Fjáraukalög 1991

28. fundur
Mánudaginn 18. nóvember 1991, kl. 14:43:00 (1004)

     Pálmi Jónsson :
     Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykn., formaður fjárln., hefur gert glögga grein fyrir afgreiðslu fjárln. á fjáraukalagafrv. fyrir árið 1991, hér við 2. umr. Með sama hætti hafa hv. 1. þm. Norðurl. e. og 6. þm. Vestf. flutt hófsamar ræður og skýrt sína afstöðu í glöggu máli. Í sjálfu sér er ekki ástæða til fyrir mig að bæta miklu við. Ég vildi þó aðeins koma að örfáum atriðum.
    Í fyrsta lagi vil ég gjarnan gera grein fyrir því að verði þær tillögur sem liggja fyrir frá fjárln. samþykktar blasir við sú staða í fjármálum ríkisins á þessu ári að gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs hækki einungis um 200 millj. en útgjöldin hækki hins vegar frá því sem fjárlög gerðu ráð fyrir um 5,9 milljarða. Það sést því að það hallast verulega á í afkomu ríkissjóðs miðað við það sem var þegar fjárlög voru afgreidd fyrir tæpu ári síðan.
    Við þetta vex halli ríkissjóðs frá því sem fjárlög gerðu ráð fyrir, sem var um 4,1 milljarður, í 9,8 milljarða. Nú er það svo að í sjálfu sér á þetta ekki að koma sérstaklega á óvart og þessi staða kemur mér ekki á óvart. Ég skal ekki fara að rifja upp það sem ég sagði hér í þessum ræðustól fyrir tæplega ári síðan --- og kannski hefur nú ræðustólnum verið breytt við nýskipan mála hér á Alþingi. En á þessum stað sagði ég fyrir ári síðan að ég liti svo á að þó að fjárlög væru afgreidd með 4,1 milljarða halla á pappírnum væri halli fjárlagadæmisins eins og það leit út þá eigi minni en 6--7 milljarðar. Sú tala var mjög varlega metin að minni hálfu því að tölulegar áætlanir mínar greindu 8 milljarða á þeirri stundu og ég sundurgreindi þær áætlanir mínar í einstökum atriðum en vegna ýmissa óvissuatriða sem geta haft áhrif á útkomuna var mín niðurstaða varlega metin á 6--7 milljarða. Nú er þetta þegar hærra og kannski óvíst hvort öll kurl séu til grafar komin eins og fram hefur komið í máli bæði formanns nefndarinnar og annarra nefndarmanna sem talað hafa á undan mér.
    Ég held að það blandist engum hugur um að þessi staða er alvarleg og eykur þann

vanda sem við er að fást fyrir núv. ríkisstjórn í fjármálum ríkisins við afgreiðslu fjárlaga, bæði fyrir næsta ár og næstu ár, þ.e. á því kjörtímabili sem er nýlega hafið. Þennan lestur er ég nú búinn að flytja svo oft að ég ætla ekki að þreyta hv. alþm. sem hér eru viðstaddir á því að fara langt út í þá sálma að þessu sinni, en aðeins vekja athygli á þessum örfáu dráttum úr þeirri ásýnd sem nú blasir við í þessu dæmi. Ég skal heldur ekki fara langt út í það að greina það í sundur hvað af þeim hækkunum eða þeim breytingum sem verða á fjárlagadæminu við afgreiðslu frv. eigi rætur hjá fyrrv. eða núv. ríkisstjórn. Ég tel sjálfsagt að segja það sem rétt er að nokkuð af þeim hækkunum, sem hér er verið að fara fram á með frv. og með þeim brtt. sem fyrir liggja, eiga rætur sínar hjá núv. ríkisstjórn. Þar er einn liður langstærstur, þ.e. útflutningsbætur á kindakjöti til Mexíkó sem er flýting á útflutningsbótagreiðslum sem er ætlast til að sparist á næsta fjárlagaári sem þessu nemur. En það er um 390 millj. kr. Ég tel að þetta hafi verið rétt ákvörðun og betri leið en aðrar sem voru í augsýn varðandi ráðstöfun á kjötinu. Annar stærsti útgjaldapóstur í frv. sem er á ábyrgð núv. ríkisstjórnar er 35 millj. kr. vegna hækkunar á niðurgreiðslum á raforku til húshitunar. Ég geri ráð fyrir því að ekki séu gagnrýnisraddir varðandi þann lið. Aðrir liðir eru miklu smærri sem samtals nema nokkrum tugum millj. kr. En meginþunginn er því vegna ákvarðana eða fyrirheita sem tekin hafa verið af fyrri stjórnvöldum. Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að svo skuli vera þótt ég og ýmsir aðrir hafi gagnrýnt að það hafi í ýmsum tilvikum verið helst til gáleysislega með farið.
    Það er svo aftur önnur saga, sem líka er gagnrýnt, að í frv. eru gerðar tillögur um niðurskurð á ýmsum liðum af hálfu núv. ríkisstjórnar og þær niðurskurðartillögur eru hærri en þær tillögur til aukinna útgjalda sem kenna má við þá hæstv. ríkisstjórn sem nú situr. Ég kýs að láta þessi orð duga varðandi þetta yfirlit sem ég hef drepið á í örfáum punktum.
    Nokkuð hefur verið rætt um uppsetningu á fjárlagafrv. og í tilefni af því að meiri hluti fjárln., --- ég var nú ekki sjálfur viðstaddur --- hefur tekið ákvörðun um að taka inn til gjalda skuldbindingar og útgjöld vegna fasteignakaupa á þessu ári um 700 millj. kr. Ég skal heldur ekki fara djúpt í þá umræðu sem aðeins hefur verið hafin um þetta efni. Ég vil þó segja það að ég hygg að það hljóti að vera markmið okkar allra alþingismanna það ætti að vera markmið hæstv. ríkisstjórnar á hverjum tíma og það ætti að vera markmið þeirra sem starfa í stjórnkerfinu, að uppsetning fjárlaga sé sem allra skýrust og sé þannig að ólíklegt sé að valdi misskilningi. Ég tel að það væri mjög mikill kostur að uppsetning fjárlaga væri í samræmi við uppsetningu ríkisreiknings eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. vitnaði til þar sem hann las úr athugasemdum með fjárlagafrumvarpinu. Ég held að þessi mál séu yfirleitt það flókin að þó að við, sem erum búin að starfa að þessum málum í fjölda ára, skiljum hvað um er að vera þá væri það mjög til að auðvelda skilning hins almenna alþingismanns og hins almenna borgara í landinu ef ekki væri mismunur þarna á milli. Núna er verulegur mismunur á þessu. Þetta hef ég gagnrýnt á undanförnum árum.
    Ég tek eftir því að á borð þingmanna er komið frumvarp til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1989. Ég hygg að niðurstöður í því frv. séu með býsna mikið öðrum hætti en var á fjáraukalögum fyrir árið 1989. Samkvæmt frv. greinist halli á ríkissjóði hvorki meira né minna en 64,4 milljarðar á árinu 1989. Það er hrikaleg tala og margfalt hærri en er á fjáraukalögum.
    Ég held að það væri keppikefli að samræmi væri í þessum efnum. Ég get nefnt eitt dæmi úr fjáraukalagafrv. sem liggur hér fyrir. Það er gert ráð fyrir að taka inn til gjalda 180 millj. kr. vegna útflutningsbóta sem fram fóru á árinu 1988. Og alla stund síðan hefur þessi tala verið einhvers staðar í leyni í skúffum ríkiskerfisins, fjmrn., og ekki komið fram í yfirliti um fjárhag ríkisins. Ég tel að þetta sé fullkomlega óeðlilegt og hefði betur

verið sýnt í fjárlögum eða fjáraukalögum fyrir árið 1988 eða a.m.k. fyrir árið 1989. Ég álít að engum sé til góðs að haga reikningsskilum á þann máta að það komi ekki sem skýrast fram á hverjum tíma hvernig staðan er. Gildir alveg einu hvaða ríkisstjórn situr í landinu.
    Ég vil aðeins ljúka þessum almennu hugleiðingum um þetta atriði með því að segja það sem mína skoðun að mér lýst ekkert sérstaklega vel á þá aðferð sem boðuð er í athugasemdum með fjárlagafrv. fyrir næsta ár að setja upp fjárlagafrv. og fjárlög með tvenns konar hætti í sama plaggi. Það verður væntanlega ekki til að greiða fyrir því að skilningur manna á þessu sé öruggur. Að fá í hendur fjárlagafrv. og síðan væntanlega fjárlög sem eru með tvenns konar niðurstöðum. Í fyrsta lagi samkvæmt svokölluðum greiðslugrunni og í öðru lagi samkvæmt svokölluðum rekstrargrunni. Þetta er að mér sýnist ekki álitleg leið. Þar ofan í kaupið tel ég að við ættum að kappkosta að skipa þessum málum á þann veg að þeir sem með stjórnvölinn fara hverju sinni þurfi ekki vegna uppgjörsákvarðana að liggja undir gagnrýni frá Ríkisendurskoðun sem er óháð stofnun og á að hafa það verk með höndum að endurskoða og gagnrýna bæði formlega og efnislega meðferð þessara mála.