Könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 12:07:00 (970)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Sú þáltill. sem hér hefur verið lögð fram er svo sannarlega tímabær. Það eru óhugnanlegar tölur sem birtast í grg. með þessari þáltill. Frá árinu 1970 aukast sjálfsvíg ungra karla í aldurshópnum 25--34 ára úr 34 í 48. Og í aldurshópnum 15--24 úr 18 í 64. Þessi mikla aukning sjálfsvíga ungra karlmanna á aldrinum 15--24 ára kallar á þá athugun sem lögð er til í þessari þáltill.
    Ef skoðuð eru þau línurit sem fylgja með þáltill. virðist tíðni sjálfsvíga í Noregi vera hlutfallslega mest í yngsta aldurshópnum, þ.e. 15--24 ára. En í Svíþjóð og Finnlandi er það aldurshópurinn 35--44 ára sem hefur hæsta tíðni. Það vekur upp spurningar um hvort eitthvað sé í eðli og umhverfi Norðmanna með svipuðum hætti og hjá okkur.
    Sú staðreynd að tíðni sjálfsvíga er miklu hærri hjá körlum en konum vekur líka upp spurningar hvers vegna karlmönnum er hættara við að leita slíkra leiða en konum. Allt þetta mál vekur svo brennandi spurningar að þeim verður að svara áður en hægt er að benda á leiðir til að snúa þessari þróun við.
    Við höfum verið að byggja upp velferðarkerfi á Íslandi sem við höfum haldið að

væri það eina rétta og uggvænlegt er að á sama tíma og velferð virðist aukast almennt verður aukning á sjálfsvígum ungmenna. Er það umræðan í þjóðfélaginu sem veldur? Er það fréttaflutningurinn? Eru það við stjórnmálamennirnir með svartsýnisrausið eða hvað er það? Eða sjá ungmennin engan tilgang með lífi sínu? Getur ekki verið að lífsgæðakapphlaupið sem einkennir okkur sé ein orsökin? Menn eru ekki gjaldgengir nema taka þátt í því. Við verðum a.m.k. að leita að rót vandans og reyna að bregðast við. Til þess er þessi tillaga fyrsta skrefið.