Þjóðhagsstofnun

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 10:41:00 (947)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Vegna þessarar fsp. hv. 2. þm. Vestf. er því til að svara að á vegum forsrn. er nú unnið að endurskoðun og úttekt á starfsemi og skipulagi Þjóðhagsstofnunar. Ályktun Aþingis frá 18. mars 1987, um endurskoðun á starfsemi Þjóðhagsstofnunar, var send til álits og umsagnar Hagstofu Íslands, Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnunar og hafa forstöðumenn þessara stofnana kynnt ráðuneytinu sín viðhorf. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að ákveðnir þættir, sem stofnunin sinnir nú, muni í framtíðinni heyra undir Hagstofu Íslands í þeim tilfellum sem um er að ræða hefðbundin hagstofuverkefni, svo sem hagsýslugerð. Önnur verkefni, svo sem spár og efnahagsráðgjöf verði hins vegar áfram unnin af Þjóðhagsstofnun. Hins vegar er gert ráð fyrir að hún starfi í nánari tengslum við forsrn. heldur en verið hefur. Í því skyni að þetta náist fram er gert ráð fyrir að starf sérstaks efnahagsráðunautar forsrh. verði lagt niður. Ég tel að forsenda þess að forsrn. geti með góðum hætti sinnt hlutverki sínu sem eiginlegt efnahagsráðuneyti sé afskaplega veik og ég tel að breyting af þessu tagi gæti styrkt ráðuneytið til þess að sinna því hlutverki, sem æ mikilvægara er að það geti, að starfa sem raunverulegt efnahagsráðuneyti.
    Vegna fsp. vil ég, með leyfi forseta, kynna niðurlag úr umsögn hagstofustjóra þar sem segir:
    ,,Að lokum skal því slegið föstu að það skipulag verði seint fundið sem sameini alla kosti og útiloki galla og geti að auki staðið óhaggað um langa hríð. Á hinn bóginn er það álit undirritaðs að fenginni nokkurri reynslu á þessu sviði að full ástæða hafi verið um nokkurt skeið að endurskipuleggja starfsemi og verkaskiptingu efnahags- og hagsýslustofnana. Þessi endurskipulagning ætti þá m.a. að felast í eftirfarandi verkefnum:
    1. Hagsýslugerð verði safnað á færri hendur en nú er í því skyni að auka afköst og samræmingu og draga úr hættu á tvíverknaði og hagsmunaafskiptum.
    2. Spár um framvinduhorfur. Gerður verði gleggri greinarmunur en nú er á skýrslugerð um liðna og líðandi stund annars vegar og mati á horfum og spám á framvindu hins vegar. Jafnframt verði komið á fót tiltölulega sjálfstæðri spástofnun sem verði sem mest óháð stjórnvöldum á hverjum tíma.
    3. Efnahagsráðgjöf. Nauðsynlegt er að styrkja slíka starfsemi innan Stjórnarráðsins og í því sambandi að marka með ákveðnari hætti en nú er skiptingu ábyrgðar og verkefna á milli ráðuneyta.
    Tæpitungulaust má orða þessa niðurstöðu svo að ég telji skynsamlegt að gerð þjóðhagsreikninga og atvinnuvegaskýrslna verði færð úr Þjóðhagsstofnun til Hagstofu Íslands. Um leið verði Þjóðhagsstofnun gerð að sjálfstæðri spástofnun og ráðgjafarhlutverk hennar fært inn í Stjórnarráðið.``
    Eins og menn heyra af þessu eru hugmyndir, sem eru í gangi í forsrn. núna, að verulegu leyti, þó ekki öllu, í samræmi við þetta álit hagstofustjóra.