Útfærsla togveiðilandhelginnar

28. fundur
Mánudaginn 18. nóvember 1991, kl. 15:24:00 (1007)

     Matthías Bjarnason :
     Herra forseti. Ég tel að hér sé hreyft mjög þörfu máli. Það er ekki höfuðatriðið að skipa eina nefndina enn heldur fyrst og fremst að taka þetta inn í þá endurskoðun sem núna á sér stað. Ég tek alveg undir röksemdafærslu hv. flm. í framsögu hans og í greinargerð. Ég vil gjarnan minna á að á meðan erlend togveiðiskip fiskuðu allt inn á firði og flóa var barátta að koma þeim út úr fjörðum og flóum. Það var mikil barátta að loka flóum og að koma síðan á 12 mílna landhelgi. Ekki voru síður átök við 50 mílna fiskveiðilögsöguna og síðast en ekki síst við 200 mílna fiskveiðilögsöguna.
    Sú var tíðin að bátarnir áttu alltaf í vök að verjast fyrir ágangi stærri skipa. Það er alveg eins með það og sá sem er lítill og hefur ekki mikinn kraft verður oft undir í samkeppni við þann stærri og sterkari og þess vegna var það hörð barátta að auka rétt bátanna á hinum hefðbundnu fiskimiðum. Ég er upprunninn í því héraði sem varð harðast úti vegna ágengni erlendra togveiðiskipa áratugum saman. Það var eiginlega daglegur viðburður að togarar fóru yfir veiðarfæri litlu bátanna og stundum urðu meira að segja slys af, bátar sukku og mannslífum var fórnað í þeirri baráttu. Þess vegna var það ein höfuðröksemd okkar fyrir því að færa landhelgina út og allt út í 200 mílur að losna við þessi stóru afkastamiklu skip af veiðislóðum og færa stærri skipin utar og það er meginefnið í rökstuðningi flm. þessarar tillögu. Undir það tek ég af heilum hug. Okkur öllum er ljóst að bæði lítil fiskiskip og stór verða að vera til. Stóru fiskiskipin, togararnir, hafa sitt mikilvæga hlutverk og hafa orðið mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf vítt og breitt um landið en við megum ekki gleyma því að minni skipin eiga líka sinn tilverurétt og þau eru líka uppistaðan einkum á minnstu stöðunum og auka einnig fjölbreytni veiðanna.
    Sjávarútvegurinn á mjög í vök að verjast. Stór hluti þjóðarinnar sem virðist ekki skilja eða muna að sjávarútvegurinn er undirstaða atvinnulífsins og hornsteinninn að efnahagslegri stöðu Íslands og hefur verið í fjöldamörg ár og mun svo lengi verða enn.
    Hins vegar er mjög mikil sundurþykkja í sjávarútveginum. Þar skiptast á hagsmunir svo margra aðila og hefur verið gengið allt of langt í þeirri hagsmunatogstreitu. Við eigum auðvitað öll að geta hagnýtt fiskimiðin í sátt og samlyndi en þó með því eina móti að taka meira tillit til hvers annars innan þessarar atvinnugreinar. Þeir sem á stóru skipunum eru verða að taka tillit til þeirra smáu. Sama er að segja í sambandi við fiskvinnsluna. Það er ekki allt fengið með því að fiska og fiska en sjá ekki um það að halda uppi fiskvinnslu og fiskvinnslustefnu vítt og breitt um landið og þar skerast aftur hagsmunir manna. Sumir vilja fara með aflann oft óunninn úr landi og mæta þar óskum og kröfum erlendra þjóða sem vilja gjarnan fá þennan afla til vinnslu en við þurfum sannarlega á honum að halda. Þegar syrtir í álinn eins og nú og framtíðarvonir hafa brugðist er enn meiri ástæða til þess að huga að þessum málum í líkum anda og flm. tillögunnar tillögu gerir grein fyrir og skýrir í greinargerð.
    Ég endurtek það að ég fagna því að þessu máli er hreyft með þessum hætti og þakka flm. fyrir að hafa flutt tillöguna.