Bætt atvinnuástand á Suðurnesjum

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 11:01:00 (955)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
     Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. þau svör sem hann veitti mér við fsp. og athugasemdum þeirra sem til máls hafa tekið. Varðandi þá síðustu vil ég segja að ég get á engan hátt svarað fyrir þá sem hér hafa starfað í umboði Suðurnesjamanna eða Reykjaneskjördæmis til þessa. En ég vænti þess að við tökum á þessu hér eftir en fsp. mín kom m.a. inn á það.
    Mér þykir gott að heyra að ríkisstjórnin hyggur á almennar aðgerðir og ætlar að draga úr ásókn ríkisvaldsins í það fjármagn sem atvinnulífið gæti annars hagnýtt sér til

uppbyggingar, til tæknivæðingar og til að veita ný atvinnutækifæri með vaxandi umsvifum þess.
    Mér þykir líka gott að heyra að ætlunin sé að eiga við heimamenn beinar viðræður um það sem unnt verði að taka til bragðs. En ég skal líka segja það hér að okkur þykir mjög vænlegt að sjá vaxandi umsvif Flugleiða og annarra aðila í ferðaþjónustu á Suðurnesjum hin síðustu ár, vitandi að þar eru uppi aðgerðir til aukningar. Þar eru veruleg tækifæri í framtíðinni sem og annars staðar á landinu.
    Ég vænti þess að aðgerðir ríkisstjórnarinnar verði þess eðlis að við sjáum í framtíðinni þarna sem annars staðar rísa ný fyrirtæki, nýja aðstöðu til nýrrar starfsemi. Ég vænti þess líka að við sjáum í framtíðinni nýjar leikreglur á vinnumarkaði og í atvinnulífi yfirleitt með auknu frelsi. Fjölmargir hér á landi hafa bent okkur á að ef auknu frelsi hefði verið komið á fyrr værum við betur stæð í dag. Ég ætla ekki að rekja orð annarra þar um. Þau eru nægilega mörg til og mörg svo vel rökstudd að við hefðum greinilega átt að hegða okkur á annan hátt.
    Varðandi varnarliðið verð ég þó að segja að ég vænti þess fastlega að við fáum upplýsingar um fyrirætlanir þess í stað óvissunnar. Ég vænti þess fastlega að okkur verði grein fyrir hvað verður og hver muni ætlun þess um verkaskipti íslenskra og bandarískra starfsmanna og að það viðhafi hægan samdrátt. Það er ástæða til að ætlast til alls þessa vegna þess hversu gífurlega stórt varnarliðið er á frekar litlum og fábreyttum vinnumarkaði okkar.
    Ég nefni það í lokin hvort hugað verður að því í því fyrirtæki sem ríkið á meiri hlutann í, Íslenskum aðalverktökum, að það hasli sér frekar völl á alþjóðlegum verktakamarkaði í stað þess að flytja starfsemi sína á innlendan verktakamarkað sem nú er greinilega í nokkrum samdrætti og sér fram á verkefnaskort.