Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 00:34:00 (922)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Þar sem mér láðist að svara einni athugasemd hæstv. iðnrh. er ég veitti andsvar áðan ætla ég að nýta seinni ræðutíma minn til að koma á framfæri því svari.
    Ég held ég muni það rétt að það hafi verið haft eftir Guðmundi J. Guðmundssyni að sá sem væri á móti álveri væri með atvinnuleysi. Þessi ummæli bera því miður vott um að hann sé haldinn sömu blindu og hæstv. iðnrh. virtist haldinn lengst af þeim tíma sem álviðræður hafa staðið.
    Það er í sjálfu sér engin furða eins og áróðurinn hefur verið að þessi blinda sæki á menn. Hins vegar er hægt að trúa á fleiri úrræði í atvinnumálum en álver. Sem betur fer kom það fram í fyrri ræðu hæstv. iðnrh. í dag að hann er farinn að líta til fleiri átta en einungis til álvers. Og vonandi hefur það gerst miklu fyrr þótt ég hafi ekki vitað af því. Ég vil jafnframt minna á að í minni ræðu benti ég á ýmis úrræði. Ég trúi ekki á eina stóra allsherjarlausn sem bjargar öllum atvinnumálum í landinu. En ég trúi því hins vegar að það megi margt gera með mikilli vinnu, góðum vilja, góðum hugmyndum og alúð við þær hugmyndir sem menn telja heillavænlegar og með því að leggja rækt við frumvinnslugreinarnar.