Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 22:49:00 (996)

     Vilhjálmur Egilsson :
     Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að bæta nokkrum orðum við þessa umræðu þótt hér hafi fallið mörg ágæt orð og margt verið sagt og kannski erfitt að bæta við þá visku sem komin er fram.
    Þegar ég hugsa um byggðamál og út frá þeim umræðum, sem hér hafa orðið um skýrslu Byggðastofnunar, velti ég því fyrir mér hvernig þessi byggðamálaumræða og atvinnulíf á landsbyggðinni tengist atvinnumálum okkar almennt. Ég held að vandi atvinnulífsins á landsbyggðinni sé ekki að öllu leyti einangraður frá því atvinnuumhverfi sem atvinnulíf á Íslandi hefur almennt búið í á undanförnum árum. Ef við lítum til þess hvernig okkur hefur gengið í atvinnulífinu á síðustu 10--12 árum og berum okkur saman við hvernig aðrar þjóðir hafa tekið á sínum málum verður því miður að segjast eins og er að okkur hefur ekki gengið nógu vel. Við sjáum tölur frá okkur um aukningu landsframleiðslu á mann og við sjáum líka tölur um sömu hluti hjá viðmiðunarþjóðum okkar. Við sjáum að landsframleiðsla okkar hefur kannski aukist um 10---13% á um 10--12 ára tímabili meðan sambærileg tala er tvöfalt hærri til að mynda í löndum OECD, þar sem helstu viðmiðunarþjóðir eru. En þegar við skoðum hvernig þessi aukning hefur orðið þá er hún

fyrst og fremst til komin með aukinni vinnu og þá fyrst og fremst með aukinni atvinnuþátttöku kvenna en ekki með því að framleiðni sé að aukast á hverja vinnustund eða hverja vinnandi hönd. Þetta er, held ég, hin dapurlega staðreynd í íslenskum atvinnumálum sem ég held að sé yfir það hafin að reynt sé að flokka niður hverjum sé að kenna með tilliti til stjórnmálaflokka. Ég held að þetta hljóti að vera almennt hugarfar og almenn stefna sem flestir sem nálægt landsstjórninni hafa komið hafa skrifað undir. En það er einmitt þessi staðreynd sem við þurfum þá líka að hafa í huga þegar við ætlum að rífa okkur upp úr þessari stöðnun sem hér hefur gengið yfir og hefur orðið til þess að kaupmáttur á Ísland í dag er nánast sá sami og fyrir 10 árum, ef ekki minni. Þetta er ekkert vandamál sem hægt er að segja að sé á ábyrgð vinnuveitenda, á ábyrgð launþega eða á ábyrgð framsóknarmanna eða sjálfstæðismanna eða alþýðubandalagsmanna. Ég held að það hljóti að vera sameiginlegt viðfangsefni okkar allra og okkur öllum í rauninni að kenna hvernig komið er og verkefni okkar allra að ná okkur út úr þessu.
    Þegar maður lítur á þróun atvinnulífsins eða umhverfis þess hér á Íslandi og í okkar helstu samkeppnis- og viðmiðunarlöndum koma kannski fram þrír meginþættir sem eru öðruvísi hjá okkur en hjá okkar viðmiðunarþjóðum. Í fyrsta lagi hefur verðlagið hækkað hér snöggt um meira en hjá viðmiðunarþjóðum okkar og við þekkjum það. Í öðru lagi hefur hið opinbera þanist hér meira út, bæði útgjöld og skattheimta, en hjá öðrum þjóðum. En það sem ég tel í rauninni að skipti ekki síst máli, er að við höfum ekki náð að auka utanríkisviðskipti okkar með sama hætti og öðrum þjóðum hefur tekist. Okkur hefur ekki tekist að auka útflutning okkar með sama hætti og öðrum. Ég er að komast meira og meira á þá skoðun að við Íslendingar höfum talið okkur trú um það í allt of miklum mæli að við séum svo rosalega rík, að við ættum hér einhvern haug af auðlindum sem við gætum gengið í og þyrftum ekki annað en veifa hendi til að taka meira og meira af þessum auðlindum okkur til handa. Það hefur átt við um sjávarútveginn, það hefur átt við um orkuna. Og ég held að kannski ekki síst út af orkunni höfum við ekki bara orðið fyrir efnahagslegu áfalli við það að missa álverið, heldur líka að sumu leyti sálrænu áfalli vegna þess að við höfum allt of oft talið að nýting þessara orkulinda og bygging stóriðjufyrirtækja væri bara spurning um hvað við vildum sjálf, það væri innra vandamál okkar að ákveða hvort við vildum fá álver eða ekki álver. En síðan fáum við það upp að það eru engar biðraðir erlendra auðhringja sem vilja endilega komast hingað til lands til að nýta þessar orkulindir. Menn eru ekki tilbúnir til að koma hingað og við fáum í andlitið að þessir erlendu aðilar, sem við erum að semja við, vilja bara ekkert koma.
    Ef við lítum á annað og förum kannski að koma nær byggðamálunum og atvinnuuppbyggingu úti um landið, þá höfum við í gegnum þessi ár rekið okkar þjóðfélag með því að eyða um efni fram. Við höfum safnað skuldum þannig að þær eru orðnar núna um 730 þús. kr. á hvern einstakling og hafa tvöfaldast að raungildi á 10 árum. Við höfum öll árin á níunda áratugnum nema eitt verið með halla á viðskiptajöfnuði og við höfum í rauninni verðlagt okkar útflutning allt of lágt. Við höfum skráð gengi krónunnar rangt og það kemur mjög skýrt fram í þessari ágætu bók sem Seðlabankinn hefur tekið saman um tengingu krónunnar við ECU að gengisskráningin hefur fyrst og fremst tekið mið af afkomu sjávarútvegsins en ekki tekið mið af stöðu þjóðarbúsins út á við, ekki tekið mið af því að hlutverk gengisskráningarinnar var að jafna framboð og eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri, heldur fyrst og fremst tekið mið af afkomu sjávarútvegsins.
    Og hver er þessi afkoma sjávarútvegsins sem við miðum við? Hún er hin fræga núllstefna sem hefur gengið út á það að sjávarútvegurinn ætti að meðaltali að vera fyrir neðan núllið eða um núllið og ef frést hefur af því að einhver væri einhvers staðar að græða í sjávarútvegi hefur hafist mikil umræða um að það þyrfti að gera sérstakar ráðstafanir til þess að koma slíkum fyrirtækjum fyrir kattarnef. Það hefur sem sé verið það undarlega ástand hér ríkjandi að það hefur helst ekki mátt hagnast á sjávarútvegi. En skuldirnar hafa hrannast upp. Sjávarútvegurinn og aðrar útflutningsgreinar hafa ekki fengið að afla þess gjaldeyris sem þjóðin hefur viljað eyða og niðurstaðan er sú að Ísland nýtur þriðja lakasta lánstrausts meðal ríkja Vestur-Evrópu. Það eru einungis Grikkland og Tyrkland sem eru fyrir neðan okkur í lánstrausti í Vestur-Evrópu. Erlendir fjárfestingaraðilar, sem lána til mismunandi þjóða, vilja frekar lána þjóðum sem við höfum talið vera fátækar eins og

Malasíu, Tælandi, Hong Kong, Suður-Kóreu, Tævan. Þessar þjóðir eru hærra skrifaðar en við í lánstrausti. ( Gripið fram í: Ekki eru Grikkland og Tyrkland í Vestur-Evrópu.) Í Vestur-Evrópu? Nei, kannski ekki landfræðilega sem við köllum í Vestur-Evrópu heldur í þessari hugmyndafræðilegu.
    Þetta er dapurleg staðreynd og hún hefur líka orðið til þess að við höfum látið sjávarútveginn, sem er höfuðatvinnugrein landsbyggðarinnar, safna skuldum. Þetta hefur verið hin almenna stefna og ekki tengst endilega einum flokki frekar en öðrum. Þessi stefna er hins vegar ekki lengur fær. Hún er ekki lengur fær vegna þess að það er ekki hægt að lána hinum skuldugu fyrirtækjum meira. Til dæmis er á síðasta áratug búið að fara í gegnum þrjá meiri háttar skuldbreytingarúnta, fyrst 1983, svo 1985 eða 1986 og svo með Atvinnutryggingarsjóðnum 1989 og flest fyrirtæki í sjávarútvegi eru búin að veðsetja sig upp í topp. Og jafnvel þótt menn vildu lána mörgum fyrirtækjum meira, þá gætu þeir aldrei borgað lánin til baka. Jafnvel þótt fyrirtækjunum væri samt lánað meira þá væru stjórnendur þessara fyrirtækja settir í þá stöðu að vera eilíft að vinna fyrir lánardrottnana en aldrei nokkurn tíma að byggja upp eigið fé í fyrirtækjum sínum.
    Mínar þumalputtareglur eru afar einfaldar varðandi skuldsetningu í sjávarútvegi. Ég hygg að skuldi fyrirtæki í sjávarútvegi meira en sem svarar 150--160 kr. fyrir hvert kg í þorskígildi sem það er með sé það yfir hættumörkum í skuldum og slíkt fyrirtæki muni eiga mjög erfitt með að standast samkeppnina og greiða niður sínar skuldir. Ég held að ef menn athuga fyrirtækin og sjá hvaða fyrirtæki eru fyrir neðan og fyrir ofan þá muni menn nokkurn veginn geta fundið út hver standa sig og hver standa sig ekki og hver komi til með að lifa þessar hörmungar af og hver ekki.
    En við stöndum sem sagt frammi fyrir þessu. Sú leið er ekki lengur fær að lána fyrirtækjum í sjávarútvegi meira ef þau skulda meira en þetta vegna þess að þau geta einfaldlega ekki lengur staðið undir þessum skuldum, jafnvel þótt þau fái lán á tiltölulega hagstæðum kjörum. Það einfaldlega gengur ekki upp. Og þá er það spurningin hvaða leið hægt er að fara til þess að koma þeim skuldugu fyrirtækjum á rekspöl þannig að reksturinn geti gengið almennilega. Ég held að það séu engar einfaldar lausnir í því. Ég held að þau mál verði ekki leyst nema með því að fara í gegnum hvert einstakt fyrirtæki eins og lánardrottnar og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta fari yfir þau mál. Fyrst og fremst verður að meta þau mál út frá viðskiptalegum forsendum. Og það mun örugglega koma upp í mjög mörgum tilfellum að það sé betra fyrir alla að fyrirtæki séu gerð gjaldþrota og síðan byrjað upp á nýtt. Við skulum athuga það að þegar fyrirtæki verða gjaldþrota er ekki endilega víst að rekstur stöðvist um aldur og ævi, heldur getur gjaldþrot oft verið leið til þess að koma rekstri aftur af stað. Það á að líta á gjaldþrot sem tæki til þess að koma rekstri aftur af stað. Við skulum þess vegna bara líta á dæmi þar sem fyrirtæki hafa farið í gjaldþrot og rekstur hefur farið aftur af stað. Ég nefni t.d. Sigló á Siglufirði, þar sem skuldirnar voru það miklar að það var aldrei nokkurn tíma hægt að borga þær. Það fyrirtæki varð gjaldþrota og síðan var reksturinn keyptur af nýjum aðilum og er núna rekinn áfram í blóma.
    Ég vil líka benda á það að þegar markaðskerfi er farið að breiðast út í viðskiptum með ferskan fisk getur það fiskvinnslufyrirtæki, sem er orðið skuldlaust vegna þess að það er farið í gegnum gjaldþrot, kannski verið samkeppnishæfara og getur borgað hærra verð fyrir hráefnið og er í betri stöðu til þess að fá til sín fisk til vinnslu heldur en það fyrirtæki sem er hlaðið skuldum. Þegar litið er á málin út frá þessum sjónarhóli geta menn ekki fyrir fram sagt sem svo að fyrir einhverja tiltekna starfsemi sé verra að verða gjaldþrota heldur en ekki. Yfirleitt er best að horfast í augu við þær staðreyndir sem eru til staðar í hverju tilviki og það versta sem fólki er gert og þeim sem reka fyrirtæki er að halda þeim í þeirri stöðu að þurfa að basla áfram í rekstrinum án þess að eiga nokkurn tíma möguleika á því að greiða niður sínar skuldir. Ég held að það sé það versta sem hægt er að gera nokkrum einasta manni því að það er slík niðurlæging fyrir þá sem standa í slíku að eygja aldrei nokkurn tíma von til þess að geta verið borgunarmaður sinna skulda. Það er ekki á nokkurn mann leggjandi og ófáir aðilar víðs vegar um landið hafa farið mjög illa á slíkum rekstri.
    Ég held hins vegar að sjávarútvegurinn og landsbyggðin séu alls ekki á neinum

endapunkti, ég held að séu þar mjög margir möguleikar. Ég sé t.d. mjög marga möguleika tengjast hinum nýja samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Ég vil taka sem einfalt dæmi um það útgerð, sem ég þekki mjög vel til, sem lét sigla með karfa til Þýskalands og hafa verið farnir þrír túrar á þessu ári. Ein sigling gaf milli 16--17 millj. fyrir farminn. Önnur sigling, sem var ekkert sérstaklega góð, gaf milli 12--13 millj. fyrir farminn. Ef þessir tveir farmar hvor um sig hefðu verið teknir heim í land og unnir í frystihúsi og karfinn fluttur út frystur hefði hvor farmurinn um sig skilað minna en 10 millj. í útflutningstekjur. Þannig hefði það beinlínis verið rýrnun á útflutningstekjunum að flytja fiskinn út frystan í flökum heldur en heilan í ís. En með því að við höfum náð samningunum um hið Evrópska efnahagssvæði þá opnast möguleikar til þess að flytja út karfann í ferskum flökum. Þetta hefur borið 18% toll nú og þá væri von til þess að útflutningsverðmæti farms eins og þessa væri meira þannig að útflutningsverðmætið ykist við það að vinna aflann heima. En eins og staðan er í dag, án þessara samninga, gerist það ekki og þess vegna hefur fiskvinnsla okkar verið svona ósamkeppnisfær við fiskvinnslu Evrópubandalagsins eins og raun ber vitni. Þetta er ekki bara spurning um styrki.
    Annað dæmi er t.d. um saltflök sem hafa borið 20% toll. Ég held að það verði rífandi bisniss í því að vinna slík flök þegar samningarnir hafa komið og ég held að fiskvinnsla okkar verði þess vegna samkeppnisfærari. Síðan er margt sem við þurfum að gera á þeim stöðum sem eru í sjávarútvegi sem skiptir máli til þess að auka samkeppnishæfni vinnslunnar. Ég er t.d. alveg sannfærður um að það þarf að auka og stækka atvinnusvæði og viðskiptasvæði úti um land. Maður getur talið upp pláss eftir pláss þar sem í hugum fólks sem þar er virðist styttra til Reykjavíkur heldur en í næsta pláss. ( Gripið fram í: Hvar eru þessi pláss?) (Gripið fram í.) Þetta er rétt. Og enn þá lengra frá Akureyri til Sauðárkróks heldur en frá Akureyri til Reykjavíkur, hvað snertir viðskipti alla vega. En þetta er hlutur sem þarf að laga og menn úti um land þurfa að horfa í eigin barm. Ef menn ætla sér að ná árangri úti um land þá held ég að menn verði að vilja skipta hverjir við aðra milli staða. Menn verða að leita eftir samvinnu og viðskiptum og þá, eins og ég veit að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson þekkir, þarf líka góðar samgöngur til þess að hægt sé að stunda slík viðskipti. Og meira en það. Það þarf líka að stokka upp vinnulöggjöf til þess að þetta sé hægt. Það eru til mörg dæmi t.d. um það að vörubílstjórar á Siglufirði mega ekki vinna inni í Fljótum. Atvinnusvæðin eru svo þröngt afmörkuð að fólk getur verið atvinnulaust í einu byggðarlagi meðan nóg atvinna er í næsta byggðarlagi. Það getur verið jafnlengi að fara þar á milli eins og ofan úr Breiðholti og niður í miðbæ en samt má fólk ekki fara þar á milli. Það er svo margt og margt af þessum toga sem þarf að laga.
    Af því að hv. þm. Ólafur Þórðarson hefur svo lítið heyrt um þessa hluti þá skal ég upplýsa hann um að ég heyrði góða úttekt á samvinnu sparisjóða á Vestfjörðum í dag, en það sem hafa verið miklar hugmyndir um það að stofna einn sparisjóð Vestfjarða úr þeim mörgu litlu sparisjóðum sem þar starfa. En slíkar hugmyndir hafa strandað oft á viljaskorti forráðamanna þessara sjóða til að vinna saman þrátt fyrir að það væri þeim tvímælalaust í hag. Þannig má fara yfir hlutina á mjög mörgum sviðum.
    En eitt af því sem ég held að við þurfum líka að hugsa um og það sem skiptir miklu máli og menn hafa talað hér um er það að atvinnulíf úti um land þarf líka að breytast úr þessu einhæfa framleiðsluatvinnulífi og verða með meiri þjónustu heldur en er í dag. Þjónustugreinar eru vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu. Það er sama hvort litið er til Íslands eða annarra landa, þar sem einhver þróun er í atvinnulífi þar er þjónusta að vaxa. Þetta skiptir líka afar miklu máli vegna þess að þegar verið er að ráða fólk nú til dags í vinnu, t.d. á einhvern stað úti á landi þarf nefnilega svo oft að ráða tvo. Það þarf að skaffa vinnu fyrir tvo vegna þess að fyrirvinnur á heimilum á Íslandi í dag eru yfirleitt tvær. Ef ekki er til vinna fyrir makann er oft ekki hægt að ráða í viðkomandi starf og þessu veit ég að menn hafa kynnst. Fjölbreytnin í atvinnulífinu, og þá fyrst og fremst á þjónustusviðinu, er algerlega lykilatriði til þess að árangur náist.
    Ég vil taka undir það sem menn hafa sagt um hver sé nauðsyn þess að flytja opinbera starfsemi út um land og ég vil í því sambandi minna á hugmyndir um það að byggja upp á Akureyri sjávarútvegsmiðstöð sem yrði miðstöð fyrir þekkingaröflun og rannsóknir í sjávarútvegi. Helst þyrfti að flytja þangað allt háskólanám tengt sjávarútvegi og

starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunar a.m.k. að einhverju leyti þannig að þarna byggðist upp kjarni eða umhverfi þar sem saman færi háskólanám og rannsóknir sem væru þá tengd við atvinnulífið á staðnum. Því að þar er mjög fjölbreytt atvinnulíf bæði sjávarútvegur og eins alls kyns iðnaður sem tengist sjávarútvegsfyrirtækjum og ég held að það ætti tvímælalaust að vinna að þessu máli.
    En það er ekki nóg að byggja upp sjávarútveginn og þjónustuna. Það þarf líka að huga að versluninni. Við höfum tekið eftir því á undanförnum árum að verslun á landsbyggðinni hefur átt mjög í vök að verjast. Þannig hefur það verið að bættar samgöngur hafa orðið til þess að fólk verslar minna í sinni heimabyggð heldur en það gerði. Og við skulum líka athuga það að verslunin er skattlagðasta atvinnugreinin. Þar eru hæstu aðstöðugjöldin, þar er þrefaldur eignarskattur. Það er eignarskatturinn sjálfur sem rennur til ríkisins, það eru fasteignagjöld og það er skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Hvort sem menn eru úti á landsbyggðinni eða hér á höfuðborgarsvæðinu þarf verslunin að búa við sambærileg kjör og aðrar atvinugreinar hvað skattlagningu snertir til þess að geta blómstrað.
    Við erum líka farin að taka eftir því að verslun úti á landi er kannski rétt núna að byrja að bregðast við þessum breyttu aðstæðum. Við erum farin að taka eftir því núna að verslunarfyrirtæki úti um land eru farin að flytja meira og meira beint inn. En til skamms tíma tíðkaðist ekki að það væri gert, heldur fóru slík viðskipti yfirleitt fram í gegnum Reykjavík. En með bættum samgöngum og með auðveldari viðskiptum við útlönd hefur þessi þróun byrjað og ég er viss um það að hún mun halda áfram.
    En það sem ég held að muni þó skipta sköpum um það hvort tekst að ná atvinnulífi á landsbyggðinni á skrið í framtíðinni er það hvernig menn sjálfir í hinum dreifðu byggðum landsins eru tilbúinir til að standa að verki. Ég er alveg sannfærður um það að samkeppni á eftir að aukast á öllum sviðum. Þeir sem ráða yfir byggðunum og atvinnulífi úti um land munu þurfa að taka þátt í þessari samkeppni.
    Hlutverk þeirra sem eru í landsstjórninni er að sjálfsögðu að skapa þau skilyrði að atvinnulífið úti á landi geti staðið sig í samkeppninni ef þeir sem þar ráða yfir eru hæfir til þess að reka sín fyrirtæki og eru forsjálir og hyggnir. Þar vil ég sérstaklega taka undir margt af því sem hv. þm. Ólafur Þórðarson hefur sagt um gengismál.
    Ég tel að það sé algert lykilatriði að gengisskráningin sé rétt og það sé markaðsskráning á gengi íslensku krónunnar. Ég held að það hljóti að verða framtíðin. Þeir sem hafa kynnt sér þetta ágæta rit Seðlabankans hafa komist að því að sú ágæta stofnun er nú allt í einu komin inn á þá skoðun að það eigi að verða markaðsskráning á gengi krónunnar.