Könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 11:55:00 (968)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Virðulegi forseti. Þjóðfélagið hefur verið að breytast. Á stuttum tíma hefur þjóðfélagið tekið stórstígum breytingum, sannarlega stakkaskiptum. Það sjáum við í ytri lífskjörum, efnahag og öllum aðstæðum fólks í landinu. En það er ástæða til að spyrja í þessu sambandi: Hefur maðurinn gleymst, hafa hinar raunverulegu mannlegu þarfir gleymst í öllum framförunum? Það er einnig ástæða til að spyrja að því hvort maðurinn standi undir þeim kröfum lengur sem skefjalausir og kaldir hagsmunir gera til hans í auknum mæli á grundvelli lífsgæðakapphlaupsins. Þessar spurningar leita á hugann þegar till. til þál. um könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga er til umræðu. Hér er hreyft stóru máli og í því sambandi vil ég leggja áherslu á að hér verði rætt af nærgætni og tillitssemi.
    Þegar þetta mál er til umræðu vil ég leggja áherslu á það að við gleymum ekki þeim sem eiga um sárt að binda. Það eru aðstandendur sem í hlut eiga. Ég vildi leggja til að þegar þessi þáltill. verður tekin til umræðu í nefnd verði kannað og það skoðað á hvern hátt megi bæta og efla alla þjónustu við þetta fólk. Það er mikilvægt að kanna tíðni og orsakir sjálfsvíga en það er ekki síður mikilvægt að starfa markvisst að því að samhæfa og efla þjónustu við aðstandendur. Ég veit að þeir sem standa að þeirri þjónustu, sóknarprestar, starfsfólk heilbrigðisstétta, jafnvel lögreglan, félagsráðgjafar og margir fleiri, þeir standa oft í erfiðum sporum og þessi umræða er ekki komin lengra en að oft skortir ekki einungis orð heldur skortir oft ráð til að gera það sem hugsanlega má gera til að létta byrðar í sárri neyð.
    Það er rétt, sem komið hefur fram, að víða ríkir upplausn, fjárhagsáhyggjur, vímuefnaneysla fer vaxandi og það er alvarlegt þegar spurt er: Hvað veldur því að ungt fólk ákveður að svipta sig lífi? Ég hef stundum sagt að um þetta tekur í raun og veru enginn ákvörðun vegna þess að sá sem stendur andspænis slíkri ákvörðun ræður ekki við slíkt val. Slíkt val hlýtur að verða á grundvelli skelfilegrar örvæntingar.
    Það er eðli og grundvöllur mannsins að vilja lifa sínu lífi og þar berum við mikla ábyrgð sem með stjórnmál förum í landinu að vera vakandi með fyrirbyggjandi aðgerðum að upplausn og ringulreið gangi ekki svo langt sem því miður raun ber vitni víða. Hér er erfitt að greina um ábyrgð og í þessu sambandi hafa fæst orð minnsta ábyrgð.
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft brýnu máli, sem ekki hefur verið til umræðu hér í þeim mæli sem kannski væri ástæða til. E.t.v. vegna þess að okkur skortir orð, okkur skortir ráð. Því er mikilvægt að leitast verði við eins og kostur er að leita samráðs og samvinnu við alla þá aðila sem að þessum málum koma. Í þáltill. er nefnt að nefndin verði skipuð aðilum úr þeim stéttum er sérfróðar geta talist í þessum og skyldum efnum. Það verður að treysta því að slík samvinna megi eflast og styrkjast og koma að því gagni sem við öll vonum.