Lögverndun starfsréttinda

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 10:33:00 (944)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Svar við spurningu hv. 2. þm. Vestf. er svohljóðandi:
    Hinn 11. júlí 1990 skipaði þáv. forsrh. nefnd til þess að samræma löggjöf um löggildingu starfsstétta og lögverndun starfsheita, m.a. með tilliti til þróunar á vinnumarkaði á Norðurlöndunum og í Evrópu. Nefndin var skipuð embættismönnum úr sex ráðuneytum, Helgu Jónsdóttur úr forsrn., Berglindi Ásgeirsdóttur úr félmrn., Dögg Pálsdóttur úr heilbr.- og trn., Guðrúnu Skúladóttur úr iðnrn., Stefáni Stefánssyni úr menntmrn. og Jóhanni R. Benediktssyni úr utanrrn.
    Með bréfi dags. 22. ágúst 1991 gerði nefndin forsrh. grein fyrir störfum sínum og sagði m.a.:
    ,,Nefndin hefur aflað gagna um gildandi rétt hér á landi í öðrum aðildarríkjum EFTA og í Danmörku og jafnframt kannað hvaða meginreglum er fylgt við meðferð umsókna um löggildingu starfsréttinda og lögverndun starfsheita í stjórnsýslunni. Þá hefur nefndin upplýsingar frá öllum ráðuneytum um einstakar starfsstéttir sem undir þau heyra og yfirlit um forsendur löggildingar og lögverndar starfsréttinda stétta sem þeirra njóta. Löggilding eða lögverndun er ýmist veitt á grundvelli löggjafar um hlutaðeigandi stétt eða reglugerðar með heimild í lögum svo sem tíðkast um ýmsar heilbrigðisstéttir.
    Almenna stefnan í Evrópu virðist nú vera sú að afnema lögvernd starfsheita eða veita hana ekki að svo miklu leyti sem mikilvægir almannahagsmunir, svo sem neytendavernd eða öryggissjónarmið, knýja ekki á um hana. Í þessu tilliti er nú unnið mikið samræmingarstarf til undirbúnings innri markaði Evrópubandalagsins og í viðræðum EFTA og EB um Evrópskt efnahagssvæði. Nefndin telur að þær niðurstöður sem verða í viðræðunum um Evrópskt efnahagssvæði hljóti að ráða miklu um hvernig tekist verður á við þetta viðfangsefni hér á landi. Með tilliti til þeirrar óvissu sem uppi er telur hún ekki rétt að leggja á þessu stigi mikla vinnu í undirbúning breyttrar löggjafar. Í ljósi framanritaðs leyfir nefndin sér að leggja til að hún verði leyst frá störfum en ný nefnd sett á fót þegar forsendur hins Evrópska efnahagssvæðis hafa skýrst.`` --- Þetta var tilvitnun í bréf nefndarinnar. Á þessi sjónarmið var fallist og ofangreind nefnd er ekki lengur að störfum.

    Í ljósi þess að nú liggja fyrir þær forsendur sem hið Evrópska efnahagssvæði mun byggjast á hefur ríkisstjórnin fullan hug á að á ný verði tekist á við það verkefni að samræma reglur hér því sem gerist í samstarfsríkjum okkar. Það hefur þó ekki enn verið ákveðið endanlega með hvaða hætti því viðfangsefni verður sinnt.
    En vegna ummæla hv. 2. þm. Vestf. hér áðan, sem ég get út af fyrir sig tekið undir, vil ég nefna að ríkisstjórnin telur brýnt í þessu sambandi að huga ekki síst að hagsmunum neytenda. Í greinargerð sem tekin var saman á sínum tíma af dr. Þráni Eggertssyni fyrir Þjóðhagsstofnun, þar sem fjallað er um áhrif lögbundinna forréttinda, kemur m.a. fram að reglur sem veita forréttindi til atvinnurekstrar og vinnu séu í raun ígildi skatta á almenning og tilfærsla fjár frá neytendum til sérhagsmunahópa. Þetta kom fram, hygg ég, í ummælum fyrirspyrjanda og ég vil taka undir að þetta þarf mjög að hafa í huga fyrir utan þann fyrirvara sem getið var í bréfi nefndarinnar.