held að blekkingarleikurinn hafi verið svo ljótur leikur að menn eigi að hætta og ekki neita sér um það að horfast í augu við veruleikann.
    Ég held líka að það sé mjög mikið umhugsunarefni, og ég vil sérstaklega beina því til hæstv. forsrh., hvort það er í rauninni rétt að halda málinu áfram eins og iðnrh. hefur farið með það. Ég held að það sé hæpið að láta iðnrh. um það að vitja þeirra Alumax-manna og Atlantsálsmanna. Ég nenni ekki að spyrja hann að því hvenær sé næsti boðunardagur Atlantsáls.
    Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort ekki sé nauðsynlegt fyrir hæstv. forsrh. að fara yfir þetta mál í því skyni að breyta um samningsform og breyta um aðferð. Ég heyrði það hjá hæstv. iðnrh. að hann er tilbúinn til þess að ræða það mál í iðnn. hvernig þessir hlutir hafa þróast og ég þakka honum fyrir það og ég mun leita eftir því. Spurning er: Er það hugsanlegt að iðnn. Alþingis taki að sér að stýra þessu máli þannig að um verði að ræða fjölflokkanálgun? Og þar er nú ekki á kot vísað þar sem er hv. 17. þm. Reykv., margrómaður fyrir störf í Framkvæmdasjóði fyrir hæstv. fyrrv. fjmrh. hér fyrr í kvöld. En í fullri alvöru held ég, virðulegi forseti, að það sé full ástæða til þess fyrir forsrh. að íhuga hvort ekki þarf að breyta hér um aðferð. Ég held að það sé full ástæða til þess.
    Í annan stað vil ég beina því til hæstv. forsrh. að hann og ríkisstjórnin velti mjög alvarlega fyrir sér þeim vanda sem byggðarlögin standa nú frammi fyrir, fólkið, verktakarnir og aðrir, eftir þessa niðurstöðu. Í þeim efnum er ekki nóg að skoða vanda ríkissjóðs. Það er afskaplega takmarkaður þáttur þessa vanda. Menn þurfa líka að skoða vanda verktakaiðnaðarins í heild. Eftir að virkjunarframkvæmdirnar voru boðnar út fyrir mörgum mánuðum, þá er það ljóst að mörg verktakafyrirtæki hafa haldið fólki í verkum og þar með hefur verið um að ræða ákveðið dulið atvinnuleysi sem menn hafa þolað í trausti þess að framkvæmdir færu af stað. Það er augljóst mál að verktakafyrirtæki, eins og t.d. Hagvirki og fleiri, hljóta að velta stöðunni núna fyrir sér á nýjan leik með hliðsjón af því að þeir verði núna að segja upp fólki sem hefur verið í vinnu hjá þessum fyrirtækjum að undanförnu. Ég held að það sé nauðsynlegt að yfir þetta sé farið.
    Ég vil benda hæstv. forsrh. á það í þessu máli hvort ekki sé ástæða til að gerð verði úttekt á aðdraganda málsins, úttekt á vinnubrögðum iðnrh. og ríkisstjórnar og Alþingis í þessu máli. Út af fyrir sig er það rétt sem hér hefur komið fram aftur og aftur í dag og í kvöld að hér er ekki við iðnrh. einan að sakast. Auðvitað hafa margir komið að þessu máli en hann hefur haft afgerandi forustu og hann hefur beitt þessari forustu oft með mjög ósanngjörnum hætti eins og í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem hann óð fram iðulega af ýtrasta tillitsleysi, því miður, í garð samverkamanna sinna þar.
    Ég held þess vegna að það sé nauðsynlegt að menn skoði mjög vandlega almennar afleiðingar þess að iðnrh. hefur haldið svona á málinu, fjárhagslegar afleiðingar fyrir fólk. Er það rétt sem maður heyrir að íbúðir í Vogum og á Vatnsleysuströnd hafi verið að stórhækka í verði út af þessu tali? Er það rétt að fólk sitji núna uppi með sárt ennið vegna þess að hlutirnir eru allir í óvissu? Er það rétt að menn séu að leita eftir því að rifta samningum sem gerðir hafa verið á milli einstaklinga um kaup á íbúðum? Er það í rauninni þannig að um sé að ræða þúsundir manna sem hafa trúað því að þessir hlutir væru að ganga upp, fjárfest á þeim forsendum og séu núna með sinn fjárhag algjörlega í uppnámi? Ég tel að það sé rannsóknarefni að fara yfir þetta mál og ég tel að ríkisstjórnin geti ekki yppt öxlum í þessu efni því að málið er svo alvarlegt.
    Ég tók eftir því í fjölmiðlum í gærkvöldi að einhverjir fréttamenn létu að því liggja í samtali við iðnrh. hvort hann ætti ekki jafnvel að segja af sér eftir allt þetta. Ég tel að það sé ekki óeðlileg spurning í sjálfu sér vegna þess að hin pólitíska hrygglengja í iðnrh. hefur verið úr áli. Þetta hafa verið hans pólitísku verðmæti. Á grundvelli þeirrar spegilmyndar sem birtist í álplötunum var hann tekinn í framboð á Reykjanesi. Þannig var það nú. Og þess vegna komst hv. þm. Össur Skarphéðinsson á þing. Ég er ekki að segja það að hæstv. iðnrh. eigi að segja af sér, ekki frekar en ríkisstjórnin yfirleitt. Ég tel satt að segja að hann sómi sér ágætlega að mörgu leyti í þessari stjórn og miklu betur en í þeirri síðustu, ég viðurkenni það. En ég held að iðnrh. verði að skipta um forrit í sér. Það er alveg greinilegt að það forrit sem iðnrh. hefur notað á undanförnum árum dugir ekki, það hefur engu skilað, hvorki honum, né þjóðinni í heild. Þess vegna held ég að hæstv. iðnrh. verði að ganga í endurnýjun lífdaga og endurhæfingu og skoða hlutina alveg upp á nýtt og skipta um forrit í höfðinu á sér því að það er greinilegt að sú stefna sem hann hefur rekið hefur ekki dugað. Þessi hrygglengja úr áli, sem dugði honum til framboðs á Reykjanesi snemma á þessu ári, dugir ekki lengur. Það þýðir ekki að koma aftur fram fyrir þjóðina og segja: Álver er á næsta leiti. Það var í rauninni alveg ótrúlegt að heyra það hjá hæstv. iðnrh. hér áðan þegar hann gaf í skyn að þetta gæti nú alveg komið, gæti nú alveg verið að koma. Ég segi við iðnrh.: Hann á að hætta þessu. Hann á að hætta að reyna að blekkja þjóðina. Ef svo fer að þetta kemur, þá kemur það. En menn eiga ekki að setja hlutina upp svona lengur. Það er komið alveg nóg af þessum hráskinnaleik sem hefur farið illa með fjárhag fjölskyldna í landinu þúsundum saman. Það er ljótur leikur, hæstv. iðnrh.
    Í seinni ræðu iðnrh. kom það fram að í rauninni væri þetta allt alveg fullkomið og vísa Sölva Helgasonar kom í hugann aftur og aftur undir þessari ræðu hans rétt eins og undir EES-ræðu Jóns Baldvins Hannibalssonar, hæstv. utanrrh., vísan sem er ,,Ég er gull og gersemi``. Staðreyndin er auðvitað sú að það er alvarlegt umhugsunarefni út af fyrir sig að maður sem hefur gegnt starfi iðnrh. í fjórum ríkisstjórnum skuli ekki viðurkenna að í einu einasta tilviki hafi honum orðið á. Ekki í einu einasta tilviki. Ég veit t.d. að hv. 2. þm. Norðurl. v., sem er örugglega auðmjúkur maður, það segir sig sjálft, hlýtur að undrast það að finna slíka fullkomnun í einni persónu hér inni á Alþingi, enda er hún ekki til. Ég held að menn þurfi að gera sér grein fyrir því að hér er um alvarlegan þverbrest í uppsetningu málsins að ræða af hálfu hæstv. iðnrh. Hann verður, ef hann vill vera trúverðugur, að viðurkenna að hann hafi borið af leið.
    Ég held að það sé líka nauðsynlegt í þessari umræðu, virðulegi forseti, að víkja svo að öðru máli sem er sérstaklega alvarlegt og kom fram í ræðu hæstv. forsrh. Forsrh. var spurður að því: Ætlar ríkisstjórnin að gera eitthvað? Þetta er náttúrlega spurning sem við þekkjum öll hér í þessum sal og höfum mörg hver oft staðið frammi fyrir. Við vitum það líka að oft geta ríkisstjórnirnar lítið gert. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. Hitt er aftur á móti annað að þegar þjóðin stendur frammi fyrir miklum vanda, þá hafa ríkisstjórnirnar alltaf reynt að taka á málum, alltaf reynt að stilla saman strengi. Ég hélt satt að segja að það ætti ekki eftir að koma fyrir mig sem nú gerist, en ég játa það að í samanburði við þá stjórn sem situr núna, þá sakna ég sumpart viðreisnarstjórnarinnar. Ég verð að viðurkenna það að þetta hefði þótt mikil forsending ef ég hefði játað þetta fyrir allmörgum árum. En nú er svo komið. Og hvað veldur því? Viðreisnarstjórnin á erfiðustu árum valdaferils síns 1967, 1968 stóð frammi fyrir stórfelldum vanda í efnahags- og atvinnumálum. Hvað gerði hún? Hún leyfði sér að skipta sér með beinum hætti af atvinnulífinu. Það voru settar niður, ef ég man rétt, atvinnumálanefndir að ég held í öllum kjördæmum landsins og síðan ein heildarnefnd fyrir landið allt og ég man ekki betur en hún hafi verið undir forustu Jóhanns Hafsteins sem þá gegndi starfi iðnrh. ef minni mitt bregst ekki.
    Ég segi við núv. hæstv. ríkisstjórn: Ég skora á hana að reyna að læra pínulítið af viðreisnarstjórninni vegna þess að það er greinilegt að hún gengur ekki upp, sú atvinnumálastefna sem núv. iðnrh. hefur rekið í þessari stjórn og næstu þremur ráðuneytum á undan --- því að málið liggur þannig að hann er það frekur til fjörsins, þessi maður sem gegnir þessu starfi að aðrir komast ekki svo mikið að með sínar atvinnumálastefnur þegar hann er annars vegar og situr við ríkisstjórnarborð. Það þekki ég eftir að hafa verið með honum við ríkisstjórnarborð á 250 fundum í tvö og hálft ár. Þannig að jafnvel þó að virðulegur hæstv. fyrrv. forsrh. komi með fallega græna skýrslu, þá fær hún afar lítinn hljómgrunn hjá iðnrh. af því að hann er svo upptekinn af álinu og því einu.
    Andspænis þessum vanda segi ég að lokum þetta, virðulegi forseti: Hættum að bíða aðgerðarlaus eftir að kraftaverkin gerist. Tökum saman höndum við þjóðina alla um að leysa vandann. Ef niðurstaða fæst einhvern tímann í þessu álmáli kemur hún í ljós en látum ekki alla þjóðina bíða með öndina í hálsinum eftir þessum boðunardegi Atlantsáls, þegar hæstv. iðnrh. ætlar að fara að vitja þeirra félaga.