Almenn hegningarlög

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 15:14:00 (934)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég stíg hér í stólinn til að lýsa yfir fylgi mínu við meginhugsun þess frv. sem hér er til umræðu. En á meðan ég hlustaði á hæstv. dómsmrh. vöknuðu hjá mér spurningar. Það væri vissulega ástæða til að ræða ítarlega ástand fangelsismála hér á landi, eðli, lengd og réttmæti þeirra refsinga sem hér eru við lýði. Reyndar var komið töluvert inn á það í því máli sem var til umræðu á undan þessu. Ég skil hugtakið samfélagsþjónustu þannig að þar sé um að ræða einhvers konar vinnu sem kemur samfélaginu til góða. Ég veit t.d. að í ríkjum eins og Bandaríkjunum hefur samfélagsþjónustu verið beitt eða menn hafa fengið leyfi til þess að sinna samfélagsþjónustu og losnað þar með undan herskyldu, þannig að þetta er með ýmsu móti í hinum ýmsu löndum. Af því tilefni langar mig til að spyrja hæstv. dómsmrh. hvað hann viti um reynslu annarra þjóða af þessu fyrirkomulagi. Hver er reynsla t.d. Norðurlandaþjóðanna? Og í öðru lagi er það eiginlega sama spurningin og hæstv. þm. Jón Helgason spurði hér áðan, þ.e.: Hvaða hugmyndir eru á ferðinni um samfélagsþjónustu? Er hugsunin að setja upp ákveðin verkefni eða eru menn fyrst og fremst að tala um að koma fólki í vinnu hjá t.d. ríkisstofnunum?