Könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 12:10:00 (971)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. flm. þessarar till. fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli og það gleður mig mjög að allnokkrir hafa talið ástæðu til að leggja orð í belg. Það sýnir vel þótt ekki séu margir í salnum að það eru þó margir sem láta sig þetta mál varða.
    Ég tel fulla þörf á að gerð verði könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga. Ekki síst með það fyrir augum að reyna að grípa til þeirra fyrirbyggjandi aðgerða sem unnt er. Sjálfsagt verður aldrei hægt að koma með öllu í veg fyrir að einstaklingar taki eigið líf, en áreiðanlega er hægt að minnka líkurnar á því, t.d. með því að missa aldrei sjónar á að í siðmenntuðu þjóðfélagi verða allir að fá tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi, efnahagslega og félagslega. Einnig með því að vinna að öflugum vímuvörnum og því sem ég ætla að leyfa mér að gera að umtalsefni hér, með því að unnið verði markvisst starf í skólum og annars staðar gegn ofbeldi og ekki síst einelti sem því miður er stundum undanfari sjálfsvíga.
    Við kvennalistakonur fluttum á tveimur þingum tillögu um átak gegn einelti og Alþingi sýndi ábyrgð sína gagnvart því máli með því að samþykkja þál. um átak gegn einelti þann 17. des. sl. Ég vænti þess að ef tillaga sú sem hér er til umræðu verður samþykkt, sem vonandi verður, geti liður í þeirri könnun verið að afla gagna um störf þeirra sálfræðinga og skólafólks sem vinna nú á ýmsan hátt gegn einelti í skólum landsins og vonandi verður það starf meira þegar frá líður.
    Í umræðum um átak gegn einelti tók ég m.a. fram að í Noregi og Japan hafi verið gert átak gegn einelti í kjölfar alvarlegrar öldu sjálfsvíga meðal skólafólks í þessum löndum. Kveikjan að átaki Norðmanna og Japana var raunar umfjöllun fjölmiðla um vaxandi einelti í þessum löndum og alvarlegar afleiðingar þess. Ofbeldi í hópi barna og unglinga, ekki síst einelti, var talið ein helsta orsök þess að sjálfsvígum skólabarna hafði fjölgað mjög. Þegar loks var gripið til aðgerða og gert átak gegn einelti varð árangurinn betri en menn höfðu þorað að vona. 85% skóla í Noregi tóku þátt í átakinu og þótt ekki liggi endanlegar niðurstöður fyrir held ég að ég megi fullyrða, og hef raunar heyrt frá sálfræðingum hérlendis sem hafa fylgst með málinu, að þarna hafi orðið verulegur árangur. Sjálfsagt er slíkt ekki alltaf mælanlegt en mér finnst ástæða til að þetta komi fram í þessari umræðu.
    Jafnframt benti ég á í umræðum um þetta mál að samkvæmt nýjustu fréttum í fyrra mátti sjá að sjálfsvígstíðni íslenskra drengja væri orðin sú þriðja hæsta í Evrópu. Um það voru fréttir á þeim tíma. Síðan hafa raunar komið fram upplýsingar sem benda til þess að ástandið hafi ekki batnað, e.t.v. orðið alvarlegra og tölur þær, sem hv. 1. flm. þessarar tillögu gat um í framsögu sinni, staðfesta það. Ekki síst er ástæða til þess að skoða hve alvarlegt ástandið er orðið meðal karlmanna í aldurshópnum 15--24 ára hér á landi.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um að sjálfsvíg ungs fólks má að einhverju leyti rekja til þess að ofbeldi og einelti viðgengst í skólum. Það er nöturlegt að heyra íslensk börn segja frá veruleika sínum --- í skóla og utan --- eins og fram kemur t.d. í skýrslu sálfræðinganna Ingþórs Bjarnasonar og Trausta Valssonar frá árinu 1985. Sú skýrsla heitir Börn og unglingar, rannsókn á líðan og félagslegri aðstöðu þeirra í Reykjavík og á Siglufirði.
    En meðal athugasemda sem þar komu fram um stríðni og hrekki sem börn og unglingar hafa orðið fyrir, íslensk börn og unglingar, eru þessar: Drengur í 1. bekk sagði: Stundum þori ég ekki að fara út ef einhver ætlar að meiða mig. Drengur í 2. bekk sagði: Ég er hræddur við stóran strák sem er alltaf að lemja mig. Annar sagði: Ég þori stundum ekki að fara út því það eru 14--15 ára strákar sem eru alltaf að lemja okkur og banna okkur að hjóla á götunni. --- Þetta var einnig drengur í 2. bekk. Stúlka í 2. bekk sagði: Þegar bekkjarbræður mínir safnast saman hér fyrir utan og kasta grjóti í gluggana --- hún var að segja frá því þegar hún var hrædd. Og önnur telpa í 2. bekk sagði: Bekkjarbróðir minn er með vasahníf, hann skar dekkið á hjólinu mínu.
    Þetta er sú skelfing sem þessi börn búa við. Og drengur í 5. bekk, eldri aldurshópi, sem er farinn að nálgast þann hóp sem virðist vera í mestri áhættu hér vegna sjálfsvíga, sagði: Ég þori ekki út þegar stríð er milli hverfanna. Einu sinni var vinur bróður míns nefnilega lokaður inni í skúr í sex tíma þar sem rottur skriðu um allt.
    Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir nokkru áfalli þegar ég las þessar athugasemdir barnanna í nefndri skýrslu. Ég hafði að vísu fengist við kennslu í unglingaskóla, en að heyra ummæli barnanna sjálfra á þessa lund, vakti mig alla vega til umhugsunar. En það þýðir ekki að mála skrattann á vegginn og halda að allt sé svart. Það er mikilvægt að sinna öllum þeim forvörnum sem unnt er af fullri alvöru. Til þess þarf að vita hvað getur orsakað að einstaklingar grípi til óyndisúrræða, jafnvel þess að taka sitt eigið líf. Ef hægt er að gera eitthvað til að bæta aðstæðurnar, t.d. í skóla, er full ástæða til að gera það.
    Mig langar að lokum að benda á nytsamar ábendingar sem fram komu í fyrirlestri Einars Gylfa Jónssonar sálfræðings sem hann flutti á ráðstefnu Samtaka heilbrigðisstétta, Æska án ofbeldis, þann 5. okt. 1990. En hann sagði þar m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að mínu mati eru eftirtaldir aðilar í lykilhlutverki hvað forvarnarstarf varðar: Stjórnvöld, þ.e. ríkisvald og sveitarfélög, foreldrar, skóli, meðferðaraðilar, fjölmiðlar, félagasamtök.
    Í fyrsta lagi eiga stjórnvöld nú þegar að hefja vinnu við að marka heildarstefnu í forvarnarstarfi. Í öðru lagi skal hér fjallað um þátt skólans. Um það hefur verið deilt hvert sé eðlilegt hlutverk skólans í forvarnarstarfi almennt. Hvort kennarar hafi faglegar forsendur til að fjalla um hin ýmsu vandamál sem upp koma í þjóðfélaginu og sem talið er að fjalla þurfi sérstaklega um við börn og unglinga. Þetta á ekki síður við um vímuefnavandann en það sem hér er til umfjöllunar, ofbeldi.
    Spurt er um hvort umfjöllun um ofbeldi, vímuefnaneyslu og fleira eigi að tilheyra ákveðnum fögum sérstaklega`` (Forseti hringir.) --- virðulegi forseti, það er aðeins örstutt eftir af þessu og ég tel mikilvægt að það komi fram, en skal þó reyna að stytta mál mitt aðeins. --- ,,eða hvort flétta eigi umfjöllunina inn í sem flest fög. Þessar deilur eru ófrjóar af þeirri einföldu ástæðu að allir hafa rétt fyrir sér. Vissulega á skólinn að fjalla um þessi mál eins og mörg önnur mikilvæg mál í þjóðfélaginu.``
    Jafnframt talar hann um að fjölmiðlar gegni mikilvægu hlutverki, einkum í því augnamiði að ná til almennings og hafa áhrif á hin almennu viðhorf. Félagasamtök hafa þegar sannað gildi sitt í forvarnarstarfi, segir Einar Gylfi, og bendir á Vímulausa æsku, Lionshreyfinguna og fleira, íþróttafélög og félagasamtök. En ekki síst bendir hann á foreldra og fjölskylduna sem lykilaðila í forvörnum.
    Mig langar að taka undir orð Einars Gylfa og bæta við að ég efast ekki um að prestar gegna hér einnig mikilvægu hlutverki. Ef eitthvað er unnt að gera ber að reyna það, en til þess þarf að þekkja vandann og er þessi tillaga vel fallin til að bæta úr. Ég fagna því að hún er komin fram og vona að hún fái brautargengi.