Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 11:15:00 (959)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
     Frú forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svör hans við fsp. Ég veitti því athygli að meðal þeirra manna sem hann nefndi, sem starfa að endurskoðun á starfsemi þessa sjóðs, eru menn sem starfa bæði á vegum fyrirtækja og samtaka í greinum sjávarútvegsins. Ég hygg því að þekking þeirra manna sem þar starfa og reynsla þeirra af starfsemi sjóðsins komist á framfæri.
    Hins vegar vil ég segja það að orð sjútvrh. um hlutverk þessa sjóðs fyrir þjóðarbúið skil ég með aðeins öðrum hætti og bendi á að slíkir verðjöfnunarsjóðir eru ekki starfandi í öðrum útflutningsgreinum. Það eru ein af rökum mínum fyrir því að spyrja hvaða ástæður séu fyrir því að hafa slíkan skyldusparnað á einni af greinum okkar, að vísu þá veigamestu í útflutningi, fremur en öðrum greinum. Að öðru leyti fagna ég því að heyra að núna eigi að endurskoða reglur um þennan sjóð og vissulega er núna tekið undir ályktanir hagsmunaaðila um að stöðva inngreiðslur að sinni.
    Ég vil líka benda á að kjör sjávarútvegsins í dag, framleiðenda sérstaklega, eru þannig að hann stendur í blóðugri samkeppni við aðila sem njóta ríkisstyrkja eða niðurgreiðslna, þ.e. keppinautana í Evrópu. Hann starfar við skilyrði sem eru erfið vegna þess að allt frá haustinu 1988 hefur ekki verið gerð viðunandi lagfæring á rekstrarskilyrðum.