Þjóðhagsstofnun

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 10:38:00 (946)

     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
     Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. forsrh. um Þjóðhagsstofnun. Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    ,,Er lokið endurskoðun á starfsemi Þjóðhagsstofnunar og mati á því hvort ekki sé hagkvæmt að fela öðrum verkefni hennar samkvæmt ályktun Alþingis frá 18. mars 1987?``
    Ég er sannfærður um að miðað við þann mikla fjölda hagdeilda, sem starfandi eru hjá ýmsum aðilum á Íslandi í dag þó vafalaust sé hún öflugust hjá Seðlabanka Íslands, er það ekki neinum vafa undirorpið að hér á sér stað mikill tvíverknaður svo ekki sé meira sagt. Það er verið að verja fjármunum til að fara yfir hluti sem margbúið er að fara yfir annars staðar. Í dag hefur fjmrn. sérstaka deild hjá sér sem fæst við það verkefni að reikna út tekjur íslenska ríkisins og skattatekjurnar og jafnframt að meta sín útgjöld. Þetta hefur verið í ýmsu formi gegnum tíðina. Það má segja sem svo að ráðuneytið hefur viljað færa meira af upplýsingastarfi sínu inn í ráðuneytið. Við höfum hagdeildir hjá Vinnuveitendasambandi Íslands og ASÍ. Byggðastofnun hefur verið með álitsgerðir á þessu sviði og eftir að hafa fylgst með vinnubrögðum Þjóðhagsstofnunar alllengi hefur mér ekki fundist að hennar spár væru marktækari en hinar nema síður sé. Kannski hefur hún legið undir meiri þrýstingi frá stjórnvöldum um að koma með eitthvað sem menn vildu heyra, ekki það sem menn þurftu að heyra.
    Ég tel það mikið alvörumál ef í alvöru er verið að tala um sparnað í þessu þjóðfélagi að menn hafi þá þrek til þess að skera á þar sem um mikinn tvíverknað er að ræða. Þegar þessi þáltill. var flutt á sínum tíma af hv. 4. þm. Reykv. þótti hún um margt framúrstefnuleg. Sumir voru orðnir svo fastir í stofnanatrúnni að það var eins og þeir teldu að himinn og jörð mundi hrynja ef hróflað væri við einhverju, en ég vona að mönnum sé það ljóst í dag að slíkt gerist ekki þó Þjóðhagsstofnun sé lögð niður.