Útfærsla togveiðilandhelginnar

28. fundur
Mánudaginn 18. nóvember 1991, kl. 15:16:00 (1006)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegi forseti. Ég fagna því að tillaga af þessu tagi skuli vera flutt. Ég tel að taka eigi þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar. Þarna er auðvitað verið að leggja til að teknar verði upp meiri sóknartakmarkanir en hafa verið í gildi og ég held að það sé affarasælast fyrir okkur að fara inn á þá braut að stjórna fiskveiðunum sem allra mest með sóknartakmörkunum.
    Flm. tillögunnar benti á ýmsa þætti í stjórn fiskveiðanna og sókn í fiskstofnana sem styðja að menn beiti sóknartakmörkunum frekar en þeim aflatakmörkunum sem aðallega eru í gildi núna. Eitt er það sem mér finnst aldrei of oft sagt í sambandi við þessi mál og það er að ef menn einblína á þann eina þátt í sambandi við stjórn fiskveiðanna sem menn hafa talið stærstan og vera helstu röksemdina fyrir því kvótakerfi sem er í gildi núna, þ.e. þessi svokallaða hagræðing, þá hefur hún bara farið fram með einum hætti, að menn skoða hvernig rekstur viðkomandi fyrirtækja gangi og það eigi að ráða því hvar vöxturinn verði í sjávarútveginum. Þá stöndum við frammi fyrir því að núna græðir nánast enginn á útgerð nema hann geri út frystitogara. Skyldi þá vera hagkvæmt fyrir þjóðina að veiða allan fisk á frystitogara? Það væri gaman að sjá það dæmi reiknað út. Einnig væri gaman að sjá það dæmi reiknað út hvort það borgaði sig að veiða allan fisk við Ísland á togurum eingöngu og bera það saman við þegar notaðar eru blandaðar aðferðir við nýtingu fiskstofnanna eins og hefur verið gert undanfarin ár, en því miður höfum við verið að færa sóknina frá bátaflotanum yfir til togveiðanna meira og meira. Og það eru ekki bara stóru togararnir sem við höfum verið að færa veiðarnar til, heldur líka til minni togskipa. Við höfum verið að færa okkur nær landinu. Allt í kringum landið höfum við verið að færa okkur nær. Við högum okkur örugglega ekki betur á miðunum en var gert þegar við töluðum um ryksugutogara annarra þjóða og við eigum öflugustu skip sem hafa veitt við Íslandsstrendur fram á þennan dag.
    Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem menn hafa hreyft málum hér á Alþingi í sambandi við að auka sóknartakmarkanir og að setja sérstaka togveiðilandhelgi í kringum landið. Menn hafa óskað eftir að það væri gert á ýmsum stöðum í kringum landið í mörg ár. En ekkert hefur orðið úr þessum hugmyndum og oft og tíðum hafa fiskifræðingar t.d. ekki tekið undir þær hugmyndir sem menn hafa verið með um friðun svæða, sbr. t.d. friðun fyrir dragnót víða í kringum landið. Ég nefni t.d. hér í Faxaflóanum og fyrir Hvalfirði og víðar. Það hefur verið talið þyngra á metunum sem fiskifræðingar hafa sagt en það sem reynslan hefur sagt í gegnum tíðina, að eftir að dragnótinni var hleypt inn hefur afli minnkað nokkuð fljótlega. Þetta hafa menn rakið langt aftur í tímann og séð að það hefur endurtekið sig í hvert skipti. Samt sem áður hefur Alþingi samþykkt tillögur um að menn fái að nýta sér þessi veiðisvæði með dragnót.
    Nú hafa Vestmannaeyingar risið upp eina ferðina og heimtað landhelgi í kringum eyjarnar. Ég tel að gefa eigi gaum að því sem menn eru að segja um þessi mál og ég tel að það eigi að skoða með hvaða hætti borgar sig að veiða fisk við Ísland. Það eigi að bera saman kostina. Svo að ég nefni bara eitt einfalt dæmi, sem ég tek fram að er mjög ónákvæmt, mundi líklega þurfa 3000 tonn til þess að hafa handa virkilega sæmilegum togara til að veiða. Í kringum útgerðina á honum væru 25--30 menn, í hæsta lagi 35 ef við teljum alla sem eru með í landi líka. Hann þyrfti sem sagt 3000 tonna kvóta. Ef við veiddum þennan afla, til að hafa dæmið einfalt, á 30 10 tonna bátum og á þá þyrftum við 60 menn. Og við þyrftum menn í landi. Ætli við þyrftum ekki um 90 manns í kringum þessa báta sem mundu veiða sama og togarinn. Allir hefðu þessir menn þokkaleg laun miðað við fiskverð í dag, bara góð laun. Þetta þurfa menn auðvitað að skoða og gefa gaum að þegar verið er að hugsa um hvernig eigi að nýta landhelgina. Það sem mér finnst vera aðalatriði málsins, og úr því þurfum við að bæta og sem allra fyrst, er að menn viti hvað þeir eru að tala um, að það verði reiknað út og það sé til einhvers staðar aðgengilegt á blöðum þannig að menn hafi aðgang að upplýsingum um hvernig borgar sig að nýta fiskimiðin.
    Ég held því ekki fram að við eigum engin stórskip að eiga. Það er svo langt frá því, en við höfum í mörg ár verið að færa veiðarnar frá bátaflotanum og yfir í togaraflotann og það virðist vera alger einstefnuventill á þessu og við þetta verður ekki stoppað nema menn geri ráðstafanir til þess. Fleira er að gerast. Þetta kerfi sem er í gangi núna veldur því að ýmsar smærri byggðir í kringum landið lenda í ógöngum. Það er t.d. að gerast núna. Vegna fiskveiðilaganna sem eru í gildi, eru menn, sem hafa haft krókaveiðileyfi á smærri stöðum --- og reyndar líka á stærri stöðum hafa smábátar verið undirstaða atvinnunnar --- hamast núna við að reyna að ná sér í veiðiheimildir sem hugsanlega verður úthlutað á þessa báta árið 1993. Þó nokkir bátar hafa verið smíðaðir eða skipt út fyrir aðra fyrir menn sem eru núna að skapa sér aflaheimildir. Ef það verður gert, sem stendur í fiskveiðilögunum, þ.e. að aflamarki verði úthlutað á þessa litlu báta árið 1993, er búið að grafa undan því fólki sem hefur gert út litlu bátana vegna þess að þeir, sem hafa komið sér upp afkastamestu bátunum undir 6 tonnum, munu hirða langstærsta hlutann af þeim aflaheimildum sem hefur verið úthlutað. Hinir sem hafa verið að gera út minni báta í gegnum tíðina, kannski frá vori til hausts, og fiska við skulum bara segja 20--30 tonn munu lenda í því að þeirra afli verður stórlega skertur vegna þess að gert er ráð fyrir því í lögunum að ekki verði úthlutað til þessa hóps nema ákveðnu magni. Þetta mun hafa mjög slæmar afleiðingar og ég vonast til þess að menn reyni að finna samstöðu um að eyða óvissu á landsbyggðinni gagnvart þessum hlutum.