Bætt atvinnuástand á Suðurnesjum

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 11:00:00 (954)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Virðulegur forseti. Í örstuttri athugasemd verða ekki rædd málefni atvinnulífs Suðurnesja. En ég vil enn einu sinni koma á framfæri einni athugasemd varðandi þá atvinnumöguleika sem fylgja Keflavíkurflugvelli, þ.e. flugi til og frá landinu. Það gengur ekki að leyfa Flugleiðum að hafa þennan völl sem leikfangaland með allt of háum töxtum í útflutningi á frakt frá landinu og koma í veg fyrir það með fáránlegri gjaldskrá að hægt sé að ná niður flutningavélum sem fljúga á milli Evrópu og Ameríku og eru reiðubúnar að millilenda hér og taka frakt niður í 10 tonn ef menn manna sig upp í að koma gjaldskrárkerfinu í eðlilegt stand. Það þarf kjark til að vera þingmaður Reyknesinga og láta ógert að taka á þessu máli. Þarna eru meiri möguleikar en margan grunar.