Könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 12:20:00 (972)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með öðrum þingmönnum sem hér hafa talað og þakka hv. 1. flm. þessarar þáltill., Hjálmari Jónssyni, fyrir hans frumkvæði svo og öðrum flm. að tillögunni. Ég tel að hér sé hreyft máli sem nauðsynlegt er að Alþingi velti fyrir sér og reyni að taka á, leita skýringa og síðan auðvitað leita leiða til að stemma stigu eftir því sem mögulegt er við þessum válegu atburðum.
    Í grg. með tillögunni er reynt að velta fyrir sér hverjar kunni að vera orsakir sjálfsvíga og þá ekki síst sjálfsvíga ungs fólks sem er kannski í þessu tilviki hjá okkur sérstakt áhyggjuefni en auðvitað hljóta sjálfsvíg alltaf að vera það. Í grg. segir m.a. að ýmislegt sé vitað um þann feril sem leiðir til sjálfsvíga, svo sem sjúklegt þunglyndi og fleiri ástæður eins og notkun áfengis- og vímuefna, arfgengi, félagslegar kringumstæður, vonbrigði o.fl.

    Við vitum að stundum eru það jafnvel sjúkdómar, fólk sem haldið er alvarlegum sjúkdómum grípur til óyndisúrræða af þessu tagi. En það er sjálfsagt líka eitthvað í okkar þjóðfélagslegu umgjörð sem hefur valdið því að sjálfsvíg virðast vera algengari hér en í nágrannalöndunum og Ísland talið skera sig úr. Það kann að vera fjárhagsleg upplausn á heimilum eða fjárhagsstaðan almennt, atvinnu- og efnahagsástandið í þjóðfélaginu. Þó hælum við okkur af því að búa við eitthvert besta velferðarþjóðfélag í heimi með mjög fullkomið og gott velferðarkerfi, gott skólakerfi og góða heilbrigðisþjónustu. Þannig að sumt virðist stangast hrikalega á í þessu efni. Vímuefnin hafa vafalaust líka sín áhrif.
    En hvernig er ástandið í fjölskyldumálum hjá okkur? Hvernig er ástandið hjá þessu unga fólki sem grípur til slíkra óyndisúrræða? Hverjir geta haft áhrif? Hvert kann að vera hlutverk kvikmynda, myndbanda, fjölmiðla almennt í þessu efni? Ég velti þessu upp en þetta eru auðvitað bara vangaveltur og hugrenningar mínar. Maður skilur stundum ekki það myndefni sem kvikmynda- og myndbandaframleiðendur velja sér, skilur hvorki hugarfarið á bak við framleiðsluna né hugarfarið hjá því fólki sem sækir eftir að horfa á myndir af því tagi sem við vitum að eru á markaði.
    Ég hef líka oft velt því fyrir mér hvernig er með fréttamat fjölmiðla, þó svo að mér detti ekki í hug að gera fjölmiðla að neinum sérstökum blóraböggli í þessu sambandi, heldur velti þessu aðeins upp sem einum orsakaþætti. Eru fréttir nægjanlega jákvæðar? Erum við ekki oftar að velta okkur upp úr vandamálum og neikvæðum fréttum? Fréttamatið hlýtur að vera erfitt verkefni. Ég minnist þess að hafa eitt sinn erlendis hitt kunningja mína sem sögðu mér frá því að þau horfðu ekki lengur á sjónvarpsfréttir í því landi vegna þess að þar var ekki sagt frá neinu öðru en morðum, ofbeldi og slysum og þeim fyndist sá fréttaflutningur ekki eiga neitt erindi inn á sitt heimili. Við megum auðvitað gæta okkar á því líka. Kemur okkur meira við flugslys í Kína, járnbrautarslys á Indlandi eða eitthvað af því tagi, eða einhverjar jákvæðar fréttir úr okkar íslenska þjóðfélagi? Ég hygg að við mættum huga að því, auðvitað með fullri vinsemd við fréttamenn og fullri virðingu fyrir þeirra hlutverki, því vandasama hlutverki að velja úr fréttir og segja þjóðinni hvað þeir telja að sé fréttnæmt.
    Af störfum mínum sem heilbrrh. þekki ég að heilbrigðisstéttir hafa velt þessu vandamáli mikið fyrir sér. Landlæknir hefur skoðað þessi mál sérstaklega og hef ég rætt við hann oftar en einu sinni og oftar en tvisvar um þetta. Ég veit að geðlæknar og annað heilbrigðisstarfsfólk, sem starfar á þessu sviði, hefur einnig gert það mjög mikið og m.a. haldið fundi með fólki, með aðstandendum sem oft eiga um sárt að binda og með ýmsum aðilum í þjóðfélaginu sem þurfa að koma að þessu, eins og kennarar, prestar, lögreglumenn eða löggæslufólk og fleiri og fleiri.
    Ég tel að eitt það mikilvægasta sem við þurfum að gera sé að leggja áherslu á heilbrigt mannlíf, hvers konar. Ég beitti mér fyrir því í heilbrrn. að efna til samstarfs við ungmenna-, íþrótta- og æskulýðshreyfinguna í landinu um verkefni sem við kölluðum ,,Heilbrigða lífshætti æskufólks``. Það er auðvitað erfitt að mæla hvort svoleiðis viðfangsefni hafa áhrif eða hvaða áhrif þau hafa, en ég vænti þess þó að þar hafi verið farið inn á nokkuð nýjar brautir þar sem heilbrrn. beitir sér fyrir samstarfi við slík samtök sem þó fyrst og fremst hafa unnið á sviði menntmrn.
    Ég vil að lokum undirstrika mikilvægi þess að stjórnvöld og allir aðilar sem að málinu kunna að koma, svo sem fulltrúar ráðuneyta, taki höndum saman með öðrum þeim aðilum í þjóðfélaginu sem geta og vilja leggja sitt af mörkum til þess að sporna hér við fæti og gera allt sem hægt er til að draga úr þeim válegu atburðum sem hér er fjallað um. Ég vil lýsa stuðningi mínum við efni þessarar þáltill. og vona að hún fái hér brautargengi og afgreiðslu.