Fjáraukalög 1991

28. fundur
Mánudaginn 18. nóvember 1991, kl. 14:00:00 (1002)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Fjárln. hefur nú fjallað um það frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1991 sem flutt er á þskj. 9 svo sem fram hefur komið í framsöguræðu hv. formanns fjárln. Eins og fram kom í máli hans varð samkomulag um nefndarálit allrar nefndarinnar, en þó af hálfu stjórnarandstöðunnar fyrirvarar um einstaka þætti. Veit ég að einstakir nefndarmenn munu gera grein fyrir einstökum atriðum í því sambandi af sinni hálfu. Þó eru sameiginlegir tveir meginfyrirvarar við einstaka þætti sem gerðar eru tillögur um af hálfu nefndarinnar og mun ég gera grein fyrir þeim aðeins síðar.
    Fjárln. hefur rætt við ýmsar stofnanir og fulltrúa flestra ráðuneyta um þetta frv. til fjáraukalaga. Eftir þær umræður og athuganir má segja að samstaða hafi náðst um flestallar brtt. Ég gat þess við 1. umr. um frv. að nauðsynlegt væri að halda þeim sið að leggja fram frv. til fjáraukalaga á ári hverju til þess að leiðrétta það sem kynni að einhverju leyti að hafa farið úrskeiðis og nauðsynlegt væri að taka á innan fjárlagaársins til þess að fjárgreiðslur úr ríkissjóði væru ávallt í samræmi við lög.

    Vissulega er það svo að í þessu fjárlagafrv. eru nokkur atriði, kannski má segja fjölmörg, sem rekja má til fyrirætlana fyrri ríkisstjórnar sem ekki náðu fram að ganga af ýmsum ástæðum sem hafa verið raktar í umræðum áður, bæði umræðum um fjáraukalögin, við 1. umr. fjárlaga fyrir næsta ár og í öðrum umræðum á þingi. Ætla ég ekki að eyða tíma í það frekar nú nema tilefni gefist til síðar í þessari umræðu. Vegna þessa þótti okkur full ástæða til að leita leiða og reyna að ná samtöðu um nefndarálitið sem tókst. Það felur þó ekki í sér neinar vísbendingar um að staðið verði að afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1992 með sama hætti. Ég reikna með að hæstv. ráðherrar skilji afstöðu okkar stjórnarandstæðinga í því efni því að í frv. til fjárlaga eru settar fram margar nýjar hugmyndir sem lýsa stefnumiðum núv. ríkisstjórnar sem stjórnarandstæðingar hvorki vilja né geta tekið undir. Mun ég auðvitað koma að því að ræða það síðar.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara yfir allar brtt., enda hefur hv. formaður nefndarinnar gert það ítarlega í sínu máli, en vil þó nefna sérstaklega nokkur atriði. Í nefndarálitinu er rætt um greiðslur án fjárheimilda og tilgreindir sérstaklega nokkrir liðir samkvæmt upplýsingum frá fjmrn. Út af fyrir sig höfum við stjórnarandstæðingar ekki ástæðu til þess að efast um að þar sé rétt og skilmerkilega frá greint. Þó eru ekki taldir upp nema fjórir liðir, allir nokkuð stórir, samtals upp á 425 millj. kr., og reyndar tekið sérstaklega fram um tvo þeirra að þeir séu samkvæmt ákvörðun fyrri ríkisstjórnar, þ.e aðstoð við kúrdíska flóttamenn og kynningarátak um Leif Eiríksson. Við þetta vil ég aðeins bæta að þessar fjárgreiðslur úr ríkissjóði munu hafa verið gerðar á þann hátt að vísað var á óskiptan lið sem ríkisstjórnin hafði til ráðstöfunar, en með þeim fyrirvörum að þegar kæmi að gerð fjáraukalaga fyrir þetta ár yrðu liðirnir teknir til skoðunar og fluttar um það tillögur að gert yrði ráð fyrir sérstökum fjárveitingum til viðkomandi verkefna eins og hér er lagt til.
    Þá langar mig að nefna einstaka þætti undir hinum ýmsu ráðuneytum og fyrst varðandi menntmrn. Ég bið formann fjárln. afsökunar ef hann hefur nefnt það, en ég minnist þess ekki, ég hef þá ekki tekið eftir því, að fulltrúar Lánasjóðs ísl. námsmanna gengu á fund nefndarinnar og báru fram með ósk um verulega viðbótarfjárveitingu vegna fjárlaga þessa árs upp á samtals 300 millj. kr. (Gripið fram í.) Þá hef ég bara ekki tekið eftir því hjá hv. formanni og bið hann afsökunar á því. Um það var rætt að það yrði tekið til umfjöllunar á milli umræðna. Enda álít ég það nauðsynlegt því að annars mun koma til þess að útlán stöðvist ef ekki verður reynt að líta á þessa beiðni stjórnar lánasjóðsins og komast að einhverri niðurstöðu um það hvaða fjárveitingu þarf að samþykkja til viðbótar þeim 400 millj. sem gert er ráð fyrir í fjáraukalagafrv. sjálfu.
    Þá langar mig að þakka fyrir að í brtt. nefndarinnar er að hluta til tekið tillit til fyrirheita sem fyrrv. ríkisstjórn hafði gefið vegna bygginga einstakra framhaldsskóla. Þó er það ekki að fullu gert og langar mig að nefna sérstaklega bréf frá 18. mars sl. þar sem fyrrv. hæstv. menntmrh. gerir grein fyrir samkomulagi sem náðist við Ísafjarðarkaupstað vegna byggingar íþróttahúss á Ísafirði. Þar var gefið fyrirheit um viðbótarfjárveitingu til þessa mannvirkis við gerð fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár. Þetta höfum við ekki rætt sérstaklega í nefndinni, en málið kom upp á mitt borð seinustu daga og vildi ég nefna það hér og jafnframt hafa fyrirvara um að það kunni að verða tekið til skoðunar fyrir 3. umr. hvort hægt er að verða við fyrirheitum sem gefin voru af fyrrv. ríkisstjórn.
    Varðandi heilbr.- og trmrn. vil ég nefna það, ekki síst út af því sem fram kom í ræðu hv. formanns nefndarinnar, að málefni ríkisspítala hafa verið til umræðu hjá nefndinni. Vissulega er gert ráð fyrir verulegri aukafjárveitingu í frv. sjálfu upp á 129 millj. kr. sem er vegna uppgjörs frá fyrra ári. Við fjárlagaafgreiðsluna kom það fram, m.a. í ræðu hv. fyrrv. formanns nefndarinnar, núv. hæstv. heilbrrh., að það þyrfti að skoða málefni ríkisspítala sérstaklega á þessu ári í tengslum við gerð fjáraukalega. Í þeirri ræðu kom m.a. fram að ekki væri fyllilega orðið við óskum, og þörfum, spítalanna um fjárveitingar á þessu ári. Óskir spítalanna nú þurfa því ekki að koma neinum á óvart. Einnig var gert ráð fyrir því að ríkisspítalar fengju nokkra upphæð af sameiginlegum lið til sjúkrahúsanna í Reykjavík sem á að úthluta úr samkvæmt tillögum frá svokölluðu samstarfsráði sjúkrahúsanna í Reykjavík sem hefur stoð í lögum. Eftir því sem fjárln. hefur fengið uppgefið er gert ráð fyrir að ríkisspítalarnir fái 65--70 millj. kr. út úr þeim lið auk þeirrar 21 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að bæta við fjárveitingar sem áður voru ráðgerðar í fjáraukalagafrv. sjálfu. Segja má því að hér sé mætt u.þ.b. helmingi þeirrar fjárþarfar sem ríkisspítalarnir telja sig nú standa frammi fyrir að upphæð 177 millj. kr.
    Ég tel nauðsynlegt að þetta verði skoðað frekar við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár því annars mun óhjákvæmilega koma til þess að ríkisspítalarnir þurfa að draga úr þjónustu. Eins og fram kom á fundi nefndarinnar af hálfu forsvarsmanna sjúkrahússins er það kannski auðveldast og fljótlegast með því að fækka annaðhvort hjartaaðgerðum eða bæklunaraðgerðum, nema hvort tveggja væri, því í þeim tilvikum er um að ræða kostnaðarsamar aðgerðir þar sem hægt er að spara hratt háar upphæðir ef dregið er úr þeim. En þá stöndum við líka strax frammi fyrir því að biðlistar muni lengjast og eru þeir líklega taldir ærnir einmitt hvað varðar hjartaskurðlækningar og bæklunaraðgerðirnar. Því tel ég ljóst, virðulegi forseti, að nauðsynlegt sé að skoða þetta mál nánar við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.
    Tryggingastofnun ríkisins fær einnig nokkra leiðréttingu í fjáraukalögunum, enda ljóst að áætlaður sparnaður næst ekki þar m.a. af ástæðum, sem áður hafa komið fram, að samstaða náðist ekki í fyrrverandi ríkisstjórn um hvernig staðið skyldi að þeim hugmyndum sem settar voru fram við fjárlagaafgreiðsluna í fyrra. En þótt stjórnarandstaðan samþykki þessar tillögur eins og þær liggja fyrir felst ekki í því neinn stuðningur við framkvæmd þeirra sparnaðaraðgerða sem hæstv. heilbrrh. hefur beitt sér fyrir og gripið til.
    Ég hef áður lýst því að við teljum nauðsynlegt að grípa til annars konar sparnaðaraðgerða, róttækari skipulagsbreytinga varðandi innflutning, sölu og verðlagningu lyfja, heldur en fara þá leið sem við vitum að farin hefur verið, þ.e. að leggja fyrst og fremst áherslu á að notendur lyfjanna, sjúklingarnir, taki þátt í kostnaðinum.
    Varðandi brtt. sem eru gerðar tillögur um á málaflokkum samgrn., eins og t.d. hækkun á framlögum vegna reksturs Hríseyjarferju eða svokallaðra Eyjafjarðarferja, vil ég geta þess að í bréfi, sem liggur fyrir nefndinni frá samgrn. dags. 15. okt. sl., er sótt um 18,7 millj. kr. Niðurstaða nefndarinnar er samt sem áður að gera aðeins tillögur um 7 millj. kr. hækkun sem er samkvæmt tillögum fjmrn. um að þannig verði staðið að málinu á þessu stigi, en jafnframt gefin fyrirheit um að málefni þessara ferja, svo og reyndar annarra sem höfðu sent inn erindi eða nefndin hafði hug á að skoða, verði tekin til frekari athugunar og skoðunar fyrir gerð fjárlaga á næsta ári, enda nauðsynlegt að koma því á hreint til frambúðar hvernig að málum skuli staðið. Ég óttast þó að þessar 7 millj. séu of lág upphæð miðað við þann kostnað sem lítill hreppur, Hríseyjarhreppur, hefur nú þegar lagt til reksturs þessara ferja og e.t.v. er nauðsynlegt að líta á málið nánar milli 2. og 3. umr. um fjáraukalögin.
    Þá barst nefndinni bréf frá umhvrn. um málefni Náttúruverndarráðs þar sem ráðuneytið framsendir tillögur Náttúruverndarráðs. Reyndar er ekki að finna í þessu bréfi, sem er stutt, neina afstöðu til málsins. Þar segir aðeins, með leyfi forseta: ,,Hér með er nefndinni [þ.e. fjárln.] send til meðferðar umsókn Náttúruverndarráðs dags. 21. okt. 1991 um aukafjárveitingu á þessu ári að upphæð 5.485.641 kr.``
    Engin afstaða er tekin til málsins og niðurstaða fjmrn. við athugun var sú að gera

ekki ráð fyrir aukafjárveitingu nú til Náttúruverndarráðs en málið yrði rætt nánar og skoðað fyrir gerð fjárlaga fyrir næsta ár, enda verðum við að gæta þess að einstakir þættir Náttúruverndarráðs lamist ekki eða leggist jafnvel af eins og hætta kann að vera á ef ekki er tekið að einhverju leyti tillit til þeirra upplýsinga og óska sem hér koma fram.
    Þá langar mig að koma að þessum sérstöku fyrirvörum sem stjórnarandstæðingar í fjárln. hafa sett fram við afgreiðslu þessa frv. og getið er um í nál. Fyrst eru það fyrirvarar við niðurskurð á fjárveitingum til opinberra framkvæmda sem eru samkvæmt frv. til framhaldsskóla 40 millj., til bygginga sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva 21 millj., til vegagerðar 350 millj. og til hafnamannvirkja 10 millj.
    Reyndar fylgja með sem fskj. listar um þennan niðurskurð þar sem greint er frá hvaða verkefni það eru sem hafa verið lækkuð. Þessir listar hafa verið lagðir fram í nefndinni og kynntir en ekki ræddir þannig að nefndin í heild tæki afstöðu til einstakra efnisþátta. Því verður að lýsa því skýrt yfir að hér er um að ræða ákvarðanir ríkisstjórnar studdar af ríkisstjórnarmeirihlutanum, enda þessar ákvarðanir teknar í sumar meðan framkvæmdir stóðu yfir og vart um það að ræða að gera á því miklar breytingar í dag þegar langt er liðið á árið og framkvæmdatíma að mestu lokið. Því eru þessir niðurskurðarlistar og tillögur algjörlega á ábyrgð ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans. Við fulltrúar stjórnarandstöðu í fjárln. lýsum því yfir fyrir okkar leyti að við tökum ekki ábyrgð á þessum tillögum.
    Hinn meginfyrirvarinn lýtur síðan að brtt. nr. 10 á þskj. 123 þar sem gert er ráð fyrir að útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum séu hækkuð um 700 millj. kr., úr 105 millj. eins og gert er ráð fyrir í frv. til fjáraukalaga í 805 millj.
    Svo sem fram kemur í nál. er um að ræða færslu á skuldbindingum ríkissjóðs vegna eignakaupa, einkum kaupa á fasteignum, en án greiðslna, þ.e. verið er að færa þann hluta viðkomandi eigna sem tekinn hefur verið að láni eins og hv. formaður fjárln. gerði grein fyrir í sinni framsöguræðu.
    Ég vil taka það skýrt fram að af hálfu stjórnarandstöðunnar erum við ekki á móti því að tekið sé upp það form að færa skuldbindingar almennt og tek undir það sem formaður gerði grein fyrir áðan í sinni ræðu, að hér er ekki um að ræða djúpstæðan skoðanaágreining, heldur miklu fremur um að ræða ágreining um málsmeðferð, hvernig staðið sé að þessu við gerð fjáraukalaganna. Þetta mál hefur verið lengi í undirbúningi og viðræður farið fram milli Ríkisendurskoðunar og fjmrn. og sérstök nefnd verið að störfum til að komast að niðurstöðu um hvernig skuli uppfæra þessar skuldbindingar. Frá þessu er skýrt í grg. fjárlagafrv. fyrir árið 1992 í 8. kafla á bls. 382 og langar mig, með leyfi forseta, að vitna aðeins til þess sem þar er sagt. Þar segir m.a.:
    ,,Ríkisreikningsnefnd hefur nýlega lagt fram tillögur um breytingu á framsetningu fjárlaga til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á ríkisreikningi. Í fyrsta lagi er talið nauðsynlegt að sem mest samræmi sé milli ríkisreiknings og fjárlaga. Í öðru lagi er ekki talið fullnægjandi að áfallnar en ógreiddar skuldbindingar ríkissjóðs séu færðar í ríkisreikningi eftir lok fjárlagaársins. Nauðsynlegt er að þær skuldbindingar sem ákveðnar eru eða falla á ár hvert sem hluti eða afleiðing af ríkisstarfseminni séu sýndar í fjárlögum. Yfirsýn yfir raunveruleg ríkisumsvif og breytingar þeirra frá einu ári til annars næst ekki annars. Eftir sem áður verða fjárlög að sýna innheimtar tekjur og greiðslur úr ríkissjóði, bæði vegna þess að ákvarðanir Alþingis um greiðslur ráða mestu um umsvif ríkisaðila á fjárhagsárinu og hins að raunhæfri stjórn og eftirliti með útgjöldum verður ekki við komið nema fjárlög beri beinlínis með sér ákvarðanir um greiðsluheimildir.`` --- Síðar í þessari grg. segir: ,,Ákveðið hefur verið að fjárlög verði framvegis sett fram samkvæmt þessum tillögum. Í fjárlagafrv. þessu er þannig í fyrsta sinn gerð grein fyrir þeim kröfum

ríkissjóðs og skuldbindingum sem taldar eru myndast á árinu 1992. Í tillögum ríkisreikningsnefndar er gert ráð fyrir að skuldbindingar og greiðsluheimildir komi fram í öllum greinum frv., þar með talinni 4. gr. Er lagt til að sundurliðun í þeirri grein verði á rekstrargrunni, þ.e. sýni skuldbindingar á fjárhagsárinu, en jafnframt verði fyrir hvern fjárlagalið sýnd ákvörðun Alþingis um greiðslur á árinu. Þessa breytingu hefur hvorki gefist tími né ráðrúm til að útfæra í frv. Því er gert ráð fyrir að fjárlög ársins 1992 verði afgreidd lögformlega með sama hætti og áður. Í þessum kafla kemur hins vegar fram yfirlit sem sýnir áætlaðan rekstrarreikning ársins og þær breytingar sem talið er að verði á áföllnum kröfum og skuldbindingum. Þá hefur jafnframt verið ákveðið að eftir afgreiðslu fjárlaga fyrir 1992 verði þau sett fram sérstaklega samkvæmt tillögum ríkisreikningsnefndar. Fjárlagafrv. ársins 1993 verður svo undirbúið og sett fram í fullu samræmi við þessar breytingar.``
    Hér er gerð ítarleg grein fyrir hvernig fyrirhugað er að standa að þessum málum og höfum við út af fyrir sig engar athugasemdir við það. Okkar fyrirvari er hins vegar fyrst og fremst sá að málið þurfi betri undirbúning eins og hér er lýst og kemur skýrt fram og ástæðulaust sé því og jafnvel óeðlilegt að taka á þennan hátt, sem hér er gerð tillaga um, aðeins einn þátt út úr og þjóni það í raun ekki neinum tilgangi.
    Í grg. með frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir 1989 er þetta einnig rakið ítarlega og rætt um nauðsyn þess að settar séu skýrar reglur og þar einnig greint frá eða rætt um nokkur atriði sem þarfnist sérstakrar athugunar og eru dregin þar fram. Mig langar einnig, með leyfi forseta, að vitna aðeins í þessa grg., en þar segir m.a.:
    ,,Ríkisreikningsnefnd leggur til að stefna beri að því að sýna allar skuldbindingar sem á ríkissjóði hvíla eins og þær eru best þekktar á hverjum tíma. Það er því mikilvægt þegar í upphafi að marka skýrar reglur um það með hvaða hætti kröfur teljast skuldbindandi og þar með bókunarhæfar fyrir ríkissjóð.``
    Þetta er greinilega sett fram því að menn telja að það þurfi að skoða vandlega, marka skýrar reglur og reyndar er ekki ævinlega ljóst hvenær kröfur teljast skuldbindandi. Hér eru t.d. nefndir nokkrir þættir sem þarf að skoða ítarlega, það eru lífeyrisskuldbindingarnar, það eru skuldbindingar við sveitarfélög vegna framkvæmda og rekstrar, það eru vextir og það eru ríkisábyrgðir. Í kaflanum um vexti segir m.a.: ,,Álitamál er hvaða vexti skal gjaldfæra. Þar kemur tvennt til. Annars vegar að miða við beinan útreikning á áföllnum vöxtum samkvæmt ákvæðum lánssamnings, hins vegar að finna út raunvexti og gjaldfæra þá. Í því samhengi var einnig óútkljáð hvaða verðmæli á að beita við umreikning til raunvaxta.``
    Þetta sýnir m.a. að ekki eru enn þá skýrar reglur um hvernig að þessu skuli staðið. Varðandi ríkisábyrgðirnar segir: ,,Til álita kemur að ganga lengra og færa til gjalda í A-hluta samsvarandi fjárhæð og Ríkisábyrgðasjóður afskrifar í sínum reikningi vegna affalla. Ákveðið var að bíða með frekari breytingar þar til fyrir liggur skilgreining vinnuhóps um flokkun ríkisaðila og skilgreiningu í málaflokka.``
    Allt þetta finnst okkur fulltrúum stjórnarandstöðunnar sýna að málið sé á undirbúnings- og vinnslustigi og ekki tímabært að taka það inn í fjáraukalög. Mætti reyndar nefna enn frekari dæmi. Ég get t.d. nefnt að í tillögum fjárln. er gert ráð fyrir viðbótargreiðslu til framhaldsskóla á Húsavík upp á 5 millj. kr. sem er ekki nema hluti af skuldbindingunni við þennan skóla. Þar liggur fyrir samningur upp á 70 millj. Hefði þá ekki verið rétt í samræmi við hitt að taka þessar 70 millj. inn og gera síðan sérstaklega grein fyrir að af þessum 70 millj. ætti nú ekki að greiða nema 5 millj.? Um það snýst málið að alveg sé skýrt hvenær um er að ræða skuldbindingu, hvenær hún er orðin bókunarfær og síðan að alveg skýrt og greinilega komi fram hvað af þeirri skuldbindinu á að greiða út.

    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég hef reynt að gera stuttlega grein fyrir þeim athugasemdum og fyrirvörum sem við stjórnarandstæðingar gerum sameiginlega við þetta nál., svo og nokkrum öðrum einstökum þáttum sem ég tel að þurfi að skoða nánar, annaðhvort milli 2. og 3. umr. eða við fjárlagagerðina fyrir næsta ár, en veit að einstakir nefndarmenn munu síðan gera frekari grein fyrir því sem þeir vilja hér láta koma sérstaklega fram.