Umræður um tvö eða fleiri dagskrármál í einu (3. mgr. 63. gr. þingskapa)

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 15:25:00 (937)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Áður en tekið er fyrir næsta mál á dagskrá vill forseti vekja athygli á 3. mgr. 63. gr. þingskapa sem er nýmæli og hljóðar svo:
    ,,Forseti getur heimilað, ef ósk berst um það frá flutningsmanni eða flutningsmönnum og enginn þingmaður andmælir því, að umræður fari fram um tvö eða fleiri dagskrármál í einu ef þau fjalla um skyld efni eða það þykir hagkvæmt af öðrum ástæðum.``
     Svo er ástatt um 22. mál, Viðskiptabanka, og 23. mál, Sparisjóði, að efni þeirra er hliðstætt og hæstv. viðskrh. hefur óskað eftir því að mæla fyrir báðum málunum í einu. Það er mat forseta að það sé eðlileg ósk. Í þessu felst að umræðan um þessi tvö mál fer fram eftir hinni almennu reglu 55. gr. þingskpa um umræður um lagafrv., þ.e. að hver þingmaður hefur rétt til að tala tvisvar. Forseti mun hins vegar að umræðu lokinni láta greiða atkvæði sérstaklega um hvort málið fyrir sig. Umræðan verður því með þessu sniði ef enginn þingmaður andmælir því.