Lyfjatæknaskóli Íslands

28. fundur
Mánudaginn 18. nóvember 1991, kl. 15:31:01 (1008)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :

     Virðulegi forseti. Frv. þetta fjallar um tilflutning og afnám skóla heilbrigðisstéttanna og var upphaflega flutt á 113. löggjafarþingi 1990 í samræmi við samkomulag heilbr.- og trmrn. og menntmrn. um tilflutning á þeim skólum sem störfuðu á vegum fyrrnefnda ráðuneytisins yfir til þess síðarnefnda.
    Í upphaflegu frv. var gert ráð fyrir tilflutningi Þroskaþjálfaskóla Íslands yfir til menntmrn. auk þeirra skóla sem hér eru nefndir og féllst Alþingi á þann tilflutning, sbr. lög nr. 30/1991, um breytingu á lögum um Þroskaþjálfaskóla Íslands, nr. 40/1985. Eftir stendur því að taka afstöðu til flutnings Lyfjatæknaskóla Íslands og að leggja niður Ljósmæðraskóla Íslands auk annarra nauðsynlegra lagabreytinga í tengslum við þessi atriði en ekki vannst tími til að taka á þeim þáttum á síðasta þingi.
    Á vegum heilbrrn. hafa verið starfræktir nokkrir skólar heilbrigðisstétta sem eiga það sammerkt að veita hlutaðeigandi stéttum starfsmenntun sem gefur rétt til ákveðinna starfa. Áður og fyrrum voru þessir skólar sex talsins, þ.e. Hjúkrunarskóli Íslands, Röntgentæknaskóli Íslands, Lyfjatæknaskóli Íslands, Þroskaþjálfaskóli Íslands, Ljósmæðraskóli Íslands og Sjúkraliðaskóli Íslands.
    Með breytingu á hjúkrunarmenntun var Hjúkrunarskóli Íslands lagður niður og náminu fenginn staður í Háskóla Íslands.
    Röntgentæknanám var fært undir Tækniskóla Íslands fyrir nokkrum árum og Þroskaþjálfaskólinn færður í fyrra undir menntmrn. sem sérskóli eins og áður segir.
    Sjúkraliðaskólinn var lagður niður samkvæmt samkomulagi ráðuneytanna frá og með 1. nóv. 1990 en sú ráðstöfun ein og sér kallaði ekki á lagabreytingar þar sem lagaákvæði um skólann, sem er að finna í lögum um sjúkraliða, eru almenns eðlis. Sjúkraliðanámi hefur verið komið fyrir innan fjölbrautakerfisins og er nú stundað í ýmsum fjölbrautaskólum víðs vegar um landið og veita þeir sjúkraliðum jafnframt möguleika á framhaldsmenntun með stúdentsprófi og aðgengi að hjúkrunarfræðibraut Háskóla Íslands.
    Samkvæmt áðurgreindu samkomulagi ráðuneytanna og þeirri stefnu að rekstur skóla, hvaða nafni sem nefnast, skuli vera á verksviði menntmrn. á eftir að taka afstöðu til tveggja skóla sem enn heyra undir heilbr.- og trmrn., annars vegar Lyfjatæknaskóla Íslands og hins vegar Ljósmæðraskóla Íslands.
    Með frv. þessu vill ráðuneytið freista þess að koma málum fyrir í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag og jafnframt að gerðar verði nauðsynlegar lagabreytingar til þess að tryggja framgang málsins og eðlilegar leiðréttingar á lögum sem um þessa skóla fjalla.
    Gert er ráð fyrir því samkvæmt frv. að Lyfjatæknaskóli Íslands flytjist yfir til menntmrn. og verði sérstök námsbraut innan framhaldsskólakerfisins. Þetta kallar á breytingu á 15. gr. laga um lyfjadreifingu, nr. 76/1982, en þar er að finna lagastoð fyrir Lyfjatæknaskóla Íslands.
    Lagt er til að 1. mgr. 2. gr. laga um sjúkraliða, nr. 58/1984, með síðari breytingum, verði breytt þannig að ekki verði lengur vísað til Sjúkraliðaskóla Íslands, en hann er eins og áður hefur komið fram ekki lengur til sem sérstök stofnun.
    Enn fremur er lagt til að 4. mgr. 5. gr. laga um sjúkraliða verði felld niður en þar er vísað til náms í Sjúkraliðaskóla Íslands sem er óraunhæft eins og áður segir.
    Í samræmi við áðurnefnt samkomulag ráðuneytanna hvað snertir Ljósmæðraskóla Íslands sérstaklega er ekki lagt til að hann flytjist yfir til menntmrn. heldur að hann verði lagður niður við önnur áramót þannig að þeir nemendur sem hófu nám í fyrrahaust verði þeir síðustu sem ljúka námi frá skólanum, en ekki var tekið inn í skólann í haust.
    Rétt er að vekja athygli á því að ekki er með þessu verið að leggja niður ljósmæðranám heldur er út frá því gengið að menntmrn. annist framtíðarskipan námsins, hugsanlega í tengslum við námsbraut í hjúkrunarfræðum í Háskóla Íslands. Til þess að þetta nái

fram að ganga er nauðsynlegt að breyta tvennum lögum. Annars vegar lögum nr. 35/1964, um Ljósmæðraskóla Íslands, þar sem gert er ráð fyrir því að lögin falli úr gildi við önnur áramót og hins vegar 1. mgr. 2. gr. ljósmæðralaga, nr. 67/1984, þar sem fjallað er um veitingu starfsleyfa.
    Að gefnu tilefni vek ég athygli á því að samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 22. maí sl., og raunar samkvæmt ákvæðum landslaga þar um, skal umsögn fjmrn. vera fylgiskjal með öllum stjfrv. Svo er ekki hér fyrir misskilning. Ráðuneytinu hefur hins vegar borist umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. um frv. og verður umsögninni dreift til þingmanna. Staðfestir umsögnin það sem áður er sagt um kostnaðarlækkun, en umsögnin hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Umsögn um frv. til laga um breytingu á lögum um Lyfjatæknaskóla Íslands, sjúkraliða, Ljósmæðraskóla Íslands og á ljósmæðralögum.
    Helstu breytingar sem frv. felur í sér eru eftirfarandi:
    1. Lyfjatæknanám flyst frá heilbr.- og trmrn. til menntmrn. og er stefnt að því að námið verði framvegis starfrækt við framhaldsskóla í samvinnu við samtök lyfsala.
    2. Ljósmæðraskóli Íslands verður lagður niður og um leið breytast ljósmæðralög vegna veitingar starfsleyfa ljósmæðra.
    3. Starfsleyfi sjúkraliða breytast til samræmis við það að Sjúkraliðaskóli Íslands hefur þegar verið lagður niður.
    Frv. þetta gerir ráð fyrir að lyfjatæknanám flytjist yfir til menntmrn. og að námið verði gert að sérstakri námsbraut innan framhaldsskóla. Skólanum er ætluð 10 millj. kr. fjárveiting undir heilbr.- og trmrn. í frv. til fjárlaga fyrir árið 1992. Við skólann eru 3,35 stöðugildi. Af heildarkostnaði við skólann eru um 3 millj. kr. sem telja má fastan kostnað, þ.e. húsnæði, skrifstofuhald og stjórnun, og má gera ráð fyrir lækkun hans verði skólinn lagður niður.
    Til Ljósmæðraskóla Íslands eru ætlaðar 2,6 millj. kr. í fjárlagafrv. fyrir árið 1992, einnig undir heilbr.- og trmrn. Skólinn hefur 1,5 stöðugildi. Skólinn starfar nú innan vébanda ríkisspítala og er honum ekki ætlaður sérstakur fastakostnaður. Nær allur kostnaður við skólann eru kennslulaun. Gert er ráð fyrir að ljósmæðranám flytjist til Háskóla Íslands og verði hluti af eða viðbót við hjúkrunarnám þar.
    Um aðrar breytingar þessa frv. þykir ekki ástæða til að fjölyrða.``
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til heilbr.- og trn. og legg áherslu á að reynt verði að koma því svo fyrir að málið geti hlotið afgreiðslu fyrir áramótin.