Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 11:06:00 (956)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
     Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 90 svofellda fsp. til hæstv. sjútvrh. um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins: ,,Hvað líður undirbúningi að því að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins verði lagður niður, innborgað fé greitt þeim fyrirtækjum sem það greiddu, en fiskvinnslufyrirtækjum heimilað að stofna eigin sjóði eða viðhafa aðrar aðgerðir til að mæta verðsveiflum?``
    Ég vil gera þá grein fyrir fsp. minni að frá stofnun núverandi Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins, með lögum nr. 39/1990, hefur frjáls verðmyndun á ferskum fiski sem seldur er innan lands vaxið hröðum skrefum. Þetta hefur gerst með frjálsri sölu og kaupum á innlendum uppboðsmörkuðum sem hafa vaxið og dafnað á þessu tímabili, unnið sér traust seljenda og kaupenda og náð öruggri fótfestu. Samfelldur vöxtur markaðanna sem nú eru starfandi og fjölgun þeirra að undanförnu ber gott vitni um að svo er. Nú er svo komið að hæstv. sjútvrh. hefur á hinu háa Alþingi nýlega mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 43/1985, um Verðlagsráð sjávarútvegsins, þar sem lagt er til að verð skuli ráðast í frjálsum samningum kaupenda og seljenda ellegar með sölu á frjálsum uppboðsmarkaði.
    Frjáls verðmyndun er þegar orðin á afurðum, til komin með samkeppni sölusamtaka og annarra frjálsra útflytjenda og raunar við útflytjendur annarra fiskvinnsluþjóða. Er því í raun komin fram frjáls verðmyndun bæði á hráefni og afurðum fiskvinnslunnar. Hún verður til þess að allar sveiflur á afurðaverði koma jafnharðan fram í því hráefnisverði sem framleiðendur eru tilbúnir til að greiða. Samkeppni um hráefnið verður aftur til þess að hver kaupandi greiðir á hverjum tíma allt það verð sem hann treystir sér til. Af þessari ástæðu virðist ekki lengur þörf á að knýja fram skyldusparnað og hafa þannig ríkisforsjá um Verðjöfnunarsjóð sem eingöngu tekur tillit til sérstaklega útreiknaðs meðalverðs á fyrir fram ákveðnum afurðamörkuðum en nær ekki til raunverðs fyrir hráefni eða afurðir. Virðist slíkur Verðjöfnunarsjóður til trafala í viðskiptum við frjálsa verðmyndun bæði á hráefni og afurðum.
    Í þeim tilvikum að fiskvinnslu- og útflutningsfyrirtæki komi til gjaldþrotaskipta eða hætti starfsemi af öðrum ástæðum falla innborganir þeirra til sjóðsins og að endingu til annarra fyrirtækja í greininni. Eigendur, starfsmenn þess fyrirtækis sem í þessu hefur lent, lánardrottnar þess og aðrir kröfuhafar, sem hafa veitt því lánsfé og greiðslufresti á viðskiptaskuldum vegna aðfanga og þjónustu, allir þeir sem gerðu mögulega framleiðslu þessa fyrirtækis sem greiddi í sjóðinn hafa þá tapað þessum fjármunum. Þá er rétt að benda á, sem er raunar ljósara en frá þurfi að segja, þá slæmu stöðu sem sjávarútvegurinn stendur nú frammi fyrir og ríkisstjórn hefur nýlega fjallað um.
    Nú hef ég gert grein fyrir nokkrum efnisatriðum sem mæla gegn skyldusparnaði af því tagi sem ég hef gert að umtalsefni og af þeim ástæðum spyr ég hæstv. sjútvrh.: Hvað líður undirbúningi þess að leggja af Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins?