Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 17:57:00 (987)

     Steingrímur Hermannsson :
     Herra forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að tala um byggðamálin eftir svo margar og góðar ræður sem hér hafa verið fluttar. Ég vildi þó koma á framfæri nokkrum atriðum en mun reyna að forðast það sem ég hef heyrt aðra ræða.
    Í fyrsta lagi vil ég koma aðeins að ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hv. 3. þm. Reykv. batt sig við það sem hann taldi vera efni þessa fundar, þessarar umræðu, þ.e. skýrslu Byggðastofnunar eina og vitanlega má segja að svo sé. Hæstv. forsrh. hins vegar fór vítt yfir sviðið og ræddi um byggðamálin almennt og ég er hæstv. forsrh. sammála. Ég held að það sé útilokað að ræða um Byggðastofnun og verk hennar án þess að ræða byggðamálin almennt. Því að vitanlega er það staðreynd að Byggðastofnun, þótt afar mikilvæg sé, er ekki nema einn þáttur í byggðastefnunni og byggðamálunum þegar á heildina er litið. Það er t.d. alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að samgöngumálin eru einn stærsti þátturinn þar. Ég vek athygli á því að það er ekki fyrst nú sem lögð er áhersla á samræmdar aðgerðir í byggðamálum. Það hefur verið gert í gegnum árin. T.d. var lögð mikil áhersla á það af þeim nefndum sem ég skipaði á síðasta ári og skiluðu ítarlegri skýrslu um þessi mál.
    En vegna þess sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um Byggðastofnun vil ég fyrst segja það að ólíkt er okkar mat á fjármagni til byggðamála. Ég tel 12 milljarða á 20 árum ekki mikla upphæð og er sannfærður um að þeirri upphæð hefur verið mjög vel varið. Ég er ekki að segja að allar lánveitingar Byggðastofnunar hafi verið réttar. Það væri líka afar

óvenjulegt ef svo væri. En af því að hv. síðasti ræðumaður spurði hvað hafi valdið því að nokkurt byggðajafnvægi var í lok áttunda áratugarins eða svo, þá er t.d. athyglisvert að fjárveitingar hins opinbera til byggðamála voru hvað hæstar árin á undan. Ég held að þær hafi verið hvað hæstar á árunum 1976, 1977, 1978 og þar um bil. Það er staðreynd að töluverðu fjármagni þarf að verja til þessara mála ef marktækur árangur á að nást. Ég tek sannarlega á mig sök af því eins og aðrir sem hafa setið í ríkisstjórn að úr þessu framlagi hefur of mikið verið dregið síðustu árin. En við vildum þó brjóta í blað á síðasta ári og þá var ákveðið að yfirtaka, ef ég man rétt, 1200 millj. af skuldum Byggðastofnunar sem núv. ríkisstjórn hefur því miður lækkað niður í 800 millj., hygg ég. ( Gripið fram í: Nei.) Er það ekki? (Gripið fram í.) Verður það óbreytt? (Gripið fram í.) Það er gott. En einhvern tíma sást að lækka ætti þessa upphæð en ég fagna því mjög ef hún er áfram í 1200 millj. og satt að segja held ég að veiti ekki af. Ég segi því fyrir mitt leyti að stórum meira sé ég eftir 60--70 millj. á ári í byggðaþróun Suður-Evrópu heldur en 12 milljörðum á 20 árum til byggðamála hér á landi. Það er að vísu ekki víst að úr því verði en gæti orðið ef við gerumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði.
    Það er líka fleira sem vert er að draga fram í sögu Byggðastofnunar. Þegar Framkvæmdastofnun ríkisins var sett á fót 1971 var það gert í tengslum við byggingu álbræðslu í Straumsvík. Þá voru allir mjög sammála um að bygging þeirrar álbræðslu mundi raska byggðajafnvægi hér á landi og allir, hygg ég, sammála um að væri rétt að verja nokkrum hluta af tekjum frá álbræðslunni í Straumsvík til byggðamála og það var gert í fyrstu. Síðan var horfið frá því og það rann beint í ríkissjóð, en ákveðið síðan að 2% af útgjöldum ríkissjóðs skyldu renna til Byggðastofnunar. Því miður hélst það ekki, held ég, nema 1--2 ár eða svo. Það hefur stöðugt úr því dregið og það ákvæði hefur ekki haldið.
    Ég bendi líka á það, af því að mikið hefur verið talað hér um að byggðastefnan hafi brugðist, að að sjálfsögðu verður að endurskoða byggðastefnuna jafnt og þétt því að aðstæður í þjóðfélaginu breytast mikið. Og eins og byggðastarfsemin tókst, með því að ná jafnvægi á árunum í kringum 1980, þá hefur hallað undan fæti nú upp á síðkastið. Það var af þeirri ástæðu sem ég skipaði nefndir í upphafi síðasta árs og fól þeim að endurskoða starfsemi Byggðastofnunar og byggðastefnuna almennt. Það var af þeirri grundvallarástæðu að aðstæður í þjóðfélaginu breytast. Það er alls ekki þar með sagt að ýmislegt sem gert hefur verið á undanförnum árum hafi ekki tekist vel, þvert á móti hygg ég að það hafi tekist með ágætum. Og það er raunar vert að ræða aðeins um það hvernig áherslur að þessu leyti hafa breyst.
    Í kringum 1980 töldu menn að mikilvægast væri að leggja áherslu á samgöngur og fjarskipti í byggðamálum. Þá kom það reyndar í minn hlut að flytja hér á Alþingi þáltill. um langtímaáætlun í vegamálum. Hún var lögð fram tvisvar og þó hún væri ekki formlega samþykkt, þá hefur síðar verið farið eftir henni. Einnig kom það í minn hlut að leggja fyrir Alþingi frv., sem var samþykkt, um að ljúka því að koma sjálfvirkum síma á alla bæi á landinu á fimm árum og ég hygg að hafi verið gert á fjórum. Þá var einnig lögð mikil áhersla á að ljúka því að koma t.d. sjónvarpi um land allt. Þetta voru áhersluatriðin sem allir voru sammála um í kringum 1980 og ég hygg að hafi verið rétt. Hins vegar hygg ég að á árunum sem fylgdu hafi ekki tekist að taka nægilegt tillit til þeirra aðstöðubreytinga sem þetta olli víða um land. Samgöngur tóku minni tíma og það var unnt t.d. að versla miklu fjær sinni heimabyggð. Ég er þeirrar skoðunar að verslunin hafi brugðist of seint við þessum breytingum og reynt of lengi að halda allri verslun heima og hafi það valdið erfiðleikum hjá verslunarfyrirtækjum á fjölmörgum stöðum um landið. Ég nefni þetta sem dæmi.
    Nú hefur því miður undanfarin ár aftur hallað undan fæti. Ég veit að hér hefur verið gerð grein fyrir tillögum þeirrar nefndar sem ég skipaði og skal ég ekki fara ítarlega út í það en aðeins nefna örfá atriði. Í fyrsta lagi það að ég flutti á síðasta þingi frv. til laga um breytingu á lögum Byggðastofnunar sem var samþykkt. Þar var lögfest m.a. að Byggðastofnun bæri að gera áætlun til fjögurra ára um þróun byggðar á landinu öllu. Þarna er að sjálfsögðu verið að leitast við að sjá enn betur framtíðarvandann, eins og hér var réttilega nefnt áðan, og bregðast við honum fyrr. Þetta er nú komið í lög Byggðastofnunar og mér þykir ánægjulegt að sjá af skýrslunni að Byggðastofnun hyggst framkvæma þetta. En ég

geri mér grein fyrir því að það mun taka töluverðan tíma að vinna slíka byggðaáætlun fyrir landið allt svo að marktæk sé.
    Einnig vek ég athygli á því að gert er ráð fyrir því að Byggðastofnun starfi meira um landið allt. Byggðastofnun hefur þegar komið á fót útibúum á nokkrum stöðum um landið og hyggst fjölga þeim og hefur hún þegar hafið miklu nánara samstarf og reyndar hafa iðnþróunarráðgjafar verið færðir til Byggðastofnunar. Með þessu móti, eins og lagt var til í tillögunum, er að sjálfsögðu verið að framkvæma það sem hæstv. forsrh. talar nú um sem nýja stefnu í byggðamálum. Þegar er búið að samþykkja að Byggðastofnun starfi víðar um landið, að heimaaðilar komi miklu meira inn í alla áætlanagerð en gert hefur verið, nefndir eða stofnanir verði settar á fót heima fyrir og stór hluti af Byggðastofnun starfaði víða um land. Ég er því algjörlega sammála því sem hæstv. forsrh. boðar þar, en geri bara þá athugasemd að í raun er þar verið að framkvæma stefnu sem hv. Alþingi hefur þegar ákveðið og sett í lög.
    Ég vek líka athygli á því að í þeim liðum sem taldir eru í skýrslu annarrar nefndarinnar er æðimargt sem ég vona svo sannarlega að verði til leiðbeiningar fyrir starfsemi Byggðastofnunar og fyrir byggðastefnuna almennt í landinu. Sumt af þessu hef ég þegar nefnt og er komið í lög. Ég ætla ekki að fara að lesa þetta því að ég veit að það er búið að gera það, en ég vek athygli á slíkum atriðum eins og að meiri hluti nýrra starfa í opinberri þjónustu verði á landsbyggðinni. Ég held að afar mikilvægt sé að færa þjónustuna til landsbyggðarinnar. Og þó að mér sé ljóst að það kunni að vera erfitt að framkvæma þetta nákvæmlega í hverju tilfelli, þá hygg ég þó að þetta sé vel framkvæmanlegt þegar yfir árið, svo ég tala ekki um 2--3 ár, er litið, þannig að menn mega ekki ofmikla þetta fyrir sér.
    Ég vil einnig leggja áherslu á jöfnun raforkuverðs og sameiningu orkufyrirtækja. Það er enginn vafi á því að þarna þarf að ganga miklu lengra en tekist hefur til þessa og enginn vafi á því að jöfnun raforkuverðs er eitt mikilvægasta byggðamálið í dag. Og loks það að sjálfsögðu, eins og fram hefur komið hér í ræðum, að gæta byggðasjónarmiða í almennri efnahagsstjórn.
    Mig langar síðan til að snúa mér að nokkrum atriðum í ræðu hæstv. forsrh. Ég var því miður ekki viðstaddur þegar hann flutti hana en ég hef fengið hana og farið vandlega yfir.
    Hæstv. forsrh. deilir eins og fyrri daginn mjög á verk fyrri ríkisstjórnar og hefur mál sitt á þeirri margspiluðu plötu að fjármagni hafi verið sóað í gegnum Atvinnutryggingarsjóð og Hlutafjársjóð og Framkvæmdasjóð reyndar og að því er mér skilst flesta opinbera sjóði. Þessu hefur reyndar, heyrði ég, þegar verið svarað að nokkru og m.a. vakin athygli á því að ríkisendurskoðandi skýrði svo breytta afstöðu sína að þessi ríkisstjórn hefði lýst því yfir að hún ætlaði ekki að hafa afskipti af atvinnuvegunum. Og það hefur verið margyfirlýst stefna núv. ríkisstjórnar. Ég undrast satt að segja ekki þótt enn meiri afföll yrðu af ýmsum lánum Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs og fleiri sjóða í landinu ef þessari stefnu verður framfylgt. Hins vegar verð ég var við það nú að hæstv. forsrh. er kominn þarna á nokkurn flótta og samkvæmt fréttum í morgun eru nú boðaðar aðgerðir sem að vísu hefur ekki verið lýst nákvæmlega, en ég fagna öllu slíku.
    Þarna er fráhvarf frá því að ekki eigi að vera samstarf ríkisvalds og atvinnulífsins á slíkum erfiðleikatímum sem nú ganga yfir. Þetta er satt að segja grundvallaratriði. Við höfum að vísu ekki séð hversu ítarlegt og gott þetta samstarf verður og hvernig það verður skipulagt en hvað sem er gert að þessu leyti er af hinu góða að mínu mati. Ég tel hins vegar að þetta samstarf þurfi að vera mjög náið. Og ég vil enn einu sinni vekja athygli á þeim aðgerðum sem viðreisnarstjórnin greip til við svipaðar aðstæður 1967. Kannski fer svo að tölur ríkisendurskoðanda um lán sem þarf að afskrifa hjá Atvinnutryggingarsjóði og Framkvæmdasjóði verði töluvert lægri en ríkisendurskoðandi telur að teknu tilliti til nýrrar afstöðu ríkisstjórnarinnar.
    Ég vil hins vegar vekja athygli á því að sú aðgerð sem nú er boðuð, að framlengja afborgunarlausan tíma af lánum Atvinnutryggingarsjóðs, er vitanlega sértæk aðgerð. Hún er ekki almenn. Hún tekur eingöngu til þeirra fyrirtækja sem notið höfðu þessarar fyrirgreiðslu Atvinnutryggingarsjóðs. En það voru mörg fyrirtæki sem töldu sér ekki nauðsynlegt að sækja um þá skuldbreytingu á síðustu tveimur árum. Vel má vera að þau fyrirtæki séu nú í erfiðleikum. Og ég vil gjarnan spyrja hæstv. forsrh. hvernig eigi að mæta erfiðleikum þeirra fyrirtækja. Væri ekki rétt að við þessar aðstæður fengi Atvinnutryggingarsjóður eða Byggðastofnun fjármagn til þess að skuldbreyta hjá ýmsum fyrirtækjum sem urðu út undan, skulum við segja, af ýmsum ástæðum og fyrst og fremst af því að þau sóttu ekki um í tíð fyrri ríkisstjórnar eða á meðan Atvinnutryggingarsjóður starfaði?
    Ég vil einnig vekja athygli á því að frændur okkar Norðmenn hafa nú gripið til mjög víðtækra aðgerða til að bjarga sínu fiskeldi frá gjaldþroti og ætla að verja til þess úr ríkissjóði og bönkum 6--7 milljörðum kr. Ég veit ekki hvort hv. 3. þm. Reykv. kallar það kommúnisma eða hvað það á að vera, sósíalisma líklega í Noregi, en þar er þeirri stefnu fylgt að leggja áherslu á samstarf ríkisvalds og atvinnulífsins. Norska ríkisstjórnin tekur þessa ákvörðun að því er hún segir af því að hún hefur sterka trú á framhaldi fiskeldis. Hún trúir því sem sagt að fiskeldið komist yfir þessa kreppu og mikilvægt sé að halda fiskeldi í landinu.
    Íslenska ríkisstjórnin ákvað að veita 300 millj. í þessu skyni. Það er dropi í hafið, leyfi ég mér að fullyrða. Og ég vildi gjarnan fá að vita hvort nú, í þessum sinnaskiptum ríkisstjórnarinnar, verði þetta atriði ekki einnig tekið til endurskoðunar og meira fjármagni veitt til þess að aðstoða þau fiskeldisfyrirtæki sem líklegust eru til að geta spjarað sig, til að komast yfir þá erfiðleika sem nú eru. Ég leyfi mér að fullyrða að 300 millj. er allt of lítið. Hæstv. forsrh. hefur oft --- ja, hvað eigum við að segja --- kvartað undan því að fyrri ríkisstjórn hafi ekki afgreitt þetta mál. Það er rétt hjá honum að við náðum ekki að afgreiða það. En í meðferð okkar á málinu töldum við í kringum 1 milljarð vera lágmark til að þessi aðgerð yrði í raun marktæk.
    Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það atvinnuástand sem líklegt er að hér verði á næstu missirum, það var mikið rætt í sambandi við byggingu álbræðslu. Það fer náttúrlega ekkert á milli mála að þar fer skriða af stað sem getur orðið afar varasöm, og ekki bara á Suðurnesjum þó að þar sé ástandið e.t.v. hvað verst heldur víða um landið. Einnig er ljóst að svo mun verða af öðrum ástæðum eins og t.d. af erfiðleikum í þeim greinum sem ég hef nefnt hér. Ég hef ekki séð nýlegar spár um atvinnuleysi á næstu missirum og kannski árum, en væri mjög fróðlegt að fá að vita, því ég efa ekki að ríkisstjórnin hefur eitthvað slíkt undir höndum, hverjar þær spár eru.
    Þegar ný ríkisstjórn tók við haustið 1988 var því spáð að atvinnuleysingjum mundi fjölga mjög mikið. Og það var ein af meginástæðunum fyrir því að sú ríkisstjórn ákvað að grípa til fjölþættra aðgerða í íslensku efnahagslífi. Og með þeim aðgerðum tókst að draga mjög mikið úr atvinnuleysinu og reyndar svo mikið að það varð ekki mjög tilfinnanlegt þó það ykist nokkuð síðar. En ég vil vekja athygli á því að ætíð hefur það verið talin skylda ríkisstjórna að sinna þeim málum. Við höfum að minnsta kosti ekki enn þá fallist á þá kenningu að mátulegt atvinnuleysi sé hagstjórnartæki sem okkur hentar. Mér er ljóst að það er skoðun margra sem aðhyllast nýkapítalismann eða frjálshyggjuna og fróðlegt væri að vita frá hæstv. forsrh. hvort það er stefna þessarar ríkisstjórnar.
    Ég sagði fyrr að byggðastefnan væri samofin öðrum málefnum og það er einnig nefnt í ræðu hæstv. forsrh. En einmitt þess vegna vil ég líka leggja áherslu á að opinberar aðgerðir hafa gífurlega mikil áhrif, ekki aðeins á byggðarþróun heldur einnig á alla atvinnuþróun í landinu. Til dæmis nefnir hæstv. forsrh. gengismálin og peningamálin. Og það er alveg hárrétt. Gengismálin hafa gífurleg áhrif á byggðarþróun í landinu. Enginn vafi er á því að rangt gengi er mjög erfitt landsbyggðinni því að landsbyggðin byggir fyrst og fremst á útflutningi. Landsbyggðin framleiðir útflutningsvöru og flytur úr landi miklu meira en þéttbýlissvæðin. Og þegar gengið er ekki rétt skráð þá hefur það áhrif. Þannig var það t.d. haustið 1988 að sú ríkisstjórn sem þá tók við sá sér ekki annað fært en að leiðrétta það, að vísu í áföngum til að forðast þau áföll sem gengisfellingu fylgja, að forðast þá verðbólgu sem því fylgir að fella gengið í áföngum og með fjölmörgum hliðarráðstöfunum.
    Ég er ekki að boða hér gengisfellingu því að mér er ljóst að hún er afar erfið í meðförum og getur komið mjög illilega í bakið á okkur þó tækist sæmilega vel á árunum 1989 og fram á árið 1990. Hins vegar koma mér í hug margar, langar og miklar og

harðar ræður sjálfstæðismanna hér í sölum Alþingis haustið 1988, þar sem þessir menn helltu sér yfir ríkisstjórnina og kröfðust 15% gengisfellingar, m.a. man ég að hvað háværastur í þeim kór var hæstv. núv. landbrh. Hann er að vísu ekki staddur hér en gaman væri að vita hvað hann segir um þetta ástand nú í ríkisstjórninni. Krefst hann t.d. eða aðrir gengisfellingar? Ég vil hins vegar segja að ef út í það er farið þá verða að fylgja því mjög viðamiklar hliðarráðstafanir til þess, eins og ég sagði áðan, að þær komi ekki í bakið á okkur.
    Vitanlega eru peningamálin afar stórt atriði í þessum málum. Núv. hæstv. ríkisstjórn gerði sér lítið fyrir þegar hún tók við völdum og hækkaði vextina um u.þ.b. 50%. Sumir halda að vaxtahækkunin úr 7,8% raunvextir upp í 10--11% sé ekkert voðalega mikil, en þegar menn líta á það að þetta er u.þ.b. 50% hækkun raunvaxta, þegar tekið er tillit til hækkunar á vöxtum óverðtryggðra lána sem voru tiltölulega lágir og fóru upp í miklu hærri raunvexti en verðtryggðu lánin. Og þegar þess er gætt að fyrirtæki sem skuldar, ja, við skulum segja 100 millj. kr., sem er ekki mikið og algengt og líklega mjög lág upphæð, það greiddi áður af þessari upphæð í kringum 7--8 millj. kr., en greiðir núna a.m.k. 12--13 millj. kr., ef ekki meira, sérstaklega ef afurðalánin eru mikil hjá slíku fyrirtæki. Þá sést strax hvað munar mikið um þessa hækkun. Þetta hefur ekki bara áhrif á byggðamálin heldur atvinnumálin öll í landinu.
    Ég leyfi mér að fullyrða að þessir háu vextir nú séu áreiðanlega þeir hæstu sem þekkjast í nokkru viðskiptalandi okkar Íslendinga. Það er mjög gott yfirlit yfir þetta í Morgunblaðinu í dag á viðskiptasíðum þess, í lituðum súlum. Þar kemur fram að vextir eru af þeirri stærðargráðu sem ég hef nefnt en reyndar einnig að kostnaður af vöruvíxlum er talinn vera allt upp í 35% raunvextir. Dettur einhverjum manni í hug að einhver geti nýtt sér þá fyrirgreiðslu sem bankar hafa mjög í hendi sér að beina að mönnum án þess að það komi einhvers staðar við? Vitanlega kemur það einhvers staðar við. Staðreyndin er vitanlega sú að þeir erfiðleikar sem atvinnufyrirtækin eiga nú í, m.a. útflutningsfyrirtækin, stafa ekki eingöngu af samdrætti í afla, ég er ekki að gera lítið úr því, en þeir stafa ekkert síður af þeirri gífurlegu sprengingu sem hefur orðið hér á vaxtakostnaði.
    Á sama tíma og þetta gerist var mjög áberandi í Bandaríkjunum að Bandaríkjamenn leggja á það áherslu að lækka vexti. Og meira að segja Bush, forseti Bandaríkjanna, gengur enn þá fram fyrir skjöldu og þvingar fram vaxtalækkun með handafli --- sem að vísu var sagt í þessum sölum fyrir einu ári að gæti ekki átt sér stað. En hann kemur fram í sjónvarpi, ég horfði á það þegar ég var þar fyrir nokkrum dögum, og stærir sig af því að vera að lækka vexti. En hér, í þessu fyrirmyndarfrjálshyggjuþjóðfélagi er okkur sagt að slíkt sé bara alls ekki hægt. ( Gripið fram í: Er Bush kommúnisti?) Ja, ætli það ekki. Þetta er bara einhvers konar náttúrulögmál, sagt hér, að vextir hljóti að verða svona háir. Það er staðreynd að hallinn á fjárlögum Bandaríkjanna er ekkert lítill. Ætli hann sé ekki jafnvel meiri en hér. Því er kennt um að vextir eru svona háir hérna að hallinn sé mikill. Hallinn á fjárlögum Bandaríkjanna er gífurlegur og hallinn á viðskiptum Bandaríkjanna er svo mikill að allur heimur hefur miklar áhyggjur af. Samt sem áður finna þeir sig knúna til að lækka vexti af því að það er stöðnun í þeirra þjóðarframleiðslu. Hér er samdráttur.
    Ég tel að það langsamlega besta sem þessi ríkisstjórn gæti gert væri að sýna handaflið og lækka vexti, bæði það besta fyrir byggðarþróunina í landinu og fyrir atvinnuvegina alla; miklu mikilvægara en jafnvel þær takmörkuðu aðgerðir sem ríkisstjórnin er að grípa til nú.
    Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á afskiptaleysi af atvinnulífinu þó að nú hafi sem betur fer komið flótti í liðið í því sambandi. Mér dettur í hug þegar hv. 3. þm. Reykv. las úr gamalli ræðu minni að hv. þm. virðist aldrei sjá neitt á milli kapítalismans eða hinnar óheftu efnishyggju og sósíalismanns. Ég vil vekja athygli á því að hið blandaða hagkerfi er í raun og veru alls staðar við lýði. Jafnvel þar sem menn hafa einhvern tímann leitast við að fylgja óheftum kapítalisma er hið blandaða hagkerfi meira og minna við lýði. Svo er t.d. í Bandaríkjunum.
    Í Bandaríkjunum eru nú háværar umræður um að horfið verði frá einkavæðingunni í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Umræðan í Bandaríkjunum fyrir kosningarnar nú fyrir nokkrum dögum var ekki síst um það að þriðjungur Bandaríkjamanna hafi ekki lengur

neina heilsugæslu, hafi ekki aðgang að neinu heilbrigðiskerfi, hafi ekki fjármagn til að kaupa sig inn á hina dýru einkaspítala og njóti ekki þeirra trygginga sem þeir sem lægstu tekjurnar hafa. Er það þetta sem hæstv. ríkisstjórn er að tala um með einkavæðingunni? Og í Bandaríkjunum er talað um það að 30% nemenda sé hvorki læsir né skrifandi. ( Gripið fram í: Það er einkavæðing skólakerfisins.) Það er einkavæðing skólakerfisins og lélegir opinberir skólar í kjölfar þessarar einkavæðingar. Hver sem þar hefur nokkurt fjármagn, og jafnvel þó hann hafi það ekki, reynir að koma börnum sínum í einkaskóla og borgar mikið fyrir. En það geta bara ekki allir. Er það þetta sem einkavæðingin á að leiða yfir okkur Íslendinga? Þá erum við að sjálfsögðu að tala um miklu stærri hluti en skýrslu Byggðastofnunar, mér er það ljóst, en allt kemur þetta því í raun og veru við og er ástæða til að minnast á.
    Hæstv. forsrh. boðar að flytja Byggðastofnun til Akureyrar. Ég lét á mínum tíma einmitt athuga það og þótti sú hugmynd vel athugunarverð. Gerð var athugun hjá Byggðastofnun á því hve margir starfsmenn væru tilbúnir að flytja með og ef ég man rétt þá svöruðu því allir neitandi nema einn. Menn verða náttúrlega að gera sér grein fyrir því að það er dálítið erfitt að flytja starfslið sem hefur komið sér vel fyrir, á sínar íbúðir o.s.frv. En kannski má gera þetta ef hæstv. forsrh. vill veita þeim ríflegan styrk eins og landsbyggðarmönnum að flytja hingað? Ef hann vill gera það og snúa þessu við og veita þessum starfsmönnum ríflegan styrk til að flytja til Akureyrar. Ég er a.m.k. sannfærður um að eitthvað slíkt verður að fylgja ef vit á að vera í þessum flutningi. Og þá gæti maður hrópað húrra fyrir forsrh. ef hann veitir þessu fólki ríflegan styrk til að flytja norður. Staðreyndin er sú að það er óvíða betra að búa en þar ef fólk hefur tök á því að flytja.
    Ég vil vekja athygli á því að eftir að þessu var hafnað hjá Byggðastofnun þá tók Byggðastofnun upp þá stefnu að setja upp skrifstofur eða útibú um landið allt og í tengslum við þær skrifstofur hafa ýmsar aðrar opinberar stofnanir og ráðuneyti sett upp aðstöðu fyrir sína afgreiðslu. Þetta tel ég vera afar merka nýjung. Við þyrftum þá a.m.k. að tryggja það að slík skrifstofa gæti verið hér í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Ég tel að þetta þurfi að hugsa miklu betur en mér sýnist hafa verið gert ef meta má af ræðu hæstv. forsrh.
    Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég nenni ekki að eltast lengur við þetta með sóun fjármuna. Það er ekki verðugt af hæstv. forsrh. að tala svo. Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram hér að ef þessum milljörðum hefði ekki verið varið til að koma í veg fyrir það hrun sem við blasti á landsbyggðinni hefðu bein útgjöld ríkissjóðs orðin langtum, langtum meiri. Ég vek athygli á því að ríkissjóður er ábyrgur fyrir launagreiðslum og þær hefðu numið gífurlegum fjárhæðum. Ég vek einnig athygli á því að ríkissjóður hefði orðið að tryggja Atvinnuleysistryggingasjóði miklu meira fjármagn en hann hafði. Ég skal ekki segja hvað það hefði orðið mikið, en það hefði áreiðanlega skipt milljörðum. Jafnvel þótt litið sé á þessar aðgerðir, á fjármagnshliðina eina eða útgjaldahlið ríkissjóðs, er þess vegna enginn vafi á að þetta var skynsamleg aðgerð.
    Ég ætla svo að lokum að leyfa mér að koma að örfáum atriðum sem mér komu afar mikið á óvart í því sem ég hef heyrt úr reglugerð þeirri sem hæstv. forsrh. hyggst gefa út. Hún hefur verið það mikið til umræðu að okkur hlýtur að vera frjálst að ræða hana hér og reyndar kom síðasti hv. ræðumaður nokkuð að því. Ég vil geta þess að ég lét á sínum tíma hina færustu lögfræðinga skoða mjög vandlega hvað mér sem forsrh. væri kleift að ákveða í reglugerð. Í þeirri reglugerð sem ég hef séð er gengið miklu, miklu lengra. Ég trúi því satt að segja ekki að hæstv. forsrh. sé heimilt að takmarka svo svigrúm stjórnar Byggðastofnunar, sem er þingkjörin stjórn til útlána, að útlánin megi eingöngu byggjast á byggðaáætlunum. Ef ég veit rétt eiga þær helst að vera samþykktar fyrir fram, en ef ekki samþykktar þá a.m.k. að liggja fyrir og afgreiddar af stjórn stofnunarinnar. Hæstv. forsrh. hlýtur sem lögfræðingur að hafa litið á þetta, en ég leitaði til lögfræðinga sem ég tel engu síðri og ég trúi því ekki --- mér datt þetta að vísu aldrei nokkurn tíma í hug. Miðað við önnur atriði sem við ræddum þykir mér einkennilegt ef þetta er heimilt.
    Ég leyfi mér úr þessum stól að vara við þessu. Það er í raun og veru verið að gelda Byggðastofnun eða færa hana upp á Hveravelli og láta hana taka við veðurathugunum eins og hv. 1. þm. Vestf. hefur lýst. Til hvers í ósköpunum? Byggðaáætlanir eru nauðsynlegar og ég hef lagt áherslu á það, en ég tek undir það með síðasta hv. ræðumanni að við viljum ekki sovéskt fyrirkomulag í þessu. Við viljum ekki einhverja fimm ára áætlun og að ekki megi síðan breyta út af henni. Rússar eru hættir þessu og af hverju á að fara að taka þetta upp hérna á tímum frjálshyggjunnar? Ég trúi ekki, satt að segja, að ætlunin sé að knýja slíkt fram. Að sjálfsögðu er það eitt mikilvægasta verkefni Byggðastofnunar að geta brugðið við og það er engin fimm ára áætlun sem getur sagt að það verði atvinnuskortur. Það er engin. Það er engin áætlun sem getur sagt að loðnan bregðist. Það er engin áætlun sem getur sagt að sveitarfélögin t.d. á norðurhluta Austfjarða sem eiga nú í miklum vandræðum þurfi á aðstoð að halda. Á þá svarið að vera það að því miður hafi þetta ekki verið í byggðaáætlun sem var gerð fyrir einhverjum árum og því sé ekki unnt að veita aðstoð?
    Ég skil einnig það sem ég hef séð af þessari reglugerð þannig að hæstv. forsrh. ætli að fá öll málin inn á sitt borð og afgreiða þau þar, það þurfi hans samþykki nánast fyrir hverju sem á að gera þar. Ég vara við því. Ég get hins vegar tekið undir gagnrýni sem við höfum stundum heyrt um það að miðstýringin hafi verið of mikil hjá stjórnvöldum og það beri að draga úr henni, en ekki er þetta til að draga úr henni, að ein mikilvægasta opinbera stofnunin verði sett undir þumalfingurinn hjá hæstv. forsrh. og ekkert megi gera nema með samþykki hans. Ég tel þetta satt að segja svo stórhættulegt mál að það hljóti að verða tekið upp hér á Alþingi ef hæstv. forsrh. ætlar sér að knýja þetta fram, ef ekki fyrir dómstólum.
    Ég vil láta þetta vera mín síðustu varnaðarorð. Ég vona svo, satt að segja, að fremur verði hert á sókninni í byggðamálum en úr henni dregið. Það er hvorki gott fyrir dreifbýlið né þéttbýlið, fyrir Reyjavík t.d., að flutningar til Reykjavíkur haldi áfram eins og þeir hafa verið núna upp á síðkastið. Það er áreiðanlega þjóðhagslega mjög nauðsynlegt að halda sæmilegu jafnvægi í byggð landsins. Þegar menn tala um það, eins og hv. 3. þm. Reykv., að varið hafi verið 12 milljörðum til byggðamála í gegnum Byggðastofnun má spyrja: Hvað ætli þær krónur séu margar sem þéttbýlið og við öll höfum notið af þeirri gífurlegu framleiðslu sem verið hefur um land allt? Ég tók mig einu sinni til og reiknaði út hvað rekja mætti til þeirrar frægu byggðar Suðureyrar. Ég man ekki töluna lengur en ég komst ekki upp í nema brot af því þegar ég fór að reikna fyrir okkur Reykvíkinga, ekki nema lítið brot af þeim gífurlegu þjóðartekjum sem mátti rekja þangað. Og hvernig halda menn að væri að búa hér í Reykjavík ef við förum að ráðum hæstv forsrh. og flytjum fólkið í burtu frá slíkum stöðum? Ég er ansi hræddur um að við sæjum eftir þeirri gerð og það gæti orðið erfitt að snúa þá blaðinu við.