Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 23:44:00 (998)

     Jón Kristjánsson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Þessi umræða hefur staðið síðan kl. 1 í dag og reyndar var um samið að reyna að ljúka umræðunni á þessum degi. Þó er mér kunnugt um að enn eru nokkrir á mælendaskrá og tíminn frá því um kvöldmat hefur að mestu leyti utan ein ræða eða svo farið í miklar ræður stjórnarliða og ádeilur á stefnu eigin ríkisstjórnar og hér hafa verið send skot til ýmissa ráðherra sem ekki eru viðstaddir. Hér er aðeins hæstv. forsrh. viðstaddur. En þeir hafa farið víðar og fleiri hafa fengið dýfur frá sínum stuðningsmönnum.
    Nú vildi ég inna hæstv. forseta eftir því hvort hann hugsi sér að halda áfram þessari umræðu undir þessum kringumstæðum. Sannast sagna hefur umræðan þróast nokkuð á sérkennilegan veg sem var varla hægt að sjá fyrir, að stjórnarliðið mundi upphefja slíkar deilur sem hafa verið hér síðan um kvöldmatarhlé. Ég vil því inna hæstv. forseta eftir þessu, hvað hann hugsi sér með framhaldið á þessari umræðu því að ég sé ekki að það sé forsvaranlegt að halda henni áfram eins og hún hefur þróast án þess að fleiri ráðherrar en

forsrh. séu viðstaddir.