Bætt atvinnuástand á Suðurnesjum

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 10:49:00 (951)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
     Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 89 fsp. til hæstv. forsrh. um aðgerðir sem bætt geta atvinnuástand á Suðurnesjum. Ég vil gera þá grein fyrir fsp. að á yfirstandandi ári hefur orðið umtalsverð breyting til hins verra í atvinnuástandi á Suðurnesjum. Á undanförnum árum hefur mátt greina aðdraganda þess sem orðið er því að hvergi annars staðar á landinu hefur orðið viðlíka samdráttur í sjávarútvegi sem á Suðurnesjum. Þaðan hafa fiskveiðiheimildir farið til annarra landshluta með skipasölum allt frá því að horfið var að því ráði að beita takmörkunum í sókn og síðar aflaheimildum til að stemma stigu við fiskveiðum okkar snemma á síðasta áratug.
    Hin síðari ár hafa þau fiskvinnslufyrirtæki Suðurnesjamanna sem ekki eiga umtalsverðar aflaheimildir mjög aukið þann afla sem kemur til vinnslu á Suðurnesjum með stórfelldum kaupum á ferskum fiski á uppboðsmörkuðum. Það að fiskmarkaður Suðurnesja hefur náð þeirra lengst hefur án vafa átt mikinn þátt í því hve vel hefur tekist að kaupa hráefni í stað þeirra aflaheimilda sem fluttar hafa verið frá Suðurnesjum. Starfsemi hans og þessara fyrirtækja, fiskkaupenda á uppboðsmörkuðum, hefur verið ánægjuleg fyrir allt það fólk á Suðurnesjum sem á atvinnu sína og afkomu undir fiskvinnslunni. Einkum þegar útflutningur óunnins afla hefur verið hvað mestur og á stundum á undanförnum árum meiri en kemur til sölu innan lands.
    Samdráttur í aflaheimildum á nýbyrjuðu fiskveiðiári bitnar á öllum þeim sem stunda veiðar og vinnslu. Harðast bitnar hann á þeim sem virðast á stundum vera afgangsstærð að lokinni úthlutun heimilda til veiða og síðan heimilda til útflutnings óunnins afla án þess að hann bjóðist til sölu hér heima. Sú afgangsstærð eru fyrirtæki og starfsmenn fiskkaupenda á okkar eigin uppboðsmörkuðum.
    En fleiri alvarleg samdráttarmerki koma nú fram á vinnumarkaði Suðurnesja. Varnarliðið og framkvæmdaverktakar þess hafa nú svo áratugum nemur fengið allt það vinnuafl sem þeir þarfnast í krafti yfirburða yfir ótrygga afkomu við fiskveiðar og vinnslu eða þjónustu við þær greinar, sem er helsti keppinautur þeirra um vinnuafl á Suðurnesjum.
    Allt frá 1974 og fram á síðustu ár hafa umsvif varnarliðsins í framkvæmdum, rekstri og þjónustu allri þarfnast u.þ.b. 2.000 íslenskra starfsmanna. Þar af u.þ.b. 1.100 hjá varnarliðinu sjálfu. Hinir hæst launuðu starfsmenn varnarliðsins og Íslenskra aðalverktaka búa að vísu utan Suðurnesja. Í rúm tvö ár samfellt hefur varnarliðið ekki ráðið í stað þeirra sem hætta nema finnist starfsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins. Nú síðast var brugðið á uppsagnir og fleiri uppsagnir eru í vændum. Þannig hefur varnarliðið nú fækkað Íslendingum um nær 140 en Bandaríkjamönnum um nær 40 í þjónustu sinni. Þegar innt hefur verið eftir upplýsingum um fyrirætlanir þessa geigvænlega risa á fábreyttum vinnumarkaði Suðurnesja hefur orðið fátt um svör en í þess stað flutt gamalkunnug orð um að varnarstöðin skuli eftir sem áður gegna jafnmikilvægu hlutverki ef ekki brýnna en fyrr. Risinn er augljóslega að draga saman en hversu hratt og hversu langt ætlar hann að ganga?
    Heimamenn hafa sjálfir haft uppi nokkra tilburði en eftir að helsta verkefnið í þessum málum, væntanlegt álver á Keilisnesi, verður augljóslega ekki að sinni, spyrjum við: Hvers má vænta í afstöðu ríkisstjórnar og gjörðum? Megum við vænta þess að tillögur um hækkun gjalda af umferð um Leifsstöð nái fram að ganga og haldi þannig áfram að fæla viðskipti frá þessu atvinnusvæði? Megum við vænta þess að fríiðnaðarsvæðið verði loks að alvöru? Megum við vænta þess að Byggðastofnun eða aðrir aðilar á vegum ríkisstjórnar styðji atvinnuþróunarverkefni heimamanna?