Könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 12:00:00 (969)

     Jón Kristjánsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. flm. þessarar þáltill. fyrir að færa þetta viðkvæma mál inn á vettvang Alþingis. Hér er hreyft þörfu máli, að gera slíka könnun sem hér um ræðir. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þessa till. og ég sé að meðflutningsmenn hv. 1. flm. eru úr öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi.
    Ég hef átt þess kost ásamt öðrum þingmönnum Austurl. að ræða þessi mál sérstaklega við þá aðila sem mest fjalla um þau á því svæði. Þeir hafa myndað starfshóp til að ræða þessi mál, ræða saman, miðla sinni reynslu og styrkja hver annan í þessu erfiða starfi að hafa samband við þá aðstandendur sem eiga um sárt að binda.
    Einnig var nýlega haldin mjög fjölmenn ráðstefna á Austurlandi sem hjúkrunarfólk þar gekkst fyrir um geðheilbrigðismál. Tilgangur hennar var sá að leiða saman þá aðila sem um þessi mál fjalla, miðla þekkingu og reynslu og starfa þannig að það skili nokkuð á veg. Þessi könnun sem hér um ræðir er einmitt einn þátturinn í því að skila mönnum nokkuð á leið.
    Það kom fram í máli hv. flm., 2. þm. Norðurl. v., og sömuleiðis í máli hv. 5. þm. Austurl., að orsakirnar eru flóknar og málið viðkvæmt og ég tek undir það. Það kom einnig fram í máli þeirra að breytingar hafa verið miklar í þjóðfélaginu. Efnahagslegar framfarir hafa orðið og miklar breytingar á lífsháttum þjóðarinnar en það er ekki endilega víst að þessir peningar og breyttu lífshættir og kapphlaup um góð lífskjör færi þjóðinni aukna hamingju.
    Hamingjan er áreiðanlega ekki síst fólgin í mannlegum samskiptum og traustum fjölskylduböndum. Það vill verða svo að þeir sem eiga að hafa forustu á ýmsum sviðum, og þar á meðal við stjórnmálamenn, eru kannski of uppteknir daglega í umræðum um efnahagsmál og gefa hinum mannlegu samskiptum ekki nægilegan gaum og hvernig einstaklingunum líður í þjóðfélaginu.
    Breytingin frá gamla bændaþjóðfélaginu yfir í alþjóðlegt samfélag sem íslenska þjóðfélagið er að verða og verður áreiðanlega í ríkari mæli á næstunni er breyting sem er mörgum þungbær á fáeinum áratugum og jafnvel fáeinum árum. Þessi kynslóð hefur áreiðanlega upplifað meiri breytingar í þjóðfélaginu en kynslóðirnar á undan okkur upplifðu á 1000 árum. Þetta hefur áhrif.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég tek undir það sem hv. ræðumenn, sem hafa talað hér á undan, hafa sagt. Ég vona að þessi þáltill. fái vandaða meðferð hér í Alþingi. Þetta er viðkvæmt mál og mjög vandasamt og það skiptir miklu hvernig þetta verk er unnið bæði í meðförum Alþingis og eins hvernig framhaldið verður ef svo fer, sem ég vona, að till. verði samþykkt. Miklu máli skiptir í þessu að leiða saman þá hópa sérfróðra manna og annarra sem hafa reynslu og þekkingu á þessum málum. Ég vil nefna hjúkrunarfólk, presta, lækna og lögreglu, sálfræðinga og félagsráðgjafa, sem allir hafa því miður frá reynslu að segja og einhverju að miðla í þessum málum. En mestu skiptir að um þetta mál sé fjallað af nærfærni.