Fjáraukalög 1991

28. fundur
Mánudaginn 18. nóvember 1991, kl. 13:34:00 (1001)

     Frsm. fjárln. (Karl Steinar Guðnason) :
     Hæstv. forseti. Nefndin hóf athugun á fjáraukalagafrv. strax og það hafði verið lagt fram á Alþingi, þ.e. 2. okt. sl. Í stuttu máli má lýsa vinnubrögðunum þannig:
    Nefndin kannaði hvern lið frv. til hlítar og fékk skýringar fjmrn. og fagráðuneyta á óskum um greiðsluheimildir. Í nokkrum tilvikum er tilgreind lækkun heimilda eða niðurskurður en í flestum tilvikum er um talsverðar hækkanir að ræða. Nefndin gekk úr skugga um hvort greiðslur hefðu átt sér stað áður en fjárheimilda var leitað og kom fram að fjárgreiðslur úr ríkissjóði 1991 umfram lögbundnar fjárheimildir voru sem hér segir:
    Lánasjóður ísl. námsmanna 200 millj. kr. Var það gert að höfðu samráði við fjárln. Aðstoð við kúrdíska flóttamenn 70 millj., samkvæmt ákvörðun fyrri ríkisstjórnar. Kynningarátak um Leif Eiríksson 25 millj. kr., samkvæmt ákvörðun fyrri ríkisstjórnar. Ríkisábyrgð á launum 130 millj. kr. Samtals eru þetta 425 millj. kr.
    Að lokinni athugun á frv. kallaði nefndin fyrir sig forsvarsmenn ráðuneyta og ríkisstofnana. Var þeim gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina upplýsingum um greiðslustöðu ýmissa verkefna og óskum ef einhverjar væru. Nefndin kallaði eftir tillögum fagráðuneytanna sem ábyrg eru á viðfangsefnum og áliti fjmrn. Í flestum tilfellum féllst fjárln. á tillögur ráðuneytanna og mat fjmrn. á greiðsluþörf. Þá fylgir nál. fylgiskjal sem sýnir sundurliðun á niðurskurði þeim sem tilgreindur er í frv.
    Þá kem ég að skýringum við einstakar brtt. fjárln. Nefndin samþykkti samtals 18,6 millj. kr. hækkun á aukafjárveitingu til Alþingis sem verður þá samtals 37,7 millj. kr. Vissulega er þetta há upphæð en hér er um að ræða útgjöld sem breytingar á skipulagsháttum Alþingis og nýafstaðnar þingkosningar höfðu í för með sér. Fyrirsjáanlegt var að skipulagsbreytingar Alþingis kölluðu á verulegan aukakostnað í ár. Einnig var ljóst að í kjölfar kosninga þurfti viðbótarfjárveitingu, bæði hvað varðaði biðlaun, tölvukostnað o.fl. Þess skal getið að allar þessar fjárbeiðnir voru samþykktar af fyrri forsetum Alþingis og flest af því hafði þegar verið ákveðið af þeim er stjórnuðu þinginu sl. vetur.
    Eftirfarandi viðfangsefni voru samþykkt nú: Aðalskrifstofa 5,1 millj. kr. vegna launakostnaðar. Viðfangsefnið Fasteignir 1500 þús. vegna endurnýjunar á hljóðveri. Viðfangsefnið Tæki og búnaður 12 millj. kr. vegna kaupa á tölvubúnaði.
    Þá kem ég að menntmrn., almennir framhaldsskólar, viðhald og stofnkostnaður. Tekinn er inn nýr liður, Framhaldsskólinn á Húsavík 5 millj. kr. til byggingar framhaldsskólans, svo hægt sé að taka í notkun hluta byggingarinnar um næstu áramót. Listir, framlög. Tekinn er inn nýr liður, Íslenska óperan 10 millj. kr. Í lið 6.32 í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1991 er heimild til að semja við Reykjavíkurborg og aðra aðila um lausn á fjárhagsvanda Íslensku óperunnar. Nú liggur fyrir samkomulag þar sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði Óperunni árlega 30 millj. kr. fast framlag. Þessu til viðbótar veitir ríkissjóður mótframlag jafnhátt söfnuðum styrkjum að hámarki 5 millj kr. á ári. Þá er í samningnum ákvæði er banna Íslensku óperunni að afla fjár með lántökum og ákvæði er efla stöðu fjármálastjóra. Samhliða þessu liggur fyrir yfirlýsing frá Reykjavíkurborg um að hún muni auka stuðning sinn við Leikfélag Reykjavíkur þannig að fyrirhugað framlag til Leikfélags í frv. til fjárlaga 1992 geti flust til Íslensku óperunnar án þess að heildarstuðningur við Leikfélag Reykjavíkur skerðist.
    Hvað varðar landbrn. þá samþykkti nefndin eftirfarandi: Viðfangsefnið Jarðræktar- og búfjárræktarframlög hækkar um 35 millj. kr. og verður 42,5 millj. kr. sem er vegna uppgjörs á eldri skuldum. Búnaðarfélag Íslands, er farið hefur með framkvæmd jarðræktarlaganna, hefur ekki talið ótvírætt að heimildir til greiðslu styrkja takmarkist við framlög á fjárlögum hverju sinni. Til að taka af allan vafa við framkvæmd laganna hefur landbrh. ákveðið að beita sér fyrir breytingum á 12. gr. jarðræktarlaga sem taki af öll tvímæli þar um.
    Hvað varðar sjútvrn. þá hækkar viðfangsefnið Stjórn fiskveiða um 2,5 millj kr. Í athugasemdum Ríkisendurskoðunar á framkvæmd endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti af aðföngum til fiskvinnslu á árinu 1989 kemur fram að margar skekkjur hafa verið á framkvæmd endurgreiðslnanna. Þurfi því þessar 2,5 millj. til að leiðrétta greindar skekkjur.
    Hvað varðar dóms- og kirkjumrn. þá samþykkti nefndin viðfangsefnið Lögreglustöð í Grindavík sem hækkar um 2 millj. og verður samtals 3 millj. kr. Var það samþykkt til að unnt verði að ljúka innréttingu nýrrar lögreglustöðvar í Grindavík. Fyrir þrem árum var keypt húsnæði fyrir þessa starfsemi og er nú fyrst verið að ljúka innréttingum. Gamla lögreglustöðin er nú til húsa í gersamlega ónothæfu húsnæði og var fangaklefum hennar lokað að kröfu Hollustuverndar fyrir nokkrum árum. Þessar 2 millj. eiga að tryggja að unnt verði að ljúka innréttingum og flytja starfsemina alveg á næstunni. Þá verður unnt að selja þá fasteign sem áður var notuð sem lögreglustöð.
    Tekinn er inn nýr liður er varðar biskupsembættið, samtals 2,8 millj. kr. Af því er 400 þús. ætlað til nauðsynlegs viðhalds biskupsbústaðar, 1400 þús. til yfirstjórnar vegna vanáætlunar á launakostnaði og tekinn inn nýr liður, Alþjóðasamvinna 1 millj., vegna heimsþings alkirkjuráðsins sem haldið er á sjö ára fresti. Þá hefur biskup Íslands verið kjörinn í stjórnarnefnd lútherska heimssambandsins sem kemur saman einu sinni á ári.
    Í tillögu nefndarinnar vegna heilbrrn. er tilgreindur nýr liður, Sjúkrahúsið í Keflavík 3 millj. kr. Er það til komið vegna mjög einstæðs sjúkdómstilfellis á árinu 1990. Þegar það kom til var leitað til fyrrv. heilbrrh. um greiðslu kostnaðar og var það fyrirheit gefið að ráðuneytið mundi sjá til þess að greiðsla kostnaðar stæði ekki í veginum, enda um mjög sérstætt mál að ræða. Þá hækkar viðfangsefnið Ríkisspítalar um 21 millj. kr. Það er einnig vegna mjög sérstæðra sjúkdómstilfella. Í öðru tilfellinu þurfti í skyndi að fá lánuð sérstök tæki frá útlöndum til að meðferð gæti tekist. Kostnaður við þetta tilfelli var samtals 18 millj. kr. Í umsögn ríkisspítalanna segir að það hafi vakið athygli út fyrir landssteinana hve þessi sjúklingur náði góðum bata þrátt fyrir nær vonlaust útlit frá upphafi. Það getur vissulega verið dýrt að bjarga mannslífum en sjálfsagt geta allir hv. þm. verið sammála um að einskis megi láta ófreistað í þeim efnum.
    Í fjáraukalagafrv. er gerð tillaga um að veita framlag að fjárhæð 281 millj. kr. til ríkisspítala. Af þessari fjárhæð eru 27 millj kr. vegna tjónabóta vegna óveðursins á sl. vetri. Framlag þetta er tekið af óráðstöfuðu liðum vegna tjónabóta hjá fjmrn. Það sem eftir stendur, 254 millj. kr., er vegna loforða síðustu ríkisstjórnar vegna tölvukaupa og kaupa á segulómtæki, samtals að fjárhæð 125 millj. kr., sem leitað var eftir heimildum í lánsfjárlögum 1991 og 6. gr. fjárlaga. Afgangurinn, 129 millj. kr., er vegna rekstrarhalla frá árinu 1990 sem ekki fékkst afgreiddur við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1990 í desembermánuði þessa árs þó að fyrir lægju upplýsingar um hann og búið væri að stofna til þeirra útgjalda.
    Mér þykir rétt að fram komi að forráðamenn ríkisspítalanna rituðu heilbr.- og trmrh. bréf þann 10. okt. 1990 um fjárvöntun ríkisspítala á því ári sem að mati spítalans var talin 207 millj kr. Erindi þetta kom til umfjöllunar í fjárveitinganefnd í tengslum við afgreiðslu fjáraukalaga sem afgreidd voru í desember 1990. Fjárveitinganefnd óskaði eftir umsögn heilbr.- og trmrh. um erindi ríkisspítala, sbr. bréf ráðuneytisins 2. nóv. 1990 til fjárveitinganefndar, og mælti ráðuneytið með fjárveitingu á fjáraukalögum að fjárhæð tæplega 150 millj kr. Í afgreiðslu nefndarinnar á þessari beiðni eru samþykktar í fjáraukalögum 75 millj. kr. en öðru frestað.
    Eins og fyrr er getið er í þeim fjáraukalögum sem nú eru til afgreiðslu gert ráð fyrir m.a. 129 millj. kr. til ríkisspítalanna sem uppgjöri á rekstrarhalla frá árinu 1990 sem sagt er að stofnuninni hafi verið lofað á sl. vori af fyrrv. heilbrrh. Þannig hafa ríkisspítalar fengið svo til alla þá fjárhæð sem þeir óskuðu eftir með bréfi sínu frá 10. okt. 1990 vegna rekstrarhalla þess árs. Annars vegar með fjárveitingu í fjáraukalögum frá því í desember 1990 og hins vegar með þeirri beiðni sem liggur fyrir í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1991, en frestað var við afgreiðslu fjáraukalaga í desember 1990. Það sama virðist nú vera að endurtaka sig hjá ríkisspítölunum því að með bréfi, dags. 23. okt. sl., til heilbrrh., sem jafnframt var sent til fjárln., fara ríkisspítalar fram á 220 millj. kr. viðbótarframlag. Af þessari beiðni hefur fjárln. samþykkt 21 millj. kr. eins og ég greind frá hér að framan. Hvað varðar önnur atriði í tilskrifum ríkisspítalanna er greint frá því m.a. að ástæðurnar séu vanáætlanir í fjárlögum 1990, kostnaðarauki vegna kjarasamninga aðstoðarlækna sem gerður var á þessu ári og áætlun um auknar sértekjur vegna krabbameinslækna, en spítalinn hefur ekki fengið heimild til þess að innheimta þær af hálfu heilbrrn.
    Meiri hluti fjárln. telur að legið hafi fyrir í upphafi þessa árs að þáv. stjórnvöld væru ekki reiðubúin til þess að auka framlag til ríkisspítalanna og að þann kostnaðarauka sem var samfara kjarasamningum sem þáv. fjmrh. gerði við aðstoðarlækna var áætlað að spítalinn ætti sjálfur að bera. Þá getur nefndin ekki fallist á að stjórnendur spítalans taki sér ákvörðunarvald um aukin útgjöld vegna aukinnar þjónustu án fyrir fram heimilda. Í heilbrrn. er verið að skoða þessa beiðni sérstaklega og þess vegna er ekki tekin afstaða til málsins að þessu sinni.
    Fjárln. mun ekki una við síendurteknar aukafjárveitingar. Hver einasta stofnun verður að sníða sér stakk eftir vexti. Komi í ljós að ekki er vel farið með fé, áætlunargerð í molum og aðhald í minnsta lagi verður að snúa við á þeirri braut.
    Viðfangsefnið 6.01 hækkar um 700 millj. kr. og verður því 805 millj. kr. Í fjáraukalögum fyrir árið 1989 og frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990 var sótt um viðbótarheimild að fjárhæð 328 millj. kr. vegna fjárlagaliðar hjá fjmrn., Ýmsar fasteignir ríkissjóðs, í tengslum við kaup ríkissjóðs á fasteignum. Í athugasemdum við bæði frv. er þess getið að sótt sé um þessar viðbótarheimildir vegna þess hluta af eignakaupum sem ríkissjóður fjármagnar með lántökum. Þar er þess enn fremur getið að ríkisbókhaldið sýni í uppgjöri sínu innan ársins fasteignakaup að fullu.
    Í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1991 er ekki sótt um heimildir vegna þess hluta af kaupverði fasteigna sem ríkissjóður hefur tekið lán fyrir hjá seljanda sem nemur um 220 millj. kr. Í þeirri fjárhæð eru ekki meðtalin kaup ríkissjóðs á SS-húsinu. Á þessu ári fóru fram kaup og sala eigna vegna svonefnds SS-húss við Laugarnesveg í Reykjavík. Eign SS við Laugarnesveg var metin á 430 millj. kr. Þar af greiddi ríkissjóður í peningum 50 millj. kr., 80 millj. kr. með skuldabréfi útgefnu af ríkissjóði og afhentar voru fasteignir í eigu ríkissjóðs sem metnar voru á 300 millj. kr. Í fjáraukalögum fyrir árið 1991 var tekjufært

andvirði þeirra eigna sem ríkissjóður lét í makaskiptum fyrir SS-húsið þó engar peningagreiðslur hafi átt sér stað en kaupverð eignarinnar er ekki gjaldfært á móti. Þannig er misræmi milli færslna á tekna- og gjaldalið sem sýndi betri afkomu ríkissjóðs en raun er á.
    Í bókhaldi ríkissjóðs til loka septembermánaðar hefur verið fært eftirfarandi vegna fasteignakaupa:
    Kaupverð fasteigna o.fl. til gjalda 1 milljarður 195 millj. Greitt með peningum 520 millj. Greitt með lánum 375 millj. Makaskipti til tekna 300 millj. Niðurstaðan er því núll.
    Í fjáraukalögum og fjáraukalagafrv. fyrir árið 1991 er gerð grein fyrir tveimur atriðum í þessu sambandi. Heimildum fyrir peningagreiðslum að fjárhæð 580 millj. kr. og tekjum vegna virði eigna sem ríkissjóður lét af hendi í makaskiptum. Hins vegar er ekki færður til gjalda sá hluti kaupverðs sem greiddur er með lánum eða sá hluti sem greiddur var með öðrum eignum. Hér um að ræða rúmlega 700 millj. kr. gjaldfærslu.
    Í fjárln., sem unnið hefur að fjáraukalagafrv. í góðu samkomulagi, er ágreiningur um þessa færslu. Meiri hluti nefndarmanna telur brýnt að sýna á hverjum tíma allar lántökur sem ríkissjóður hefur undirgengist með formlegum hætti til greiðslu á vöru og/eða þjónustu sem fært er í ríkisbókhaldi innan ársins. Þannig er gerð grein fyrir öllum nýjum fjárhagslegum ákvörðunum sem teknar eru á viðkomandi tímabili. Ástæðulaust er að sýna útkomu ársins betri í fjárlögum og fjáraukalögum en hún er í raun.
    Ágreiningur minni hlutans kemur fram í nefndarálitinu. Í raun er ekki um djúpan efniságreining að ræða. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni telja ekki tímabært að taka einn þátt skuldbindinga ríkissjóðs fyrir sérstaklega og uppfæra með þessum hætti, enda sé um flókið mál að ræða sem undirbúa þurfi vel. Mikilvægt sé að móta skýrar reglur um það með hvaða hætti kröfur teljast skuldbindandi og þar með bókunarhæfar fyrir ríkissjóð og að ákveðið sé að fjárlagafrv. fyrir árið 1993 verði undirbúið og sett fram í fullu samræmi við þessar breytingar. Það sem nefndarmenn greinir á fyrst og fremst um er að minni hluti nefndarinnar telur að færa eigi allar kröfur á ríkissjóð óháð því hvort gengið hafi verið frá skuldbindingum með formlegum hætti eða ekki á viðkomandi tímabili. Er þá verið að tala um hreint rekstraruppgjör eins og fram kemur í ríkisreikningi. Meiri hluti nefndarinnar leggur hins vegar áherslu á að færsla umræddra 700 millj. er á nákvæmlega sama hátt og gert var árin 1989 og 1990 en þá var af hálfu fjmrn. sótt um heimildir fyrir þeim hluta kaupverðs sem greitt var með beinum lántökum.
    Vissulega hefði verið mjög mikilvægt og eðlilegt að í fjáraukalögum kæmu fram öll ný fjárútlát sem fyrri ríkisstjórn hafði stofnað til og auka skuldir ríkissjóðs. Í sambandi við þær hugmyndir sem fjmrh. hefur sett fram í fjárlagafrv. fyrir árið 1992 um breytta framsetningu fjárlaga mun fjárln. taka þær hugmyndir til umfjöllunar í upphafi næsta árs. En mikilvægt er að ekki sé ágreiningur um framsetningu upplýsinga um fjármál ríkisins og að aðilar séu vissir um hvað viðkomandi upplýsingar eigi að segja.
    Til upprifjunar nefni ég atriði sem æskilegt hefði verið að taka inn í fjáraukalagafrv. nú. Fyrst er að nefna, og ekki er tekið tillit til, áætlaðan kostnað vegna kaupa ríkissjóðs á fullvirðisrétti á árinu 1991, en samkvæmt áætlun landbrh. er talið að kostnaður vegna þessa nemi um 1 milljarði 230 millj. kr. Áformað er samkvæmt búvörusamningi að kaupa fullvirðisrétt sem svarar til 3.700 tonna af kindakjöti. Uppkaup í ár svara til 1.860 tonna þannig að eftir standa 1.850 tonn sem þarf að kaupa upp á árinu 1992. Áætla má að kaup þessi nemi um 800 millj. kr. þannig að heildarkostnaður við uppkaup fullvirðisréttar sem svarar til 3.700 tonna framleiðsluréttar verði alls um 2 milljarðar kr.
    Ekki er gerð grein fyrir yfirtöku ríkissjóðs á lánum Byggðastofnunar samkvæmt heimild í lánsfjárlögum fyrir árið 1991. Samkvæmt samkomulagi sem undirritað var af fjmrh. 21. maí 1991 yfirtók ríkissjóður lán Byggðastofnunar hjá Framkvæmdasjóði Íslands að

fjárhæð 1,2 milljarðar kr. Þá hefur ekki verið gerð grein fyrir yfirtöku lána hjá Hitaveitu og Rafveitu Siglufjarðar að fjárhæð tæpar 100 millj. kr. skv. 6. gr. fjárlaga. Báðar þessar yfirtökur hafa verið bókaðar á viðskiptareikninga í ríkisbókhaldi.
    Þá kem ég að samgrn., Flóabátar og vöruflutningar. Tekinn er inn nýr liður, Stofn- og rekstrarstyrkir. Til rekstrar Eyjafjarðarferja eru veittar 7 millj. kr. viðbótarframlag. Greiðsla framlagsins er háð samþykki fjárln. að undangenginni athugun á rekstri nýju ferjunnar, en ljóst er að rekstrargrundvöllur hennar er afar hæpinn.
    Ástæða er til að vekja athygli á vanda við rekstur annarra ferja. Þannig barst fjárln. beiðni um viðbótarframlag til Breiðafjarðarferjunnar Baldurs og vitað er að samdráttur er í flutningum Akraborgar. Þá var á árinu keypt ný ferja í Ísafjarðardjúp og nýr Herjólfur er væntanlegur á næsta ári. Brýnt er að fram fari heildarúttekt á rekstri allra ferja og leitað verði leiða til að minnka heildarkostnað við rekstur þeirra og lækka framlög ríkissjóðs.
    Þá er tekinn inn nýr liður, 6.20, Ferjubryggjur, 18 millj. kr. vegna ferjuaðstöðu í Þorlákshöfn. Búist er við að hinn nýi Herjólfur fari í rekstur um miðjan júní á næsta ári. Framkvæmdir við ferjuaðstöðu hafa verið boðnar út og er talið nauðsynlegt að þær geti hafist í desember. Við undirskrift verksamnings þarf að inna fyrstu greiðslu af hendi. Þess vegna er tillaga um þessar 18 millj. kr.
    Í frv. er gert ráð fyrir 10 millj. kr. niðurskurði í hafnamálum en með fyrrgreindri samþykkt verður hins vegar um 8 millj. kr. aukin útgjöld að ræða. Til rannsóknarnefndar flugslysa er ætlað 1,5 millj. kr. vegna kostnaðar af rekstri nefndarinnar.
    Tekinn er inn nýr liður, Hótel, framlög, 16 millj. kr. Þessi samþykkt er til komin vegna fyrri skuldbindinga fjárveitinganefndar. Eftir standa skuldbindingar að fjárhæð 16 millj. kr. að teknu tilliti til áætlaðra verðbóta frá áramótum. Þær skuldbindingar sem eftir standa eru vegna hótelanna Valaskjálf á Egilsstöðum og Árey á Hvolsvelli, en þær höfðu átt að greiðast á árunum 1992 og 1993. Samkvæmt samþykkt nefndarinnar er greiðslum þessum flýtt.
    Í ljós kom eftir að fjárln. hafði lokið umfjöllun frv. til 2. umr. að fjárveitinganefnd hafði og skuldbundið sig gagnvart hótelinu á Blönduósi. Verður það skoðað fyrir 3. umr. frv. Þegar tekið hefur verið tillit til þess er greiðslum þessum lokið.
    Hvað varðar iðnrh. þá hækka Ýmis framlög undir liðnum Ýmis orkumál um 3 millj. er verður því 5,5 millj. kr. Aðflutningsgjöld hafa að hluta verið felld niður af efni til stofnæða hitaveitna en litlar hitaveitur með fáar notendur hafa samt sem áður átt í erfiðleikum með að greiða gjöld sem þeim hefur verið gert að greiða. Eftir athugun fjmrn. og iðnrn. telur fjárln. nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hjá Hitaveitu Seyluhrepps og Hitaveitu Hvalfjarðar að veita styrk til þess að greiða hluta þeirra gjalda sem þeim hefur verið gert að greiða í ríkissjóð vegna stofnæðar. Með því á rekstur hitaveitnanna að vera tryggður.
    Þá kem ég að umhvrn. Tekinn er inn nýr liður, Veiðistjóri, 9,5 millj kr. Var þetta samþykkt vegna flutnings og halla á rekstri stofnunarinnar. Í júní sl. flutti stofnunin úr Bændahöllinni og tók upp sambýli við Náttúruverndarráð og Náttúrufræðistofnun. Er það hagræði fyrir báða aðila. Þá hefur myndast verulegur halli hjá stofnuninni vegna vangreiddra framlaga til sveitarfélaga vegna refa- og minkaveiða allt frá árinu 1989. Einkum eru það lítil og fátæk sveitarfélög sem eiga þessar greiðslur inni. Þrátt fyrir þessar 9,5 millj. er ljóst að uppsafnaður vandi áranna 1989 og 1990 er það mikill að út af standa 18 millj. kr.
    Þá er gert ráð fyrir að kostnaður ríkisins vegna veiða ársins 1991, sem á að greiðast árið 1992, verði um 37 millj. kr. Fjárln. telur nauðsynlegt að gera hlutaðeigandi ljóst að treysti fjárveitingavaldið sér ekki til að leggja fram fé til eyðingar refa og minka þá

verður að finna aðrar leiðir til að greiða fyrir þetta verkefni. Fram hefur komið að fyrirhugað er að leggja fyrir Alþingi breytingar á lögum um eyðingu refa og minka þar sem tekið verður á þessu vandamáli. Fjárln. mun ræða þessi mál frekar milli 2. og 3. umr.
    Ekki er ástæða til að mínu mati að fresta því endalaust að greiða skuldbindingar sem óhjákvæmilegt er að greiða, einkum ef haft er í huga að úrbætur eru fyrirhugaðar sem væntanlega minnka kostnað ríkissjóðs.
    Þá er lagt til að liðurinn Landmælingar Íslands, Sérstök verkefni í kortagerð, hækki um 2 millj. og verði því samtals 5 millj. kr. Þessi stofnun hefur á undanförnum árum haldið sig vel innan marka fjárveitinga sem vissulega er lofsvert þegar aðrir eru teknir til samanburðar. Nú er vandi stofnunarinnar mikill vegna sérstakra verkefna í kortagerð sem ekki mega bíða og því er þessi breyting gerð.
    Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara meira ofan í þessa þætti nema tilefni gefist til. Eftir að fjárln. hafði lokið tillögum sínum og athugun á frv. fyrir 2. umr. urðu nokkrar umræður á Alþingi um Lánasjóð námsmanna. Þá komu forsvarsmenn sjóðsins til viðræðu við fjárln. í síðustu viku. Fram kom að nú skortir sjóðinn samtals 300 millj. kr. til að geta staðið við skuldbindingar sínar til áramóta. Hér er vissulega um stóra upphæð að ræða en væntanlega óhjákvæmilega. Mun nefndin ræða þessi mál fyrir 3. umr. og skila tillögum.
    Í viðræðum nefndarinnar við forráðamenn stofnana og embætta þegar athugun á frv. átti sér stað kom fram að í flestum tilvikum komu fram eðlilegar skýringar á því að kostnaður hafði farið verulega fram úr áætlun fjárlaga eða að áætlanir um útgjöld sem stuðst var við þegar frá síðustu fjárlögum var gengið voru alls ekki raunhæfar. Í öðrum tilvikum kom fram að ekki var nógu traustlega staðið að fjármálastjórn og var lögð áhersla á það af hálfu fjárln. að þar yrði bætt úr.
    Fram kom hjá öllum nefndarmönnum eindreginn vilji til þess að setja skorður við greiðslum úr ríkissjóði umfram heimildir fjárlaga sem fjárlaganefndarmenn eru sammála um að hafi gengið úr hófi fram á liðnum árum.
    Nál. fjárln. er undirritað af öllum nefndarmönnum, þeim Karli Steinari Guðnasyni, Pálma Jónssyni, Árna Johnsen, Gunnlaugi Stefánssyni, Sturlu Böðvarssyni, Einari K. Guðfinnssyni, Guðmundi Bjarnasyni, Jóni Kristjánssyni, Margréti Frímannsdóttur, Guðrúnu Helgadóttur og Jónu Valgerði Kristjánsdóttur. Öll nefndin leggur til að brtt. verði samþykktar. Minni hlutinn gerir fyrirvara um ýmis atriði sem hann mun væntanlega gera grein fyrir hér á eftir.